Grundartangi og Vestursvæðið

Ragnheiður Þorgrímsdóttir

Í síðustu pennagrein fjallaði ég um frávik í starfsemi Norðuráls, sem hafði alvarlegar afleiðingar og sýnir hversu erfið eftirfylgni er, ef mengun sést ekki með berum augum og mælingar eru ekki nægjanlegar. Í landbúnaðarhéraði þar sem sífellt er til staðar loftborinn iðnaðarúrgangur er algjört skilyrði:

  • Að vöktun umhverfisins sé rétt gerð og upplýsingagjöf snurðulaus.
  • virkt eftirlit sé með viðkomandi fyrirtækjum.
  • aðili á vegum hins opinbera sjái um alla þætti vöktunar, en ekki sá sem veldur mengun.

Vegna lofsverðrar staðfestu sauðfjárbænda í Hvalfirði hefur sauðfé verið vaktað fyrir flúor nánast frá því starfsemi Norðuráls hófst. Þannig hafa safnast mikilvægar upplýsingar sem varða þennan þátt. Bændum á vöktunarbæjum hefur verið gert að skila hvert haust fjórum hausum af sláturlömbum og fjórum hausum af fullorðnu fé til flúorgreiningar. Skil á þessum sýnum hafa yfirleitt gengið vel og til eru samfelldar greiningar síðan 2001 sem gefa talsverðar upplýsingar um dreifingu flúors við Hvalfjörð.

Mismunandi flúorálag eftir svæðum

Mynd 6.3. sýnir áhrif mengunarslyss í Norðuráli 2006 á flúor í lömbum vestan við Grundartanga.

Lítum aðeins á niðurstöður flúormælinga í lömbum eftir mengunarslysið 2006. Línuritin eru úr vöktunarskýrslu ársins 2009. Berum saman myndir 6.3. og 6.4

Mynd 6.4. sýnir áhrif mengunarslyss í Norðuráli 2006 á flúor í lömbum norður og austur af Grundartanga.

Svæðið vestan við iðjuverin, sem kallað er hér Vestursvæðið, varð lang verst úti í mengunarslysinu 2006 eins og sést á línuritunum. Meðaltal flúors í lömbum mældist allt að 1600 ppm (milljónustu hlutar) sunnan við Akrafjall. Við eðlilegt ástand ætti þessi tala að vera talsvert innan við 100 ppm í lömbum sem ekki hafa aðgang að fjörubeit.

Flúorálagið var ekki aðeins lang mest á Vestursvæðið árið 2006, heldur er það viðvarandi ástand. Á töflunni sést að munurinn hefur orðið allt að sexfaldur. Álagið er mest á þurrkatímum en þá eru austanáttir ríkjandi.

Taflan er unnin upp úr vöktunarskýrslum áranna 2010 – 2019. Norðanverðum Hvalfirði er skipt upp í þrjú svæði: Vestur-, Norður- og Austursvæðið. Tekin eru meðaltöl af hverju svæði. Í skýrslunum má sjá hvaða bæir eru í vöktun á hverju svæði. Tölurnar eru ppm (milljónasti hluti).

Auðvitað hljóta viðvörunarbjöllur að hafa hringt hjá Umhverfisstofnun, Faxaflóahöfnum, sveitarstjórnum, Þróunarfélagi Grundartanga og þingmönnum Norðvesturkjördæmis, því þessar upplýsingar eru aðgengilegar öllum. Fróðlegt væri að heyra skoðanir þessa fólks á framtíð Vestursvæðisins. Vonandi ríkir ekki það viðhorf að því megi fórna fyrir Grundartanga.

Ragnheiður Þorgrímsdóttir

Fleiri aðsendar greinar