Get ég dýrkað andskotann í Afríku?

Geir Konráð Theodórsson

Það gleður mig mikið að heyra hvað Skessuhornið hefur verið vel lesið og ég hef haft alveg sérstaklega gaman af því að svara spurningunum frá hinum og þessum sem ég hef rekist á síðan ég kom heim frá Níger. Lesning pistlana hefur greinilega vakið upp smá forvitni um lífið í svona fjarlægu og framandi landi og hvernig vitleysingur frá Borgarnesi nær að pluma sig þarna úti. Algengustu svör mín hafa verið eftirfarandi: „Nei, ég hef ekki verið rændur“. „Jú, það er mjög heitt þarna, en það venst“. „Tja, ég efast um að Samherjamenn hafi verið að vesenast í Níger, það er enginn fiskur þar enda er þetta landlukt land og í eyðimörkinni.“

Það er þó ein spurning sem borið hefur á góma oftar en ég átti von á, og það spurningin um það hvort hægt sé að kaupa eitthvað áfengt þarna úti.

Þetta er góð spurning því langflestir þeirra sem búa í Níger eru múslimar og í íslamstrú er áfengisdrykkja oftast bönnuð, sem og að borða svínakjöt og annað sem telst haram eða forboðið. Það eru í kringum tveir milljarðar mannfólks í heiminum sem iðka íslamstrú en auðvitað er fjölbreytni í venjum og siðum þessa fólks, alveg eins og fjölbreytnin milli þeirra sem mæta í jólamessu á Íslandi og þeirra sem mæta í jólamessu í Biblíubeltinu í Bandaríkjunum. Í Níger eru langflestir súnní-múslimar af svokallaðri Maliki-túlkun sem útbreidd er í Norður-Afríku, en einnig má finna fólk sem iðkar aðra tegund af íslam, eða kristna trú eða iðkar afríska anda- og fjölgyðistrú. Stundum er gamla andatrúin iðkuð í bland við önnur trúarbrögð, sem kannski líkist því þegar íslendingar blótuðu á laun eftir kristnitöku. Stjórnarskráin í Níger inniheldur klausu um trúfrelsi og þó það frelsi sé ekki virt á átakasvæðum þar sem Isis eða Boko haram ráða ríkjum, þá er þetta frelsi að minnsta kosti virt í höfðuðborginni Niamey. Þar eru moskur og bænaherbergi víða, en einnig er hægt að finna kirkjur og staði til annars konar trúariðkunnar.

Mér þykir ótrúlega áhugavert að fræðast um siði og trú annarra, og oft hef ég upplifað stundir þarna úti þar sem ég hef verið alveg heillaður. Til dæmis eins og þegar ég beygði fyrir horn á leiðinni í bakaríið og sá þúsundir manna koma sér fyrir á götunni fyrir gríðarstóra bænastund á Mawlid, afmælisdegi spámannsins. Eða þegar ég sá innlendan vin minn, sem er Votti Jehóva, gjörsamlega brosa út að eyrum þegar hann frétti að trúarsöfnuðurinn hans væri líka til heima á Íslandi og ég hefði oft fengið bæklinga frá þeim. En magnaðast fannst mér að upplifa óvænt kvöld þar sem andarnir voru dýrkaðir með dansi og tónlist. Það er eitthvað sérstaklega kröftugt sem vaknar innra með manni við að hlusta á trommutaktinn, sjá sandinn kastast til þegar andinn kemur yfir berfættu dansarana og fólkið í kring klappar og syngur með.

Stundum óska ég þess að ég væri trú- eða mannfræðingur til að geta lært meira og greint betur frá lífinu í Níger. Það er heilmargt sem ég hef líklegast misskilið vegna fáfræði og tungumálaleysis, en fyrir fólk sem vill vita meira þá gleður það mig að segja að ég frétti að alvöru íslenskur fræðimaður hefur verið í Níger. Fyrir einhverjum árum bjó Kristín nokkur Loftsdóttir á meðal WoDaaBe-fólksins í eyðimörkinni og skrifað um þá reynslu bókina Konan sem fékk spjót í höfuðið. Ég á eftir að lesa þá bók en ég hef heyrt margt gott um hana og hlakka til að lesa hana.

En ég á enn eftir að svara spurningunni um áfengið. Fyrir margan Íslendinginn er áfengi hálfgert trúarbragð, sérstaklega þá sem halda 1. mars hátíðlegan með bjór og fara í pílagrímsferðir erlendis á vínekrur og míkróbrugghús. Sú hegðun er kannski ekkert óvenjuleg enda má finna í mannkynssögunni í kringum 33 guði, anda eða dýrlinga sem tileinkaðir eru áfengi. Fyrir ykkur sem hafið þessa spurningu í höfði þá gleður mig að segja að í borginni Niamey eru margar verslanir og veitingastaðir með alls konar áfengi til sölu. Þar er öllum frjálst að tilbiðja þessa áfengisvætti. En þarna úti, sem og hér heima, tel ég þó vera best að dýrka þennan andskota í hófi.