Glæpir

Finnbogi Rögnvaldsson

Glæpir hafa löngum fylgt mannskepnunni. Og koma vissulega fyrir í dýraríkinu hjá öðrum tegundum en manninum. Flest okkar eru þó ekki að velta sér upp úr morðum simpansa á kynbræðrum sínum eða slagsmálum hrúta um fengitímann. Okkur finnst líka liggja í augum uppi að þeir sem fremja glæpi séu glæpamenn, fólk sem villst hefur af vegi dyggðarinnar og er jafnvel illa innrætt. Í hugum flestra eru glæpir líka verk einstaklinga eða fámennra hópa illvirkja, glæpasögur seljast vel og í þeim er glæpurinn afmarkaður, morð á einstaklingi eða fáum einstaklingum, þjófurinn er einn að verki eða á sér vitorðsmenn eða samstarfsfólk. Undir niðri vitum við samt að svona er þetta ekki, að verstu glæpirnir eru framdir af stórum hópum fólks, stundum sameinað sem þjóð, stundum margar þjóðir eða trúarhópar. Þessir hópar gleypa einstaklingana sem mynda þá, ef svo má segja. Allir verða samsekir í einhverjum skilningi. Jafnvel besta fólk þarf að velta því fyrir sér eftir á hvort það hafi verið þátttakandi í glæp!

Afsökunarbeiðni og sanngirnisbætur

Undanfarin ár hefur borið nokkuð á því hérlendis að mál úr fortíðinni hafi verið rannsökuð og glæpsamleg hegðun dregin fram í dagsljósið. Hegðun af þeirri sort þar sem margir níðast á einum eða fáum. Samfélagið allt lokar augum og eyrum og lætur ranglæti viðgangast. Þessir straumar hafa borist hingað frá nágrannaríkjum okkar. Það vakti líka athygli að þetta káfaði ekki beint uppá okkur í byrjun, menn áttu erfitt með að setja sjálfa sig inn í þessa mynd ranglætis, stjórnmálamenn neituðu að biðjast afsökunar enda ekki gert neitt rangt! Hver á ranglæti sem beitt hefur verið fyrir löngu, annar en gerandinn? Hver var gerandinn? Smátt og smátt held ég samt að flestir hafi gert sér grein fyrir því að hér var verið að biðja um breytt viðhorf bæði til nútíðar og fortíðar. Að við lærðum af mistökum forfeðranna. Sennilega er það vandinn, við eigum erfitt með að læra af reynslu annarra.

Stórglæpir

Verstu glæpir mannkynssögunnar hljóta að teljast þegar þjóð eða þjóðir ráðast hver gegn annarri með vopnum og drepa fólk og dýr merkurinnar, eyðileggja búsvæði og leggja undir sig lönd þeirra sem þar eru fyrir. Því miður eru slíkir atburðir fyrir augunum á okkur enn í dag. Nýlega komu fram hugmyndir frá fyrrum nýlendum að krefja kúgara sína um afsökunarbeiðni og bætur. Trúlega má segja að það æði sem rann á Evrópubúa í byrjun 16. aldar þegar þeir lögðu undir sig Suður-Ameríku og Mið-Ameríku og síðar Norður-Ameríku og fluttu þangað fólk frá Afríku hneppt í þrældóm sé versta níðingsverk sögunnar. Það er hins vegar illa afmarkað í tíma og allir þátttakendur komnir í handanheima og flestir máðir úr minni þeirra sem nú tóra.

Það lýsir vel svona illvirki að þátttaka okkar sem þjóðar í landtöku og þjóðarmorði í Norður-Ameríku er aldrei nefnd. Vesturfararnir hafa vissulega átt sinn sess í huga þeirra sem ekki fóru til Kanada í lok 19. aldar og fram að fyrra stríði en alltaf eða oftast í rómantísku ljósi. Menn hafa skrifað um örlög fátæks vinnufólks sem sent er vestur nauðugt, þátttaka þessa fólks í fyrra stríði hefur nýlega verið skoðuð en að þetta fólk – Íslendingar – hafi verið landtökumenn sem hröktu frumbyggja landsins af landi sínu og flesta jafnvel út í dauðann láta fáir sér til hugar koma, segja það allavega ekki upphátt!

Nútíminn

Slæmt er auðvitað að þurfa að setja sjálfan sig í samhengi við þá glæpi sem verið er að fremja í dag. Þar verður hver að eiga við samvisku sína hið innra en líka að tjá sig í samtölum og opinberlega eftir því sem staða fólks gefur tilefni til. Þeir sem fara fyrir þjóðinni „tala fyrir hennar hönd“ ef svo má segja. Undanfarin ár hefur mest borið á yfirlýsingum um loftslagsvá. Gerðir hafa verið alþjóðasamningar og íslenskir stjórnmálamenn ekki hikað við að segjast vera þar fremstir meðal jafningja. Sem er þó trúlega ekki alveg satt. Verra er þó þegar menn vilja blanda þjóð sinni með beinum hætti inn í stríð gegn heilli þjóð eins og gert var í Írak og Afganistan. Þar ættu menn allavega að stíga varlega til jarðar og spyrja sig hverjir þeir séu áður en haldið er á vígvöllinn.

 

Finnbogi Rögnvaldsson