Gott er að vera þorpari!

Þráinn Þorvaldsson

Fimmtudaginn 5. september í liðinni viku efndu fermingarsystkin frá Akranesi fædd 1944 til árlegrar óvissuferðar. Árgangurinn 1944 hefur verið nefndur lýðveldisbörnin. Þessi hefð að fermingarsystkin fari í ferðlag er rík á Akranesi. Fermingarárgangur minn hefur verið óvenju duglegur í slíkum ferðum. Fyrstu árin vor skipulagðar ferðir á fimm ára fresti en síðustu ár eru þær farnar árlega. Svo er að þakka afar samhentum fermingarsystrum úr árganginum, Elsu Ingvars, Guggu Róberts, Ingileif Daníels og Siggu Eiríks. Ferðaáætlun er ekki uppgefin fyrirfram. Nú var farið um Kjósina en ein fermingarsystirin Sigrún Eiríksdóttir býr á Hlíðarási í Kjós. Hún var því öllum staðháttum kunn og annaðist leiðsögn. Á leiðinni var áð með tilheyrandi berjavökvasmökkun og viðkomu á veitingastöðum. Ferðin var hátíðarferð í tilefni 75 ára afmælis árgangsins. Undrun vakti meðal ferðafélaga þegar rennt var upp að Bessastöðum. Hópurinn vissi ekki af heimsókninni fyrr en ekið var í hlað. Forsetinn, Guðni Th. Jóhannesson, tók einstaklega ljúfmannlega á móti hópnum eins og hans var von og vísa og gaf hópnum góðan tíma. Hann sagði í ávarpi sínu að honum hafi verið það ljúft að taka á móti lýðveldisbörnunum sem honum fannst bera aldurinn vel. Að loknum veitingum var afar fróðleg skoðun á húsakynnum og hinum sögufræga kjallara. Dagurinn endaði svo með veislukvöldverði í Kríunesi.

Gott vegarnesti

Að mínum dómi eru það ákveðin forréttindi að alast upp í litlu þorpi eins og Akranesi. Sterk tengsl myndast í æsku og þegar þau eru ræktuð eins og fermingarsystur mínar hafa forgöngu um haldast þessi tengsl alla ævi. Ferðirnar styrkja tengslin og endalausar sögur úr æsku eru sagðar þar sem ein sagan verður kveikja að annarri.

Ég hef velt fyrir mér því veganesi sem ég fékk frá uppvexti mínum á Akranesi. Í því sambandi koma fjögur atriði upp í hugann: Vinnusemi – útivera – trúrækni og félagsþroski.

 

Nr. 1. Vinnusemi var mikilvægur hluti af því alast upp á Akranesi. Leikir barna og unglinga voru eðlilega stór hluti af lífinu en ætlast var til að unglingar tækju þátt í atvinnulífinu þegar þess þurfti. Fyrstu peningana vann ég mér inn átta ára gamall í saltfiskbreiðslu og voru það fjórir skínandi túkallar sem standa mér enn ljóslifandi fyrir sjónum. Faðir minn, Þorvaldur Ellert Ásmundsson, rak fyrirtækið Fiskiver, sem var útgerð og fiskvinnsla, ásamt félögum sínum Bergþóri Guðjónssyni og Sigurði Þorvaldssyni. Fyrst vinna í þurrkun saltfisks, síðar skurður á skreiðarböndum, síldarpönnum og almenn fiskvinnsla. Enginn griður var gefinn í vinnuframlagi. Nú er slíkt álag kallað barnaþrælkun en ég held við unglingarnir höfum haft gott af þessu. Vinnusemi varð okkur eiginleg. Ekki mátti falla verk úr hendi í leik eða starfi. Garðvinna í garði móður minnar að Suðurgötu 27, píanónám í Tónlistarskóla Akraness hjá Önnu Magnúsdóttur, sumardvöl á sumrum hjá föðurbræðrum mínum í Borgarfirði. Verkefnin voru óþrjótandi. Síðar á menntaskólaárum var byggingarvinna á sumrin í skemmtilegum félagsskap. Kosturinn við þessi sumarstörf var líka sá að aldrei var okkur fjárvant og ekki þurftum við að biðja foreldra okkar um vasapeninga. Við lærðum einnig snemma að bera ábyrgð á eigin fjármálum. Í uppvextinum vandist ég á að hafa aldrei auða stund og dagarnir voru aldrei nógu langir fyrir verkefni dagsins. Þannig hefur það verið alla tíð síðan.

 

Nr. 2. Útivera var mikilvægur hluti af lífi okkar. Leikir í fjörum, á túnum, í görðum og á bryggjunum var lífið utan skóla að vetri og vinnu að sumarlagi. Endalaust var siglt í Halakotsvörinni frá bryggjuklettum að Ívarshúsklettum með hafskip sem við bjuggum m.a. til úr olíubrúsum. Hnúðormar herjuðu á kartöflur Skagafólks eftir 1950 og aflögðust garðar við hús og voru þeir fluttir á sandana við Kalmansvík. Við þetta opnuðust ný tækifæri til leikja og voru endalausir bílvegir lagðir í kartöflugörðunum og jafnvel jarðhús grafin. Bílaeign okkar strákanna tók miklum framförum. Mikil eftirspurn var eftir notuðum sagarblöðum í vélsmiðjum til þess að setja sem fjaðrabúnað undir bílana okkar sem óku um kartöflugarða og fjörur flytjandi ýmsan varning. Margra fleiri leiksvæða er að minnast; útileikirnir og knattspyrnan á Merkurtúninu, kolaveiðar á bryggjunni og bresku innrásarferjurnar í Teigavörinni, þar sem háðir voru miklir bardagar með sverðum og skjöldum. Mér finnst að þessi útivera og nálægð við náttúruna alla daga hafi gefið mér veganesti og löngun til útiveru sem hafur varað allt mitt líf.

 

Nr. 3. Ég er alinn upp á trúræknu heimili. Í æsku voru bænir lesnar fyrir svefninn. Akraneskirkja átti einnig sitt hlutverk í þessu sambandi því móðir mín Aðalbjörg Bjarnadóttir söng í kirkjukórnum. Ég sótti oft messur með henni og sat þá jafnan fremst á söngloftinu. Fyrir utan styrk trúarinnar, sem ég haft allt mitt líf, hefur meira síast inn því ég hef lengi starfað að kirkjumálum í Reykjavík og sat m.a. í 28 ár í sóknarnefnd Bústaðakirkju.

 

Nr. 4. Mikilvægur þáttur í veganesti mínu til lífsins er félagsþroski. Nútíma fólk hefur aldrei haft meiri tengsl við annað fólk gegnum tölvur en félagslega nándin minnkar, sem leiðir til einmanaleika og þunglyndis. Ekki skorti nándina á Akranesi, félagsskapur í skóla, mikið frændalið, leikir við félaga alla daga utan húss sumar og vetur, stúkufundir á sunnudagsmorgnum og skemmtanir í Stúkuhúsinu þar sem við stigum okkar fyrstu skref í að koma fram og iðka dans, skóla- og skátaskemmtanir. Ég tók virkan þátt í skátastarfinu sem ég naut ríkulega. Um það góða starf gæti ég haft mörg orð. Ég hugsaði ekki um það fyrr en á fullorðinsárum hve mikilvæg þessi nánd við fullorðna fólkið í skátahreyfingunni var okkur krökkunum. Við nutum mikillar félagslegrar nándar í uppvexti okkar, deildum félagsskap með leikfélögum og fullorðnu fólk í félagsstarfi og vinnu sem hafði mótandi áhrif á okkur.

Ég er þakklátur fyrir að hafa að alist upp á Akranesi hjá góðri fjölskyldu og í góðu umhverfi. Ég vil þakka „stelpunum“  fyrir einstakan dugnað við að halda þessum fermingarhópi saman.

Forsetinn óskaði eftir myndatöku af lýðveldishópum.

 

Þráinn Þorvaldsson

Höf. er lýðveldisbarn

Fleiri aðsendar greinar