Gleði eða farsæld?

Steinunn Eva Þórðardóttir

Gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Stundum hef ég orðið þreytt á þessari klassísku jólakortakveðju og reynt að orða jólaóskirnar á frumlegri hátt, en enda oftast aftur þarna því þetta er bara svo ansi gott einmitt svona. Ef hún er send af einlægni er þetta nánast fullkomin kveðja og ósk um hamingju á fleiri en einu stigi. Flest getum við verið sammála um að helsta óskin fyrir hönd okkar sjálfra og okkar nánstu, ekki síst barnanna, sé að finna hamingju. Við erum samt ekkert endilega sammála um hvað hamingjan er né hvar hana sé að finna.

Tvennskonar hamingja

Kenningar um hamingju eru tvennskonar, annars vegar að hamingjan sé það að líða vel í líkamanum, hafa það gott. Hins vegar að til að vera vel heppnað þurfi lífið að hafa einhverja dýpri merkingu og tilgang. Dæmi um hið fyrra, vellíðunarhamingju gæti verið að liggja í sólstól með svaladrykk í hönd og slaka á. Meðan dæmi um hið síðara farsældarhamingju, gæti verið að helga líf sitt vinnu við að bæta hag fátækra eða sjúkra, eða að ala upp börnin sín og vita hvað þitt framlag er mikilvægt. Það er ekki þannig að annað sé betra en hitt, um þetta gildir sama og um þekkt súkklaðikex, það er best báðumegin. Sjálf er ég ekki svo nákvæm í orðanotkun og nota bæði vellíðan og farsæld um hamingju.

Um jólin kallar hvoru tveggja á okkur, óskin um gleðileg jól vísar til þess að njóta góðs matar og gleðjast við að gefa og þiggja gjafir sem gefnar eru af góðum hug hvort sem þær hitta í mark eða ekki. Það er vellíðunarhamingja.

En á sama tíma hlýjar okkur óneitanlega um hjartarætur að geta lagt lóð á vogarskálarnar þegar okkur er boðið að styrkja fátæk börn, langveika sjúklinga, fólk á flótta eða einmana sálir, hver eftir getu og vilja. Viðbótaróskin um farsælt komandi ár á frekar við þetta seinna, og um að lífið almennt gefi þér síðan dýpri gleði við að fylgja þínum gildum og láta gott af þér leiða í heiminum á einn veg eða annan.

Þakka liðið

Flestir bæta við enn einni klisjunni „þakka liðið“ eða eitthvað í þeim dúr. Ef þetta er bara gamall vani hafa þakkirnar auðvitað holan hljóm, en mig grunar að við séum mörg eins og Bridget Jones, sitjandi tárvot af tilfinningasemi við að skrifa á kortin. Þó að afraksturinn verði klisjukenndur.

Staldraðu við

Það er algerlega upplagt að nota tækifærið um jól og áramót til að setjast aðeins niður, hvort sem þú sendir kort eða ekki, og taka stöðuna. Hugsa aðeins um hvernig þetta ár er búið að vera, hvers þú óskar þér og þínum í náinni framtíð, þakka það sem þarf að þakka. Sýnum góðum hlutum í lífinu þá virðingu að staldra aðeins við og lofa þakklætinu aðeins að lifa í brjóstinu. Í kannski nokkrar mínútur. Það er alveg ástæða fyrir því að sumar klisjur verða klisjur. Endum þetta á einni góðri:

Megið þið vel lifa.

 

Steinunn Eva Þórðardóttir

Fleiri aðsendar greinar