Glatvarmi – ónýttur virkjunarkostur

Haraldur Benediktsson

Þróunarfélag Grundartanga, samstarfsfélag sveitarfélaga og fyrirtækja á Grundartangasvæðinu, hefur áorkað miklu á starfstíma sínum. Félagið hefur gegnt grundvallarhlutverki í að greina og vinna með tækifæri til verðmætasköpunar og byggja undir fjölgun starfa og meiri verðmætasköpun. Treysta umhverfi þeirra mikilvægu fyrirtækja sem starfa á svæðinu. Starfsemi fyrirtækjanna er í raun fjöregg byggðar á svæði og nær langt út fyrir sveitarfélög á Vesturlandi. Þá liggur á svæðinu stór virkjunarkostur í glatvarma. Virkjunarkostur sem nýtir auðlindastrauma svæðisins betur.

Þrjú verkefni til eflingar á Grundartangasvæðinu

Á því kjörtímabili sem nú er að ljúka hef ég sérstaklega beitt mér í þremur meginverkefnum sem öll styðja og efla starfsemi á Grundartanga. Í fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar, fyrir ári síðan, beitti ég mér fyrir fjármunum, 50 milljónum króna, til að greina möguleika á framleiðslu á rafeldsneyti. Í því felast gríðarleg tækifæri. Treysta í sessi þá orkustöð Íslands sem Grundartangi er og láta reyna á hvort möguleikar á eldsneytisframleiðslu séu fýsilegir. Í umræðum um orkuskipti í samgöngum er í vaxandi mæli horft til slíkra orkugjafa og þar skipta höfuðmáli öflugar raforkutengingar sem svæðið býr að og nálægð við höfn.

Því til viðbótar hef ég nú beitt mér fyrir breytingum á raforkulögum sem hefur grundvallarþýðingu fyrir þau verkefni sem þróunarfélagið hefur unnið að.

Í þriðja lagi hefur þróunarfélagið áður fengið stuðning til undirbúnings að byggingu hitaveitu innan svæðis á Grundartanga. Sá stuðningur kom frá Orkusjóði.

Tímamót

Það eru mikil tímamót að látið sé reyna á breytingar á raforkulögum til að virkja og nýta glatvarma, því lagaumgjörð hefur skort. Meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis hefur að mínu frumkvæði lagt fram breytingar á frumvarpi, sem er til umfjöllunar á Alþingi um raforkumál. Verði samstaða um þá breytingu, raungerast áform Þróunarfélags Grundartanga. Sérstök heimild sem heimilar nýtingu á glatvarma til orkuframleiðslu, verður þá raunhæfur kostur. Loksins. Fátt skiptir meira máli en að láta sig hagsmuni Grundartangasvæðisins varða.  Það hef ég og mun hafa að leiðarljósi. Nýting á glatvarma mun verða hin nýja sókn Grundartangasvæðisins.

 

Haraldur Benediktsson

Höf. er 1. þingmaður NV kjördæmis og oddviti Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu

Fleiri aðsendar greinar