Góðar samgöngur – Aukin lífsgæði

Lilja Björg Ágústsdóttir

Í síðustu viku kynntu Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) drög að nýrri samgöngu-fjarskipta og innviðaáætlun fyrir sveitarstjórnarfulltrúum á Vesturlandi. Drögin verða síðan til skoðunar hjá sveitarfélögunum og svo tekin fyrir á haustþingi SSV sem fer fram í lok september. Þessi áætlun mun leysa af hólmi eldri áætlun sem samþykkt var árið 2017, en auk þess að fjalla um samgöngumál eru í áætluninni helstu áherslur sveitarfélaganna í fjarskipta- og raforkumálum. Í þessari grein ætla ég fyrst og fremst að fjalla um samgöngumálin.

Á Vesturlandi er lengd vegakerfisins 1.845 km eða um 14% af vegakerfi landsins. Það er því af nógu að taka í baráttunni fyrir bættu vegakerfi, en öll viljum við að vegirnir sem við ökum séu góðir, þeir séu lagðir bundnu slitlagi, þeim sé vel við haldið, þjónusta varðandi mokstur og hálkuvarnir sé góð og að við upplifum að við séu örugg þegar við ökum eftir þeim. Til að ná sem bestum árangri í að sækja fjármagn til vegabóta þá erum við sannfærð um að vænlegast til árangurs er að Vestlendingar forgangsraði áherslum sínum í sameiningu og tali einum rómi gagnvart stjórnvöldum.

Vegakerfinu er skipt í mismunandi vegflokka. Stofnvegir tengja saman byggðir landsins og þéttbýlisstaði. Um þriðjungur af vegakerfinu á Vesturlandi eru stofnvegir og 85% þeirra eru lagðir bundnu slitlagi. Við viljum að þegar verði hafist handa við vegabætur á Vesturlandsvegi (þjóðvegi 1) til að bæta umferðaröryggi með 2+1 vegi frá Hvalfjarðargöngum í Borgarnes. Vegagerðin áætlar að hefja framkvæmdir árið 2025 og því er nauðsynlegt að hönnun og allur undirbúningur liggi fyrir þá. Þetta verkefni þolir engar tafir. Tvöföldun Hvalfjarðarganga er óhjákvæmileg í ljósi umferðaraukningar og umferðaröryggis. Aukist umferð frekar á næstu árum má reikna með að hámarks umferð samkvæmt reglugerð verði náð innan fárra ára.

Það er með öllu óboðlegt að hluti stofnvegakerfisins sé malarvegur, en það á við um Skógarstrandarveg sem tengir saman Snæfellsnes og Dali. Framkvæmdir við vegabætur þar eru í gangi, en ennþá á eftir að leggja slitlag á um 50 km af leiðinni.  Nauðsynlegt er að stjórnvöld veiti áfram fjármagni á árunum 2023 og 2024 í þessa framkvæmd. Þá er mikilvægt að hraða lagningu bundins slitlags á vegi sem tengja Vesturland við aðra landshluta og í áætluninni er lögð áhersla á að framkvæmdum við Uxahryggjaveg sem tengir Vesturland og Suðurland verði lokið sem fyrst, en eftir er að leggja slitlag á um 22 km kafla efst í Lundarreykjadal. Sama á við um Laxárdalsheiði sem tengir Vesturland við Norðurland, en þar á eftir að leggja slitlag á um 17 km kafla.

Annar þriðjungur vegakerfisins á Vesturlandi eru svokallaðir tengivegir sem tengja sveitirnar við þéttbýli og tengjast oftar en ekki inn á stofnvegina. Því miður er staðan sú að aðeins um 25% þessara vega á Vesturlandi eru lagðir bundnu slitlagi.  Vissulega höfum við séð mun meiri framkvæmdir við tengivegi í landshlutanum undanfarin tvö ár eftir að fjárveitingar til þeirra tvöfölduðust. Eftir sem áður er mikilvægt að auka þær enn frekar svo viðunandi árangur náist. Því viljum að yfirvöld vegamála fari í átak í samstarfi við sveitarfélögin um að leggja slitlag á þessa vegi því þeir skipta gríðarlegu máli fyrir vöxt og viðgang dreifðra byggða þar sem stækka þarf atvinnu- og þjónustusvæði. Vinnuhópurinn sem undirbjó áætlunina vann ítarlega tillögu að forgangsröðun framkvæmda við þessa vegi.

Einhugur hefur ríkt á meðal sveitarfélaga á Vesturlandi um mikilvægi Sundabrautar enda leyfi ég mér að fullyrða að Sundabraut muni nýtast íbúum allra landshluta frá Reykjavík og austur á Egilsstaði. Hún bætir umferðaröryggi, styttir aksturstíma og stækkar atvinnu- og þjónustusvæði Vesturlands. Hraða verður undirbúningi að hönnun hennar þannig að brautin verði tilbúin eigi síðar en 2030.

Nýtt samstarfverkefni um almenningssamgöngur

Íbúakannanir sem gerðar hafa verið með reglubundnum hætti á Vesturlandi sýna okkur að ánægja íbúa með almenningssamgöngur jókst umtalsvert á Vesturlandi þegar fjölgun ferða og samræmt leiðakerfi var tekið upp á sama tíma og „Landsbyggðarstrætó“ hóf akstur á svæðinu. Íbúar á stærri þéttbýlisstöðum og þá sérstaklega Akranesi hafa nýtt þessa þjónusta í töluverðum mæli enda er framboð á ferðum mest þar. Til að efla þjónustuna á dreifbýlli svæðum er stefnt að því að fara af stað með tilraunverkefni í Borgarfirði þar sem skóla- og tómstundaakstur Borgarbyggðar verður samþættur við akstur „landsbyggðarstrætós“ í héraðinu.  Undirbúningur að verkefninu hefur verið í höndum SSV, í samstarfi við Borgarbyggð, Menntaskóla Borgarfjarðar, Vegagerðina og ráðgjafa hjá VSÓ.  Sambærilegt verkefni hefur verið í undirbúningi á Snæfellsnesi.

***

Samgöngur eru meira en vegir. Á Vesturlandi eru öflugar hafnir sem gegna mikilvægu hlutverki. Grundartangi er ein stærsta flutningahöfn landsins og Faxaflóahafnir munu áfram vinna að því að efla hana. Á Akranesi og á Snæfellsnesi eru öflugar fiskihafnir og í auknum mæli eru þær nýttar fyrir ferðaþjónustu. Fjöldi farþegaskipa heimsækir hafnirnar í Grundarfirði og Stykkishólmi árlega, siglingar með ferðamenn til hvalaskoðunar eða um Breiðafjörðinn hafa vaxið hratt og frá Stykkishólmi er Breiðarfjarðaferjan Baldur gerð út. Við mælum eindregið með því að hið fyrsta verði keypt ný og öflug ferja sem uppfyllir allar nútímakröfur um öryggi. Eins eru líka tækifæri í ferjusiglingum frá Akranesi. Aukin umsvif kalla á betri hafnir og meiri þjónustu.

Langt er um liðið síðan fast áætlunarflug til staða á Vesturlandi var lagt af. Þrátt fyrir það eru sjö lendingarstaðir fyrir flugvélar í landshlutanum. Gegna þeir mikilvægu hlutverki með hliðsjón af öryggismálum. Eins skapa þeir tækifæri fyrir ferðaþjónustu og við trúum því að þeir geti í auknu mæli haslað sér völl þegar kemur að kennsluflugi. Að öllu þessu viljum við vinna.

Góðar samgöngur gerir líf okkar einfaldara, öruggara og betra.  Sveitarfélögin á Vesturlandi ætla að taka höndum saman og vinna að betri samgöngum og er sú samgönguáætlun sem nú er unnið að mikilvægt plagg í því skyni.

 

Lilja Björg Ágústsdóttir

Höfundur er formaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og forseti sveitarstjórnar í Borgarbyggð

Fleiri aðsendar greinar