Grjótárvatn og nágrenni
Ari Trausti Guðmundsson
Í nokkuð mörg ár hafa mælst jarðskjálftar á svæði við Grjótárvatn og norður að Háleiksvatni – sem sagt á svæði suðvestan við Hítarvatn. Sunnantil við Grjótárvatn er gosspunga og hraun af nútíma enda er svæðið innan hins virka Ljósufjallakerfisins.
Meðfylgjandi er nýleg mynd úr Skjálftalísu Veðurstofunnar með nokkrum litlum skjálftum – þrír eru með upptök á 13-21 km dýpi. Þetta má telja dæmigerða virkni um þessar mundir. Hvers konar virkni er þarna? Lesendur Skessuhorn hafa eflaust velt því fyrir sér.
Jóhanna Malen Skúladóttir hefur skrifað BS-ritgerð í jarðeðlisfræði við HÍ (2022) um skjálftavirknina og kannað gögn um jarðskorpuhreyfingar. Hún valdi árið 2021 enda jókst virknin það ár og hefur heldur aukist en hitt. Jóhanna kemst að að því að jarðskorpuhreyfingar (upp/til hliðar) eru hverfandi á rannsóknartímanum. Ekkert landris mælist. Sprungur á svæðinu eru bæði SA-lægar og NA-lægar svo úr verður sprungunet eins og línur á skákbretti. Jóhanna Malen beinir sjónum að svokölluðum innplötuskjálftum sem hún telur geta stafað af spennubreytingum vegna hressilegra rekhreyfinga á SV-landi undanfarin ár. Kvikuhreyfingar telur hún (fyrir 3 árum) ólíklegar en getur ekki útilokað þær. Því er ég sammála, en sé svo ætti fyrr eða síðar að bóla á landrisi þegar grynnkar á kviku og/eða magnið eykst á miklu dýpi.
Svona vinna og ritgerðir eru oftar en ekki „hljóðlátar“ en vel unnar undir umsjón kennara (Halldórs Geirssonar í þessu tilviki) og eiga meiri athygli skilið. Jóhanna Malen bendir réttilega á að fjölga þarf mælum á svæðinu og rannsaka þessa virkni betur. Veðurstofan bregst nú við því.
Þessi skrif eru mjög lauslegt yfirlit. Hafi einhver leseandi áhuga á að rýna í ritgerðina er hana að finna hér: https://skemman.is/bitstream/1946/41377/3/BS_JMS_2022.pdf
Ari Trausti Guðmundsson
Höfundur er jarðvísindamaður og rithöfundur