
Græna gímaldið í gamla bænum
Jónína Erna Arnardóttir
Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðum um „græna gímaldið“ í Breiðholtinu, þar sem fólk hrökk „allt í einu“ upp við að risastór vöruskemma var komin í nærumhverfið með tilheyrandi umferð og skerðingu á útsýni og lífsgæðum. Það sem var svolítið undarlegt í þessu máli öllu var að einhvern veginn fór enginn að taka eftir því fyrr en það var bara komið! Nú er jafnvel verið að tala um að fjarlægja gímaldið og koma því fyrir annars staðar. Það mun kosta óheyrilegar fjárhæðir, svo sennilega verður niðurstaðan einhvers konar samningur og mögulega breyting á húsinu eða starfseminni.
En þá að því sem er okkur nær sem búum í Borgarnesi. Nú styttist í að grænt (eða grátt) gímald rísi á fótboltavellinum okkar. En hann var nýlega valinn einn fegursti völlur á landinu. Og það er hann virkilega eins og er. Ég hef grun um að fólk geri sér ekki alveg grein fyrir hversu stórt þetta hús er og hversu yfirgnæfandi það verður þarna rétt út við náttúruperluna sem ég kalla Settutanga. Það er sennilega vegna þess að málið hefur verið keyrt í gegn á methraða og öll opinber kynning á málinu gagnvart íbúum hefur farið fram að mestu í kyrrþey. Mögulega með vilja til þess að ekki yrðu deilur um þessa staðsetningu og byggingu, því jú, þarna er gott að skutla húsinu niður því ekki þarf að breyta skipulagi nema mögulega óverulega, þar sem þetta er skilgreint íþróttasvæði á aðalskipulagi. Einnig finnst mér ámælisvert og einkennilegt að ekki hafi farið fram sérstök kynning fyrir íbúa í nágrenninu. Til dæmis kom þetta íbúum í Helgugötu í opna skjöldu þegar þetta lá fyrir samþykkt. Sem er áhugavert í ljósi þess að Helgugata 5 er á myndinni í skipulagsgögnunum, en þau sem eiga það hús höfðu t.d. ekki hugmynd um að þetta væri að fara að gerast þegar búið var að samþykkja gímaldið.
Fyrir áhugasama er gott að skoða stærðina á húsinu á meðfylgjandi mynd úr deiliskipulaginu, en hæðin á því nær upp á aðra hæð í Gamla Sýslumannshúsinu (Helgugata 5) sem þó stendur mjög hátt. Ég spurðist líka fyrir hjá Borgarbyggð um athugasemdir sem höfðu borist frá íbúum um málið, en fékk engin svör um það, þau gögn virðast hafa horfið út úr málinu. Þó veit ég að einhverjir íbúar gerðu talsverðar athugasemdir við þetta. Að ógleymdu því að margir hafa áhyggjur af því að fyllingin sem völlurinn stendur á beri ekki hús af þessari stærðargráðu en húsið mun vafalaust vega marga tugi tonna, en það er svo önnur umræða.
En þá að hinni hliðinni á málin og það er að ef þetta er bara að fara í gang og allt gott og blessað og samþykkt; þá spyr ég hvers vegna vegurinn að húsinu verður ekki látinn fara fyrir neðan Þorsteinsgötu 5 (fyrir ofan íþróttahúsið) og eftir fjörunni og á fyllingu út að nýja gímaldinu? Hvers vegna þarf að taka örugg svæði barnanna (og barnabarnanna) undir bílastæði og athafnasvæði þegar í raun væri auðvelt að láta þetta athafnasvæði niður í fjöru? Er það vegna kostnaðar? Hvers virði er öryggi barnanna okkar? Ætti það ekki að vera í forgangi?
Ég vil taka það fram að lokum að ég er mjög hlynnt stækkun á núverandi íþróttahúsi og nýju knatthúsi (fjölnotahúsi) en hef verið þeirrar skoðunar að það ættum við að byggja ofar í bænum.
Jónína Erna Arnardóttir
Höf. er íbúi í Borgarnesi.