Ágæti kjósandi í Norðvesturkjördæmi!

Bjarni Jónsson.

Á morgun, laugardaginn 29. október, verður kosið til Alþingis Íslendinga. Stuttri en snarpri kosningabaráttu lýkur og þjóðin ákveður hverjir fara með stjórnartaumana í landinu næstu fjögur árin. Við í Vinstri hreyfingunni grænu framboði finnum fyrir byr í seglin og höfum á ferðum okkar síðustu vikurnar fundið að margir hyggjast binda traust sitt við okkur. Við státum af formanni sem nýtur virðingar og trausts í þjóðfélaginu – langt út fyrir raðir flokksfélaga. Á framboðslista okkar eru öflugir einstaklingar sem bæði í krafti hugsjóna, reynslu og metnaðar vilja gera vel fyrir íslenskt samfélag.

Skoðanakannanir hafa sýnt að Vinstri hreyfingin grænt framboð verður áfram leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum. Hér í Norðvesturkjördæmi eru góðir möguleikar á að flokkurinn fái tvo þingmenn. Fyrir það traust og miklu hvatningu sem við höfum mætt erum við frambjóðendurnir þakklátir. Þar sem ég er í baráttusæti á listanum heiti ég því að vinna af einurð að hagsmunum íbúa í kjördæminu nái ég kjöri. Á ferðum mínum um kjördæmið að undanförnu hef ég kynnst hagsmunum íbúa vel. Meðal annars ekið vegina þeirra og veit hvað á þeim brennur!

Lesandi góður! Ég heiti á þinn stuðning. Göngum bjartsýn til kosninga laugardaginn 29. október. Við treystum okkur til góðra verka – hverjum treystir þú?

 

Bjarni Jónsson

Höf. skipar 2. sæti á lista VG í Norðvesturkjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar