Góðir Grundfirðingar!

Garðar Svansson

Við göngum til sveitarstjórnarkosninga 14. maí næstkomandi og kjósum um með hvaða hætti við viljum hafa stjórnun Grundarfjarðarbæjar næstu fjögur árin.  Við ætlum að kjósa um hvort við ætlum að skoða hlutina í fjögur ár í viðbót eða hvort við ætlum að taka ákvarðanir og framkvæma. Það liggur ljóst fyrir að það er aukin krafa á að sveitarfélög sameinist. Umræðan í samfélaginu er einnig orðin hlynntari sameiningu svo framarlega sem hún sé á forsendum íbúa. Það er hlutverk næstu bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar að undirbúa innviði og samfélagið fyrir sameiningu við önnur sveitarfélög á Snæfellsnesi. Hve stór sú sameining verður er óvíst en hún verður án efa innan ekki margra ára og vonandi verður hún með þeim hætta að Snæfellsnes verði eitt sveitarfélag.

Í Grundarfirði er gott að búa, hér er samheldið samfélag og duglegt fólk. Mikilvægt er að við hlúum að og styðjum við okkar félagasamtök sem eru tilbúin að bæta samfélagið okkar með öllu því góða starfi sem þau vinna. Verkefnin framundan er ærin. Við þurfum að auka framboð lóða fyrir íbúðabyggingar til að laða að nýtt fólk. Þar horfum við til skipulags nýs hverfis og uppbyggingu þess, ásamt því að hefja skipulagningu á Grafarlandinu. Með hvaða hætti ætlum við að nýta það í framtíðinni. Við þurfum að tryggja framboð lóða fyrir iðnaðarhúsnæði. Að skapa aðstæður fyrir fyrirtæki til að koma til Grundarfjarðar. Einnig fyrir fyrirtæki sem þegar eru starfandi í Grundarfirði til að stækka og eflast. Við ætlum að efla nýsköpun og halda áfram að krefja fjarskiptafélögin um háhraða nettengingu. Það þarf að hlúa að öllum skólastigum, bæði innra starfi skólanna og að húsnæði uppfylli þarfir þeirrar starfsemi sem fram fer innan skólanna. Styðja við þróun og nýjungar þannig að ávallt sé allt eins og best verði á kosið í starfi þeirra.

Fram undan er að klæða íþróttahús og sundlaugarbyggingu. Löngu tímabært verkefni er að byggja anddyri við íþróttahúsið og skapa þar tækifæri til aukinnar notkunar íþróttamannvirkja ásamt því að geta þjónað gestum mannvirkjanna með góðum hætti hvort sem það er íþróttafólk, áhorfendur eða ferðafólk. Við þurfum að búa starfsfólki íþróttamannvirkja mannsæmandi vinnuaðstöðu ásamt því að íþróttafélög geti betur nýtt húsnæðið bæði til æfinga og keppni ásamt því að vera félagsaðstaða þeirra.

Að tillögu Samstöðu var samþykkt að setja á stofn Framkvæmda- og uppbyggingarsjóð Grundarfjarðarbæjar til uppbyggingar á félags-, menningar- og íþróttaaðstöðu fyrir íþrótta- og félagasamtök í Grundarfirði. Mjög þarft verkefni er að mynda framtíðarstefnu í uppbyggingu slíkra mannvirkja í samstarfi við viðkomandi félög ásamt framkvæmdaáætlun slíkrar uppbyggingar.

Eins og sjá má eru verkefnin næg og af meiru að taka.

Áríðandi er að hefjast strax handa við að fylgja þessum verkefnum eftir og því mikilvægt að velja fólk sem er tilbúið að vinna fyrir bæjarfélagið af heilum hug og fyrir alla.

Kjósum X-L á kjördag.

 

Garðar Svansson

Höf. skipar 1. sæti L-lista Bæjarmálafélagsins Samstöðu í Grundarfirði.