Göngustígur yfir Fitjarnar í Borgarnesi – slæm hugmynd!

Þorleifur Geirsson

Fitjarnar milli Borgarness og Borgar á Mýrum eru grösugar flæðiengjar og ákaflega sérstakt svæði. Stór hluti þess er alveg ósnertur af manninum. Jarðvegurinn er djúpur og fellur sjór reglulega yfir miðju Fitjanna um læki og djúpa farvegi og þegar stórstreymt er fer hluti þeirra á kaf. Mikið fuglalíf er á Fitjunum og eru hestar þar á beit sumarlangt augnayndi fyrir vegfarendur. Nú er komin fram sú hugmynd frá einhverjum hjá Borgarbyggð að gera göngustíg yfir Fitjarnar og hefur meirihluti sveitarstjórnarinnar samþykkt það.

Það er öllum hugsandi mönnum ljóst að þetta er mjög slæm hugmynd, eflaust komin úr kollinum á einhverjum aðkomumanni. Fyrir utan rask og ónæði sem gerð göngustígs mun valda í þessari viðkvæmu náttúru, þá eyðilegðist þessi stígur fljótlega vegna sjávarflóða. Heyrst hefur að gott sé að hafa göngustíg vestur að Borg á Mýrum, en ég vil benda á að það er nú þegar göngustígur langleiðina þangað.

Ég skora á sveitarstjórnarmenn í Borgarbyggð að hugsa þetta mál af meiri skynsemi. Lífshamingja okkar íbúanna er ekki fólgin í gerð dýrra göngustíga, heldur mætti auka lífshamingjuna með því að nota þetta fjármagn til að lækka gjöld og skatta í Borgarbyggð sem eru með því hæsta sem þekkist á landinu.

Borgarnesi 12. júlí 2020.

Þorleifur Geirsson.

Fleiri aðsendar greinar