Gott er að hafa mikinn mat og marga helgidaga

Margrét Björk Björnsdóttir

Það er alltaf að aukast aðgengi og framboð á góðum mat, matsölustöðum og matarupplifun á Vesturlandi, og því full ástæða til að hampa því sérstaklega. Vesturlandsstofa(Markaðsstofa Vesturlands) og Sóknaráætlun(Matarauður Vesturlands) ákvaðu því að taka höndum saman um verkefni til að auka sýnileka og efla matarímynd Vesturlands. Í þeim tilgangi var ákveðið að leggja sérstaka áherslu á mat og matarupplifun á Vestulandi núna í nóvember – sjá nánar www.matarhatid.is

Matarauður Vesturlands

Gerður var samstarfssamningur við Skessuhorn um að gefa út sérblað um Matarauð Vesturlands, líkt og gert var 2017 og tókst þá mjög vel. Í þessu blaði er fjallað um margt áhugavert sem er að gerast varðandi mat og matarupplifun á Vesturlandi, en þetta er þó bara stiklað á stóru og væri hægt að fylla mörg slík blöð til að segja fá því sem er verið að gera eða í bígerð varðandi mat á Vesturlandi. Það væri því gaman að halda áfram þessu góða samstarfi og gefa oftar út svona sérblöð um áhugaverð málefni og verkefni.

Veisla á Vesturlandi

Sendur var póstur á ferðaþjónustuaðila á Vesturlandi þar sem kallað var eftir upplýsingum um alla matarviðburði sem eru á dagskrá á Vesturlandi í nóvember.  Síðan var sett saman viðburðadagatalið „Veisla á Vesturlandi“ þar sem birtar eru upplýsingar um þá matarviðburði sem voru tilkynntir til okkar. Allir aðilar sem brugðust við þessu kalli og sendu okkur upplýsingar um martarviðburði til að setja á viðburðadagatalið eða sérstök tilboð tengd mat í nóvember eru líka kynntir með stuttum texta og mynd hér í blaðinu okkar, Matarauður á Vesturlandi. Því það sýnir að við erum góður hópur sem erum að vinna í því saman að efla matarímynd Vesturlands.

Matarhátíð á Hvanneyri

Rúsínan í pylsuendanum er svo „Matarhátíð á Hvanneyri“ þar sem margt verður til gamans gert. Þar  verður t.d. REKO-afhending, matarmarkaður, kynningar og stutt erindi á ýmsu sem viðkemur mat og matvælaframleiðslu o.m.fl. Þessi hátíð er unnin í samstarfi við Landbúnaðarháskólann o.fl., auk þess sem þar fer fram kynning og verðlaunaafhending fyrir fyrstu alíslensku Íslandsmeistarakeppnina í matarhandverki.

ASKURINN-Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki

Nú er í fyrsta sinn blásið til alíslenskrar keppni fyrir allt landið um gæði í matarhandverki þ.e. Íslandsmeistarakeppnin í matarhandverki. Keppnin er alfarið í  faglegri umsjá MATÍS, sem sér um að taka við vörunum sem hafa verið skráðar til keppni, og heldur utan um dómarastörfin þar sem þrír fagdómarar meta vörurnar í hverjum flokki. Verðlaunaafhending og kynning á keppnisvörunum verður á Matarhátíðinni á Hvanneyri í ár. Allir þátttakendur fá endurgjöf frá dómurum fyrir þær vörur sem taka þátt í keppninni og verðlaunahafar fá viðurkenningaskjal og merki keppninnar  – ASKINN 2019 – til að einkenna verðlaunavöruna með. Skráningu í keppnina er lokið og eru yfir 130 vörur skráðar til keppni. Íslandsmeistarakeppnin í matarhandverki er haldin með styrk frá Matarauð Íslands.

 

 

Fleiri aðsendar greinar