Grænn iðngarður rís á Grundartanga

Björgvin Helgason og Ólafur Adolfsson

Í síðustu viku var undirrituð viljayfirlýsing um uppbyggingu græns iðngarðs byggðum á hringrásarhugsun á Grundartanga í Hvalfjarðarsveit. Að þessu kröftuga verki standa Þróunarfélag Grundartanga, fimm sveitarfélög, Faxaflóahafnir og 15 öflug fyrirtæki. Verndari verkefnisins er Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Munar um minna

Í dag eru um 20 stór og smá iðn‐ og þjónustufyrirtæki á Grundartanga sem veita yfir 1.100 manns atvinnu. Rekja má um 2.000 afleidd störf til starfsemi svæðisins. Þessi samsteypa eru langstærstu vinnuveitendur Hvalfjarðarsveitar og Akraness. Tvö stærstu fyrirtækin, Norðurál og Elkem Ísland, greiða laun og kaupa þjónustu fyrir rúmlega 23 milljarða króna á ári. Munar nú um minna.

Atvinnusvæðið var byggt upp í sameiningu kröftugra fyrirtækja og framsýnna sveitarfélaga. Til frekari framfaraskrefa var Þróunarfélag Grundartanga stofnað 2016. Að því standa Hvalfjarðarsveit, Borgarbyggð, Skorradalshreppur, Akraneskaupstaður, Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir. Það sameinar krafta sveitarfélaganna, Faxaflóahafna og fyrirtækja til að skapa öflugt sóknarsvæði og þróa vaxtarmöguleika.

Þróunarfélagið til framfara

Þróunarfélagið hefur síðasta árið unnið að þróun Grundartangasvæðisins sem græns iðngarðs með hringrásarhugsun að leiðarljósi. Í því felst að mótuð verði sjálfbærniumgjörð fyrir svæðið og uppbygging hringrásarhagkerfis með fjölnýtingu auðlinda að leiðarljósi.

Uppbygging græns iðngarðs styður við sjálfbærni með innleiðingu félagslegra, efnahagslegra og umhverfisvæn sjónarmið í skipulagi, stýringu og framkvæmd. Ávinningur verkefnisins er í takt við stefnu stjórnvalda og sveitarfélaga um að þróa hringrásarhagkerfi og styður við aðgerðaráætlun í loftlagsmálum.

Af hverju Grundartangi?

Grænn iðngarður á Grundartanga hefur alla burði til að geta orðið leiðandi á heimsvísu með áherslu á sjálfbærni, fjölnýtingu auðlinda og innviða í gegnum hringrásarhagkerfi. Þar liggja mörg tækifæri í að minnka áhrif loftslagsbreytinga, auka skynsama hráefnanotkun, koma á fjölnýtingarverkefnum og bæta frekar endurheimt auðlinda.

Í fyrsta lagi nær Grundartangasvæðið yfir landssvæði með sameiginlegt aðalskipulag. Það auðveldar framþróun svæðisins. Í annan stað kemur rafmagn til svæðisins frá endurnýjanlegum auðlindum. Í þriðja lagi eru afurðir Grundartanga ýmist endurvinnanlegar eða lífrænar og falla vel að hringrásarhugsun. Aukaafurðir svæðisins eru vel nýttar í efna- og byggingariðnað. Í fjórða lagi skiptir miklu að helstu þátttakendur hringrásargarðsins eru jákvæðir gagnvart verkefninu og geta lagt til þess með margvíslegum hætti.

Margþættur árangur fólks og fyrirtækja

Ávinningur þessarar vegferðar mun skila sér m.a. í spennandi umhverfi fyrirtækja sem hafa hug á að nýta tækifæri í sjálfbærni og taka þátt í uppbyggingu svæðisins til framtíðar. Auk þess er þróunin í samræmi við aðgerðaráætlanir yfirvalda í loftslagsmálum og stefnu í átt að hringrásarhagkerfi.

Fyrir þátttakendur í hringrásarhagkerfi svæðisins liggur ávinningur til skemmri tíma í meiri hagsæld, auknum tekjum, sparnaði og lægri framleiðslukostnaði. Umhverfisáhrif lágmörkuð, auðlindanotkun minnkar sem og losun óæskilegra efna. Auk betri nýtingu hráefna svo sem vatns, orku og annarra efna.

Minni mengun – Meiri nýtni

Grænum iðngarði er ætlað að minnka losun mengunar og gróðurhúsalofttegunda, um leið og úrgangur lágmarkast sakir aukinnar hringrásar. Það þýðir betri stýringu umhverfis, félagslegra og fjárhagslegrar áhættu. Aukin heldur ætti þetta að opna á aðra markaði, og möguleika fjölgun vörutegunda og þjónustu sem laðar að nýja viðskiptavini.

Við grænan iðngarð byggðan á hringrásarhugsun fjölgar störfum með aukinni áherslu á heilsu og öryggi starfsfólks.

Til lengri tíma bætir það ímynd með jákvæðri umfjöllun. Öflugir starfskraftar laðast að og nýir fjárfestar. Þá dregur úr rekstrar- og ímyndar- og orðsporsáhættu. Þessi vegferð er einnig líkleg til að auka aðgengi að styrkjum og grænni fjármögnun. Eftir standa samkeppnishæfari fyrirtæki og styrkara samfélag.

Viljayfirlýsingin er mikilvæg fyrir framtíðaruppbyggingu athafnalífs á Grundartanga. Hún veit á gott fyrir íbúa nærliggjandi sveitarfélaga sem og framtíðarkynslóðir.

 

Björgvin Helgason.

Höf. er oddviti Hvalfjarðarsveitar og varaformaður Þróunarfélags Grundartanga.

Ólafur Adolfsson.

Höf. er formaður Þróunarfélags Grundartanga og bæjarfulltrúi á Akranesi.