Gott gervigras, eða ekki!

Sveinbjörn Freyr Arnaldsson

Kæri Skagamaður!

 

Nú á síðustu mánuðum hefur Akraneskaupstaður verið að huga að „nýju“ gervigrasi fyrir inni íþróttaaðstöðu til handa börnum og unglingum í bæjarfélaginu. Nánar tiltekið nýtt fótboltagras í Akraneshöllina. Eða á ég að segja „nýtt“. Hvernig gervigras myndir þú velja fyrir börn og unglinga? En þig sjálfan? Myndir þú velja nýjustu kynslóð af gervigrasi, eða ekki? Topp knattspyrnueiginleika alltaf, eða ekki? Gúmmíkurl á víð og dreif, eða ekki? Fimm ára ábyrgð í stað tíu ára verksmiðjuábyrgðar, eða ekki? Öruggt umhverfisvænt gervigras, eða ekki? Útlit eins og raunverulegt gras, eða ekki? Virkar óaðlaðandi, eða ekki? Auðvelt að þrífa, eða ekki? Auðvelt að laga skemmdir, eða ekki? Mikla gúmmílykt, eða ekki? Mikla svifryksmengun, eða ekki? Leikmenn með t.d. astma ættu auðvelt með að leika á grasinu, eða ekki? Rispa sig mikið, eða ekki? Fá straum frá gervigrasinu, eða ekki? Besta mögulegu fjöðrun allsstaðar á vellinum, eða ekki? Freistandi að spila á vegna fegurðar, eða ekki? Tugir tonna af sandi, eða ekki? Tugir tonna af gúmmíkurli, eða ekki? Miklar líkur á sýkingu, eða ekki? Geta spilað berfættur, eða ekki? Fer vel með húðina, eða ekki? Betri eignileikar, eða ekki? Hættuleg innihaldsefni gúmmíkurls, eða ekki? Ódýrt í rekstri, eða ekki? Endingarbetri knattspyrnueiginleikar, eða ekki?

Ráðamenn Akraneskaupstaðar, nánar tiltekið ráðgjafi og sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs, höfnuðu öllum kostum nýrrar kynslóðar gervigrass þrátt fyrir að allir aðilar voru sammála um að eiginleikar vörunnar væru stórkostlegir. Hvað þá í samanburði við gúmmíkurl og sandgras. En hvers vegna var þá tekin kolröng ákvörðun fyrir Skagamenn til framtíðar? Var það verðið? Nei alls ekki, því miðað við alla kostina, eiginleikana, endingu, ábyrgð og rekstrarkostnað þá er varan í rauninni miklu ódýrari ef reiknað er til tíu ára tímabils. Var það útaf lítilli reynslu á vörunni? Nei alls ekki. Fjöldinn allur af meðmælum og í meira en 12 ár hefur innfylliefnalaust gervigras verið þróað og betrumbætt af fremsta framleiðanda í heimi í innfylliefnalausu gervigrasi. Var það útaf KSÍ? Nei alls ekki. Aðilar innan mannvirkjanefndar KSÍ lofsama vöruna. Nýja reglugerðin býður þessa vöru „loksins“ velkomna á vellina frá því í maí árið 2017. Að auki skv. KSÍ reglugerðinni má gúmmíkurl ekki lengur vera mengandi eða skaðlegt heilsu. Er slíkt gúmmíkurl til sem er ekki mengandi við framleiðslu og í innihaldi? Fjórir af fimm sem reyndu að taka þátt í útboðinu og bjóða gúmmíkurl lausn, voru dæmdir ógildir af ráðgjafa, hvers vegna? Tveir þeirra buðu hagstæðara verð en sá sem var valinn, allir voru þeir með „viðurkenndar“ vörur að mati FIFA. Hverjir eru það sem stjórna valinu, er það einn einstaklingur sem kallast ráðgjafi eða fá fleiri að gefa álit sitt, á hverju er álitið byggt? Árið 2017 er valið fyrir Skagamenn áfram vafasamt gúmmíkurl og sandur, gömul „úrelt“ tækni með endalausum vandamálum og hundruðum tonna af gúmmíi og sandi með nokkrum grasþráðum innanhúss? Áfram er gríðarlega mikil hætta á sýkingum í opin sár og áfram allur möguleiki á mikilli svifryksmengum sem hamlar fólki með viðkvæm öndunarfæri að taka þátt í íþróttum innandyra.

Nokkurra ára gamall Sportisca S9 Revolution völlur í framleiðslulandinu Sviss án innfylliefna.

Skagamenn það er undir ykkur komið að mótmæla þessari ákvörðun við bæjarstjóra og óska eftir því besta fyrir börn og unglinga á Akranesi, nú eða láta þau bara kyngja áfram gúmmíkurlinu og sandinum!

 

Með Skagakveðju,

Sveinbjörn Freyr Arnaldsson

Fleiri aðsendar greinar