Góðborgarar á Íslandi – er vonin ein eftir?

Ingibjartur G Þórjónsson

Eldri borgarar eru þeir nefndir sem komnir eru á þann aldur sem veitir þeim rétt til eftirlauna. Nafngiftin er aukaatriði, en það sem skiptir þennan félagsskap öllu er að hann hafi markmið sem bætt getur afkomu og ekki síst líðan félagsmanna. Það eru sjálfsögð markmið að standa vörð um kjör eldri borgara, kjör sem hafa farið versnandi síðustu misseri svo óviðunandi er. En hvað getur vopnlaus maður? Það þýðir lítið að rétta hinn vangann eins og skrifað er í ónefndu riti.

Það þarf ekki að fjasa um það að við lifum á undarlegum tímum svo ekki sé meira sagt. En nú fara breytingar í hönd eða við vonum það þó oftast fari allt í sama farið. Þarna á ég við nýafstaðnar alþingiskosningar. Þá er um að gera að minna þá fulltrúa sem nú hafa náð kjöri á að standa við gefin loforð. Eins má minna á að doði borgaranna er oftast þannig að rumskað er rétt fyrir kosningar.

En hvað skyldi nú valda því að svo illa gengur að bæta kjör eldri borgara og kjörin svo ömurleg sem raun ber vitni? Og gæti það einnig verið að þeir sem fara með þennan málaflokk þurfi ekki að kvíða ellinni miðað við að þeim lánist að verða gamlir, því þeir hafa þegar tryggt sér góðan lífeyri nú þegar. Ekki veit ég, en eitthvað er að. Sem betur fer eru til eftirlaunahópar sem hafa góðan lífeyri og í sumum tilfellum meira en þeir geta torgað.

Breytingar? Það er spurningin. Frá því fyrir cirka hálfri öld er ég fór að fylgjast með þjóðmálum eins og hinn almenni stritari, ekki endilega kafa djúpt í spillinguna, hefur nánast lítið breyst. Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur ekki tekist eða viljað koma kjörum svokallaðra eldri borgara þannig fyrir að sómi sé að. Í viðtölum við ráðamenn eru svörin að málið er í skoðun og vonir standa til breytinga. Þannig að skilaboðin eru: Haldið í vonina.

Umræðan þarf að vera lausnamiðuð, því að samtíma sagnfræði skilar litlu og grein eftir grein sem lýsir ömurlegum kjörum sem auðvitað á rétt á sér og hamra þarf á, en virðist ekki ná eyrum þeirra sem með málaflokkinn fara.

En þá er þrautin þyngri því lausnin liggur ekki á borðinu því þeir sem ráða málaflokknum þverskallast sífellt, enda búnir að tryggja sér öruggt ævikvöld allavega fjárhagslega, en heilsuna kaupir enginn. Það þarf að jafna kjör eftirlaunaþega. Misskiptingin þar er orðin óþolandi eins og raunar í öllu þjóðfélaginu. Velferðarráðuneytið gefur út viðmiðunartölur sem þarf til lágmarks framfærslu, en eftir því er ekki farið.

Alþingi er nú vel mannað ungu fólki. Eigum við að binda vonir við þann hóp vaskra kvenna og manna? Því miður er lítil von til þess að þeir sem hafa allt að tíföld laun margra þeirra sem berjast við okurhúsnæðiskostnað skilji og finni hinn raunverulega vanda. Þeir sem hættir eru störfum vegna aldurs, sjúkdóma eða hvað það sem er gerir viðkomandi óvinnufæran, eiga ekki að þurfa að standa í kjarabaráttu. Það á að vera metnaður frjálsrar og velmegandi þjóðar að tryggja þeim sem af elju og samviskusemi hafa lagt sitt að mörkum til uppbyggingu þjóðfélags sem rifið hefur sig upp á stuttum tíma úr moldarkofunum í það að vera eitt besta í heimi.

Það er ekki eitt það besta í heimi ef eftirlaunaþegum er ekki tryggð lágmarks framfærsla. Annað er sjálfstæðri þjóð ekki samboðið. Það má nefna t.d. eitt atriði sem leggja þarf áherslu á, það er að eldri borgurum verði gert mögulegt að búa sem lengst í húsum og íbúðum sínum, sem þeir hafa stritað fyrir alla sína ævi á heiðarlegan hátt og hvergi komið nálægt fjármálasukki. Þarna er ég með í huga hin mjög svo háu fasteignagjöld. Þau eru að mínu mati ekki sanngjörn gagnvart láglaunahópum, hvað svo sem má segja um þá sem eru með ofurlaun án þess að ég skilgreini það nánar.

Nú eigum við að fylgjast með hverjar áherslur flokkanna verða fyrir næsta kjörtímabil og er mér þá skiljanlega ofarlega í huga málefni eldra fólks, því nú er ég flokkaður meðal þeirra og verð að lifa af skammtinum eins og ég kalla það. Ég nefndi hér áðan undarlega tíma. Þegar lífskjörin hafa versnað sem aldrei fyrr þá gengur það auðvitað ekki að hjá stjórnvöldum, að seilast sýknt og heilagt í vasa þeirra sem eru nánast tómir, því þannig hefur það verið. Það er ekki hygginna manna háttur að róa á mið þar sem lítið eða ekkert er að hafa. Hvorki ég eða nokkur getur kennt þeim sem völdin hafa, því þeir virðast lítið heyra, eða sjá það réttlæti sem felst í því að borgurum þessa lands þurfi ekki að kvíða ellinni eða ævikvöldi sem á að vera hverjum manni notalegt miðað við að heilsan sé í lagi, og skilað hefur góðu ævistarfi af þrautseigju og samvisku.

En til þess að eitthvað breytis til batnaðar verða viðkomandi að láta heyra í sér og rökstyðja sitt mál og hamra á þvi endalaust. Þannig hefur það verið og mun alltaf verða, að þeir fiska sem róa.

Ég óska eldri borgurum alls hins besta í allri baráttu og starfsemi komandi ára.

 

Ingibjartur G. Þórjónsson