Gerum iðnnám eftirsóknarvert

Guðjón Viðar Guðjónsson

Nýlega afhentu Rafiðnaðarsamband Íslands og SART, félag rafverktaka, öllum nemum á landinu í rafiðnaði spjaldtölvur til eignar. Tilgangurinn með gjöfinni er að nemar í rafiðnaði geti nýtt sér allt það kennsluefni sem til er í rafiðnaði á netinu, þ.m.t. rafbok.is sem er með kennsluefni fyrir námið, og í leiðinni sparast kostnaður fyrir nemendur.

 

Til að efla iðnmenntun í landinu þarf meira að koma til og geta önnur fagfélög tekið sér til fyrirmyndar þetta framlag frá rafiðnaðarmönnum. Jafnframt þarf hið opinbera að setja meira fjármagn í iðnmenntun og gera þarf fleiri skólum kleift að taka nemendur inn í skólana. Hið opinbera og skólarnir sjálfir mættu setja sér lægri mörk varðandi hve marga nemendur þarf til að hægt sé að setja á verknámsbrautir innan skólanna.

 

Á Íslandi hefur verið mikill skortur á iðnaðarmönnum um langt árabil. Það er dýrara að vera með verknámsbrautir frekar en bara bóknámsbrautir en á sama tíma er gríðarlega mikilvægt að ungu fólki sé gefinn kostur á fjölbreyttu námsúrvali innan skólasamfélagsins. Slíkur valkostur gefur möguleika á að nemendur velji sér ólíkar framabrautir innan skólans.

 

Gerum verknám því meira aðlaðandi fyrir ungt fólk með hærri launum og fleiri skólum á framhaldsskólastigi sem bjóða upp á verknámsbrautir, þar sem samhliða er hægt að ljúka stúdentsprófi. Með því að velja þessa braut er lagður grunnur að því að gera iðnnám eftirsóknarverðara á Íslandi sem er hagsmunamál okkar allra.

 

Guðjón Viðar Guðjónsson

Höfundur er í 8. sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar