
Gleðilegt nýtt ár!
Haraldur Benediktsson
Árið 2025 var tímamótaár í mörgum skilningi, fyrir íbúa Akraness. Stórir áfangar í endurnýjun mannvirkja, sem nútíminn kallar innviði, hafa nú verið teknir í notkun. Árið var sannarlega uppskeruár mikilla framkvæmda og framfara.
Framkvæmdum er nú nánast alfarið lokið við nýtt og glæsilegt íþróttahús á Jaðarsbökkum. Framkvæmd sem hefur notið mikillar athygli þeirra sem þangað hafa komið og ekki að ástæðulausu. Aðbúnaður nemenda, íþróttafólks og gesta er sem best verður á kosið og mun vafalaust um langan tíma verða sómi blómlegrar grósku íþrótta á Akranesi. Samhliða opnun íþróttahússins ákvað bæjarstjórn Akraness að leigja út „braggann“ fyrir líkamsræktarstöð. Miklar endurbætur hafa verið gerðar á íþróttahúsinu á Vesturgötu, bærinn státar af góðu fimleikahúsi, nýlegri reiðhöll í Æðarodda og glæsilegum golfskála við Garðavöll – allt framkvæmdir sem styðja við þá meginstefnu Akraneskaupstaðar að vera íþróttabær með áherslu á að skapa aðstæður til bættrar lýðheilsu allra. Óvíða er meiri þátttaka í almennu íþróttastarfi en á Akranesi og enginn velkist í vafa um að það er lykill að gæðum búsetu á Akranesi.
Á fyrstu dögum nýs árs munu nemendur og starfsfólk Brekkubæjarskóla njóta þess að stórum áföngum í endurnýjun á húsnæði skólans er að ljúka. Nýr matsalur mun taka á móti nemendum og framkvæmdir við nýjar og endurbættar kennslustofur eru á lokasprettinum. Stefnan er að halda opið hús í skólanum og það er tilhlökkunarefni að geta sýnt breytingarnar og hvernig starfsaðstæður nemenda og starfsfólks hafa tekið stakkaskiptum.
Framkvæmdum við endurbætur og stækkun Grundaskóla lauk á liðnu ári og kennsla er hafin í vel búnu og endurnýjuðu skólahúsnæði. Á opnum degi á liðnu hausti fögnuðu bæjarbúar þar stórum áfanga. Einstakur gleðidagur, þar sem oftar en ekki var haft á orði að það hlyti að vera gaman að vera nemandi í svo glæsilegum skóla. Nú þegar hafa gámahúsin verið seld og verða flutt af lóð skólans, sem verður endurbætt á komandi sumri.
Húsnæði Teigasels var stækkað og tekið í notkun.
Áhaldahús Akraneskaupstaðar fékk nýtt húsnæði, er nú staðsett á Ægisbraut og býr sú mikilvæga þjónusta sem áhaldahúsið veitir við mun betri starfsaðstæður.
Umfangsmiklar framkvæmdir við gatnagerð hafa staðið yfir, undanfarin ár, sem tryggir gott framboð íbúða og atvinnulóða.
Lengi mætti telja önnur og mikilvæg viðhalds- og umbótaverkefni. Eins og tilflutning á munageymslu byggðasafnsins. Farið var rækilega yfir muni safnsins og átak gert.
Með innleiðingu á nýju kerfi vegna sorpmála, sem í raun byggir á breyttri löggjöf um úrgangsmál, urðu breytingar á liðnu ári. Reynslan hefur þar kennt okkur mikið, sem nauðsynlegt er að bregðast við. Því verður fljótlega á nýju ári gerð sú breyting að rafræn klippikort í Gámu verða tekin upp og þannig brugðist við annmörkum sem hafa verið.
Af þessari upptalningu sést að engin lognmolla hefur verið á árinu 2025 og Akraneskaupstaður í sinni ríflega 80 ára sögu, væntanlega ekki haft meiri umsvif í framkvæmdum og hafa staðið síðastliðin ár. Endurbótum og nýframkvæmdum lýkur aldrei í stóru og stækkandi sveitafélagi, þó nú verði seglin aðeins rifuð í stórframkvæmdum, að sinni.
Næstu áfangar eru að undirbúa frekari stækkun leikskóla, ráðast í endurbætur á Grundaseli og vinna áfram að viðhaldi gatna og stíga. Þá verður á nýju ári tekið skref í undirbúningi að næstu stórframkvæmd Akraneskaupstaðar, sem er bygging samfélagsmiðstöðvar við Dalbraut.
Að innra starfi mætti einnig leggja upp með langa upptalningu, starf sem ekki hefur sama sýnileika og byggingar og mannvirki. Þar er ekki síst að nefna að efling á menningarstarfsemi og viðburðahaldi fer vart framhjá íbúum kaupstaðarins. Mannlífið á Akranesi er sannarlega betra og litríkara með öflugu menningarstarfi ekki síst með áherslu á barnamenningu.
Akraneskaupstaður fékk á árinu viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag Unicef. Það er ekki lítill áfangi og til vitnis um sterkt og öflugt starf að hagsmunum barna.
Á árinu var bláfána flaggað við Langasand í þrettánda skipti. Ekki átta sig allir á að slík viðurkenning er alls ekki sjálfgefin og einföld, en hún er okkur mikilvæg og til vitnis um að við okkar einstöku náttúru við Langasand er lögð rækt og hún mikilvægur hluti af þeim lífsgæðum sem gera Akranes að góðum stað.
Ég gæti í lokin fjallað um áskoranir, tækifæri og ógnanir – en geymi það til betri tíma. Slíkar áskoranir eru alltaf uppi – en mikilvægast er að halda til haga því sem gerir bæjarlífið betra og innihaldsríkara.
Það eru mikil lífsgæði að velja búsetu á Akranesi og ekkert sjálfgefið í þeim efnum. Það er stöðug vinna að skapa og viðhalda þeim gæðum – þau felast ekki eingöngu í að telja íbúafjölda eða mæla afkomu sveitarsjóðs, þótt ekki sé lítið gert úr því.
Fyrst og síðast felast gæðin í fólkinu og mannlífinu.
Íbúum Akraneskaupstaðar óska ég gleðilegs nýs árs.
Haraldur Benediktsson
Höf. er bæjarstjóri á Akranesi