Glíman við heilbrigðiskerfið

Elsa María Guðlaugs Drífudóttir

Síðastliðinn febrúar fékk ég að heyra þær sorgarfréttir að amma mín, sem hafði alla tíð verið heilsuhraust og aldrei orðið misdægurt á sínum hartnær 80 árum, hefði greinst með krabbamein. Sex vikum síðar lést hún og var grafin í Akraneskirkjugarði.

Fráhvarf ömmu minnar var erfitt fyrir alla fjölskyldumeðlimi. Erfiðast var það þó fyrir hann afa minn. Núna í desember hefði þau átt 60 ára brúðkaupsafmæli, en þau giftu sig norður í Árneshreppi árið 1956. Andlát ömmu var erfitt fyrir afa vegna þess að hún var eiginkona hans og hann elskaði hana. Það var enn erfiðara vegna þess að afi minn er með alzheimer og í kjölfar veikinda hennar þá gat hún ekki lengur hugsað um hann, en síðustu árin hafði elsku amma mín af einskærri ást og þrautseigju hugsað um veika eiginmanninn sinn og verið eina ástæða þess að hann var enn fær um að búa heima.

Eftir að amma fékk greininguna var afi fluttur í hvíldarinnlögn á hjúkrunarheimili, en sjúkdómur hans olli því að hann vissi ekki alltaf af hverju hann gat ekki verið heima hjá konunni sinni. Það tók á, en erfiðara var það þegar hann mundi aftur og aftur að konan hans lá á dánarbeðinu.

Eftir að amma dó stóð hann eftir, veikur maður sem þurfti á því að halda að fá viðeigandi hjálp og aðstoð. Hann er það heppinn að eiga fjöldann allan af afkomendum til þess að styðja við hann, en veikindi hans krefjast þess að hann fái góðan stað á hjúkrunarheimili þar sem honum getur liðið vel og þar sem við vitum að hann fær þá hjálp sem hann þarf. Eins og ég nefndi þá fékk hann tímabundna innlögn á hjúkrunarheimilinu, en hefur síðan þá þurft að sitja inni á sjúkrahúsi í biðstöðu eftir plássi. Sjúkrahús er ekki heimili og þrátt fyrir að bjóða upp á þá lágmarksaðstoð sem einstaklingar þurfa á að halda til þess að komast af frá degi til dags, þá er það einfaldlega ekki nóg fyrir þá sem þurfa á stað að halda til þess að eyða því sem eftir er af sínum æviárum. Það er ekki viðunandi að einstaklingar sem þurfa á því að halda þurfi að bíða í marga mánuði eftir því að fá að komast á hjúkrunarheimili.

Ég veit fyrir víst að afi er ekki sá eini sem er í þessari stöðu. Ég veit líka að hjúkrunarheimilið myndi endilega vilja taka á móti honum, en vandinn liggur í höndum ríkisstjórnarinnar og við sem neðar sitjum erum ófær um annað en að segja já og amen. Við neyðumst til þess að segja já og amen vegna þess að ríkiskassinn segir nei. Auðvitað heldur þessi neitun vart vatni, þar sem staðan er sú að sá kostnaður sem færi í rými á hjúkrunarheimili fer einfaldlega í staðinn í pláss á sjúkrahúsi. Einstaklingarnir hverfa ekki þótt þeir séu settir eitthvert annað.

Hvernig getur það staðist að fólk sem hefur haft ofan í sig og á alla sína ævi og aldrei beðið um neitt en alltaf skilað sínu, sé ekki gripið af samfélaginu? Að þeir sem hafa ekkert af sér gert annað en að lenda í því að eldast og þurfa aðstoð til daglegra þarfa, séu settir í geymslu?

Ef mér lánast að ná aldri, þá á ég það skilið að þá fá alla þá aðstoð sem ég þarf á að halda. Ég vil líka að systkini mín fái hana og eins foreldrar mínir og allir aðrir sem mér þykir vænt um. Það er staðreynd að þjóðin er að eldast, það er þörf á fleiri hjúkrunarheimilum og það er þörf á því að vera með betri viðbúnað til þess að taka á móti okkur í ellinni. Að byggja upp heilbrigðiskerfi er ekki bara tímabundin lausn, það er ekki bara til þess að bjarga þeim sem þurfa á því að halda í dag. Það bjargar okkur líka á morgun, á næsta ári, eftir tíu ár og um ókomna tíð. Hvers vegna er í lagi að setja foreldra okkar, skyldmenni, nágranna og vini í biðstöðu þegar þau þurfa á björginni að halda?

Mér er spurn.

 

Elsa María Guðlaugs Drífudóttir

Fleiri aðsendar greinar