Guð allsherjar, allsstaðar

Reynir Eyvindsson

Ég syng í kór Akraneskirkju.  Samt er ég eins og flestir Íslendingar, alveg trúlaus.  Ég hef hinsvegar alltaf haft gaman að því að syngja.  Í gamla daga sungum við „Hlíðin mín fríða“ í réttunum.  En í kirkjunni er það „Konungur lífsins“, við sama lag. Þegar ég syng sálmana í kirkjunni, get ég alveg lifað mig inn í þá.  Fyrir mér er „konungur lífsins“ ekki gráhærður, almáttugur og töluvert hefnigjarn og ósanngjarn öldungur. Frekar bara framrás lífsins, eða lífið sjálft, eða samfélagið sem við búum í. Eitthvað sem stjórnar lífinu, hvort það er tilviljun, ég sjálfur, fólkið í kringum mig eða tíminn. Við fullorðna fólkið erum búið að læra að lifa með Guði, kirkjunni og biblíunni. Við tökum hæfilega mikið mark á því. Margir prestar leggja líka mesta áherslu á jákvæða boðskapinn í biblíunni, og minni áherslu á það óræða, óskiljanlega, gerræðislega og mannfjandsamlega sem er þar líka.

 

Fermingarbarn

Nú er fermingarfræðslan byrjuð. Þegar ég syng við fermingar, fylgist ég oft með krökkunum.  Sum hlæja og flissa og finnst þetta asnalegt.  Ég var svoleiðis.  Hef áreiðanlega verið frekar bjánalegur í minni fermingu.  „Fermingarbarn, til fylgdar þig hann kveðjur“ syng ég, og seinna „Styrki þig Guð að velja veginn rétta, viskan og náðin sveig úr rósum flétta“.  Ég hugsa um Guð í óeiginlegri merkingu, og get þannig sungið textann með innlifun.  En fermingarbarninu gæti ekki verið meira sama.

 

„Ég trúi á guð föður almáttugan“

Er það ekki bara eins gott að fermingarbarninu standi alveg á sama?  Hvað ef það virkilega trúir því sem presturinn er að segja.  Erum við að gera rétt, þegar við förum fram á við óhörnuð ungmenni að þau lýsi því yfir frammi fyrir öllum söfnuðinum að þau vilji „leitast við að hafa Jesú krist að leiðtoga lífsins“.  Þau eru nýbúin að fatta að jólasveinninn er bara plat, en núna er sagt við þau í fullri alvöru að það sé annar jólasveinn sem er jafn óskiljanlegur og sá í rauða gallanum, en hann eigi þau að trúa á.  Alveg sama hvað þau eru búin að læra í skólanum, um siðfræði, mannréttindi og uppruna alheimsins.

 

Er fermingin beinlínis skaðleg?

Við förum fram á að ungmennin varpi frá sér skynseminni, og fylgi hinum sterka leiðtoga í blindni.  Er það gott ef þau ákveða að gera það í alvöru?

Þráinn Bertelsson sagði eftir kosningarnar 2009 að Sjálfstæðisflokkurinn hefði unnið stærsta kosningasigurinn.  Hann hélt heilum 25% af atkvæðunum þrátt fyrir að hafa algerlega rústað fjármálakerfinu, kallað yfir þjóðina risa-skuldbindingar og komið á haftastefnu, svipaðri og var um miðja síðustu öld.  Meira en helmingur fyrirtækja var tæknilega gjaldþrota.  Getur verið að fermingin hafi áhrif hérna?  Stjórnmálaflokkar eru þau öfl sem stjórna aðstæðum okkar í nútímanum, Guð gerði það í fortíðinni.  Hafa þeir sem trúðu á fermingarheitið, ákveðið að trúa á flokkinn sinn, sama hvað allri skynsemi og staðreyndum um efnahagsmál líður?

Það má velta því fyrir sér.

 

Kveðja,

Reynir Eyvindsson, Akranesi

Fleiri aðsendar greinar