Grænar skotbaunir

Karen Jónsdóttir

Þetta er þrettándi pistill Heilsuhorns Kaju og verður jafnframt sá síðasti í bili vegna sumarfría.

Þar sem sveitastjórnarkosningar eru á næsta leiti þá er ekki úr vegi að senda nokkrar lífrænar skotbaunir inn í baráttuna í von um að lífrænt fari nú að rata inn á stefnuskrá einhvers og eitthvert sveitafélag taki að sér sama hlutverk í umhverfismálum og t.d. Kaupmannahöfn. Þar er litið á lífræn matvæli sem hluta af heildsteyptri umhverfisstefnu og að notkun eiturefna- og áburðar í ræktun matvæla geri meira ógagn en gagn sé litið til lengri tíma. Dönsk stjórnvöld hafa einmitt ákveðið að feta í fótspor sinnar eigin höfuðborgar og hafa því sett sér það markmið að árið 2020 verði í öllum ríkismötuneytum hlutfall lífrænnar fæðu 75%.

Þess má geta að rannsóknir hafa sýnt að góð heilsa er 80% góð næring og 20% hreyfing þannig að áhersla á mat þarf mun meira vægi en hreyfing.

En af hverju ættu íslensk sveitarfélög að móta sér sérstaka stefnu hvað varðar lífræn matvæli? Svarið er auðfengið þegar litið er á staðreyndir. Leikskólabarn sem dvelur 8 tíma á dag, fimm daga vikunnar og fær að meðaltali fimm máltíðir á dag tekur 54% af sinni næringu á skólatíma. Þess vegna er nauðsyn að sveitarfélagið taki ábyrgð og gefi börnunum góða næringu.

Í dag er það svo að íslenska ríkið eða Landlæknisembættið gefur út leiðbeinandi bækling þar sem stofnanir eru hvattar til að fara eftir þar eru heilar þrjár línur í 54 bls handbók um lífræn matvæli. Umfjöllunin um lífrænt er frekar villandi því bæði eru þessar línur settar undir kaflann umhverfisvæn innkaup og síðan er talað um að í þessari ræktunaraðferð séu settar hömlur á notkun eiturefna sem er ekki rétt því þau eru bönnuð. Þetta segir Landlæknisembættið um lífræn matvæli:

„Í lífrænni ræktun felst að uppfylla þarf ýmis skilyrði við ræktun matvæla s.s. hömlur á notkun plöntuverndarvara og annarra efna til ræktunar. Áherslur lífrænnar ræktunar eru almennt á verndun umhverfisins, að framleiðsla sé sjálfbær, velferð dýra og samfélagslega ábyrgð.“

Aftur á móti er smá kafli um það sem ber að varast að gefa börnum og eru það rúsínur því þær geta innihaldið sveppaeitur, kanil, sætuefni og rísmjólk.

Í fyrsta lagi eru 99,9% líkur á að rúsínur innihaldi sveppaeitur nema þær séu lífrænar. Í öðru lagi þá inniheldur ekki allur kanill kúmaríni eins og kemur fram í handbókinni og því væri meira vit í að vísa í hvaða tegund af kanil ætti að forðast. Í þriðja lagi eru sætuefni iðnaðarframleiðsla sem aldrei ætti að gefa barni. Í fjórða lagi eru skiptar skoðanir á rísmjólk varðandi óhollustu hennar og það sama má segja um sojamjólkina, en Landlæknisembættið minnist ekki á sojamjólk sem slæman kost.

Í síðustu fjórum pistlum mínum hef ég fjallað um helstu E efna flokkana, en stærstur hluti þeirra er iðnaðarframleiðsla sem hefur miður góð áhrif á okkur. Í lífrænni matvæla framleiðslu eru þessi E efni bönnuð. Það eitt gefur lífrænum mat forskot hvað varðar heilsusamlegri og heillavænni matvæli.

Þar sem Landlæknisembættið er einungis leiðbeinandi aðili og leiðbeiningar þeirra ekki nógu greinargóðar þá er það enn mikilvægara að sveitarstjórnir taki afstöðu og móti sér stefnu varðandi þessi mál svo öll börn megi njóta góðrar fæðu ekki bara sum.

Nóg af skotbaunum í bili ég óska ykkur gleðilegs sumars

Lífrænar kveðjur,

 

Kaja

Fleiri aðsendar greinar