Grásleppusjómenn húðstrýktir

Gísli Gunnar Marteinsson

Um nokkurt skeið hefur ráðherra sjávarútvegs haft, í vinnslu og undirbúningi, frumvarp um kvótasetningu á grásleppu. Að hans sögn hefur þó skort stuðning við þetta mál og lítill hvati komið frá hagsmunaraðilum. Síðastliðið sumar lýsti meirihluti þeirra sem fengist hafa við grásleppuveiðar, undanfarin ca. 10 ár, eindregnum stuðningi við þetta frumvarp. Þessi stuðningyfirlýsing hefði átt að duga ráðherranum og atvinnuveganefnd til að koma málinu í höfn. En það virðist ekki duga til.

Í haust var sambærilega tillaga borin upp á aðalfundi, félags sem eitt sinn var Landssamband smábátaeigenda. Þar var tillagan felld, þannig að skilaboðin sem koma frá þessum félagsskap er alls ekki stuðningur við málið og þessi, mjög svo, misvísandi skilaboð virðast vera vatn á myllu þeirra sem, í atvinnuveganefnd, eru málinu mótfallnir.

Þessi afgreiðsla, þessa aðalfundar, er hins vegar sambærileg við að t.d. ef úrsmiðir greiddu atkvæði um aðbúnað trésmiða. Grásleppusjómenn eiga ekkert erindi lengur í þessum félagsskap á meðan þeir fá ekki einir að greiða atkvæði um sín mál. Þeir hljóta því að leita annarra leiða fyrir sína hagsmuni. Ef þeir fá ekki sérstaka deild innan L.S. geta þeir ekki annað en stofnað eigin samtök eða leitað til annarra samtaka. Meðferð L.S. á þessu máli, bæði nú og oft áður jafngildir því að húðstrýkja þessa aðila. Spurningin er hve lengi þeir láta sér það líka?

Sömu sögu er að segja um skilboðin úr þinginu, tilteknir þingmenn taka fullan þátt í þessari ,,húðstrýkingu“. Hluti atvinnuveganefndar getur a.m.k. stært sig af því að halda þessari útgerð í gíslingu. Meðan umræðan um kvóta er á sveimi, án þess að klárast, þá situr allt fast í þessum útvegi. Það geta jafnvel ekki orðið eðlileg viðskipti með báta né heldur veiðileyfi því enginn veit hver staðan verður á morgun. Einn margra kosta kvótasetningarinnar er fyrirsjáanleiki og ákveðið ,,rekstraröryggi“ svo langt sem það getur náð þegar náttúran er annars vegar.

Það er vonandi ekki algengt að kjörnir fulltrúar séu eingöngu til óþurftar og flækist með þessum hætti fyrir málum sem eru eingöngu til bóta fyrir fólk og umhverfi. Það getur ekki lengur verið umdeilanlegt að fyrir hagsmuni umhverfisins og þeirra sem að þessu koma þá er kvótasetningin eini kosturinn.

Það hvernig fór um síðustu vertíð hefði átt að duga sem óyggjandi rök fyrir því að klára bæri málið fyrir næstu vertíð. Nú heyrist hins vegar að til standi að bregðast við því með svæðiskvótum. Bara að heyra þetta nefnt kallar fram í hugann hámörkun á sóðaskap um auðlindina. Meira kapphlaup, meira netaslit, meira brottkast á ónýtum þorski, aukin sókn í slæmum veðrum. Aðallega vegna þess að menn munu verða að hefja veiðar fyrr og munu þá glíma við lakara tíðarfar. Reynt verður, í lengstu lög, að halda netunum í sjó ef veiðitíminn stjórnast af dagafjölda. Og sameiginlegur heildarkvóti mun svo toppa vitleysuna.

Kostir og gallar: Vantar plast í hafið?

Þeir sem til þekkja vita að kvótasetningin hefði óteljandi kosti, bæði fyrir umhverfið og þá sem að þessu munu koma. Það skilar sér svo til ,,þjóðarinnar“ í heild. Hvað er búið að skilja mikið eftir af girni, úr grásleppunetum, á botninum vegna þess eins að menn vilja ekki draga netin upp fyrir stórar brælur? Svo eru það brælur úr annarri átt, átt sem ekki eyðileggur netin, en koma í veg fyrir að þau séu dregin og liggja því ,,opin“ og drepa meðafla, einkum þorsk.  Hvað verður um þann þorsk þegar litlir bátar geta loksins vitjað?

Nýliðun í greininni væri mjög af því góða en til þess að svo geti orðið þá þarf rekstrargrundvöllurinn og aðstæðurnar að vera freistandi. Kvótasetningin treystir rekstrargrundvöllinn og getur gert veiðiskapinn að alvöru atvinnu.  Óbreytt staða er öruggasta leiðin til að koma í veg fyrir nýliðun.

Það er skrýtið að sjá andmælendur kvótasetningar nefna samþjöppun enn einu sinni þegar það er skýrt í frumvarpsdrögunum að hver útgerð geti aðeins haft til umráða 2% heildarhlutdeildarinnar. Ef útgefið aflamark væri t.d. 4500 tonn þá væru þetta 90 tonn. Það gæti verið áhugavert magn fyrir eina sumarvertíð á góðum báti, jafnvel þrír menn um borð. Það er nú öll samþjöppunin sem er svo ,,hættuleg“. Í því kerfi sem nú er við líði eru jafnvel þrjú leyfi á sömu hendi og kannski, í góðu ári, sömu 90 tonn en þrír bátar í rekstri og margfalt netaslit sem hlýst af ,,sóknarmarki“.

Hefur einhver heyrt frasann: ,,Þeir sem liggja best við fiskimiðunum fá ekki að nýta auðlindina, því kvótinn hefur, verið rifinn burt.“  Með kvótasetningu á grásleppu þá mun þetta snúast við. Að grásleppuveiðar muni hafa áhrif á byggðaþróun er langsótt en sjálfsagt munu aflaheimildirnar, á löngum tíma, leita þangað sem útgerð er hagstæðust. En fer þá allt til fjandans?

Að sjálfssögðu eru þeir margir sem, í þessu tiltekna máli, óttast að grásleppusjómenn fái þarna ríflega ,,starfslokasamninga”. Þetta atriði er sjálfssagt megin ástæða þess að þorri félagsmanna L.S. stinga félaga sína reglulega í bakið og álykta gegn kvótasetningu. Um þetta atriði er það að segja að til skamms tíma gengu veiðileyfin kaupum og sölum. Það að grásleppukvóti verði eitthvað verðmeiri, en þau, er afar langsótt. Núna er uppistaða grásleppuveiðimanna gamlir ,,furðufuglar” og ekki séð að eftirspurn eftir þessu aflamarki verði einhver. Engin eftirspurn þýðir, eðlilega, ekkert verð.

Gallar við kvótasetningu eru engir. Að einhver ímynduð ,,rómantík“ fari úr veiðunum er bara grín.  Undirritaður, hefur verið viðloðandi grásleppuveiðar á ytra svæðinu í Breiðafirði í nokkur ár eða síðan 1978. Rómantíkina, við að snúa ofan af netum sem annars eru full af þöngli, hefur hann aldrei séð. Og þegar netið á að heita klárt þá kemur í ljós að girnið vantar. Hvar er það?

 

Gísli Gunnar Marteinsson

Höfundur er sjómaður.

Fleiri aðsendar greinar