Gerum gott sveitarfélag betra

Brynja Þorbjörnsdóttir

Hvalfjarðarlistinn – H-listinn – mun bjóða fram í sveitarstjórnarkosningunum 26. maí nk. Við sem skipum listann höfum margvíslega reynslu og menntun sem við teljum að nýtist vel við stjórnun sveitarfélagsins. Við bjóðum fram krafta okkar til að gera gott sveitarfélag betra.

Stefnuskrá Hvalfjarðarlistans er ekki hlaðinn loforðum um margvíslegar framkvæmdir enda myndi það stangast á við meginstefnu okkar sem er að aðhalds sé gætt í rekstri sveitarfélagsins og framkvæmdum stillt í hóf, þannig að hægt sé að hafa útsvarið lágt.

Hvalfjarðarlistinn vill jafna stöðu íbúa þannig að allir hafi aðgang að hitaveitu og góðu neysluvatni. Að sjálfsögðu vonum við að borun eftir heitu vatni að Eyri skili tilætluðum árangri og viljum jafnframt skoða aðra möguleika til að sjá íbúum okkar fyrir heitu vatni. Forsendur Orkuveitunnar eru t.d. að breytast með tilkomu nýrrar lagnar og nýs miðlunartanks og við viljum ræða við forsvarsmenn fyrirtækisins um aðkomu þess að hitaveituvæðingu á ákveðnum svæðum í Hvalfjarðarsveit. Hitaveituvæðingin getur orðið stærsta einstaka verkefni næstu ára og þá skiptir ábyrg stjórnun fjármála öllu. Við leggjum líka mikla áherslu á að neysluvatnsmál í heild verði tekin til skoðunar á kjörtímabilinu.

Skólamálin eru okkur hugleikin því þar er lagður grundvöllur að framtíð barnanna okkar. Við erum stolt af grænfánaskólunum okkar, Heiðarskóla og Skýjaborg og við viljum að vel sé búið að þeim og að það sé eftirsóknarvert að vera með barn í leik- og grunnskóla Hvalfjarðarsveitar.

Við leggjum mikla áherslu á umhverfismálin og viljum láta skoða stöðu þeirra í Hvalfjarðarsveit í upphafi næsta kjörtímabils. Stefnu þarf svo að marka í góðri samvinnu við íbúa/landeigendur. Hér er átt við fráveitur, lífrænan úrgang, skógrækt og landgræðslu. Áhersla er lögð á ábyrga umgengni við náttúruna og Hvalfjarðarlistinn vill að í starfsemi á Grundartanga verði gætt ítrustu umhverfissjónarmiða.

Hvalfjarðarlistinn vill að eldri borgurum í sveitarfélaginu sé vel sinnt jafn þeim sem þarfnast aðstoðar og eins hinum sem eru sjálfbjarga. Við sem skipum listann viljum að stuðningur við félagsstarf aldraðra verði áfram með sama sniði og verið hefur.

Opin stjórnsýsla er mikilvæg og Hvalfjarðarlistinn vill að haldinn sé íbúafundur áður en fjárhagsáætlun er samþykkt í sveitarstjórn og einnig þegar ársreikningur liggur fyrir.

Hvalfjarðarlistinn leggur áherslu á að að vinnubrögð sveitarstjórnar séu ávallt skilvirk, fagleg og sanngjörn.

Ágæti kjósandi við biðjum um stuðning þinn og hvetjum þig til að setja x við H – Hvalfjarðarlistann.

 

Brynja Þorbjörnsdóttir

Höf. er sveitarstjórnarfulltrúi og oddviti Hvalfjarðarlistans.

Fleiri aðsendar greinar