Gerum gott betra

Rósa Guðmundsdóttir

Kæru vinir! Enn eru fjögur ár liðin og aftur kominn tími að velja fólk til forystu bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar. Fyrir tólf árum síðan bauð ég mig fyrst fram til setu í bæjarstjórn. Sá tími hefur liðið hratt því gaman og gefandi er að vinna fyrir samfélagið sitt.

Ég býð á ný krafta mína til setu í næstu bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar. Helsta ástæða þessa er að mér hefur helst þótt vanta upp á að hlutir séu kláraðir. Samskipti og samráð við íbúa er að mínu mati of oft ábótavant, fundagerðir koma seint inn á vef bæjarins og erindum svarað stundum seint. Við búum í litlu samfélagi og getum leyft okkur að ræða og vinna mál þannig að ekki alltaf þurfi að verða til ágreiningur og átök. Oft er hægt að forðast misskilining sem skapar ágreining með að ræða og útskýra málin.

Fundagerðir bæjarstjórnar og nefnda bæjarsins eru oft ekki nógu skýrar og eru kannski ekki nógu ítarlegar. Við þurfum að hafa samþykktir og fundagerðir skýrar og þannig verður ákvarðanataka skiljanlegri og vonandi meira málefnaleg.

Við stefnum á að opna bókhald Grundarfjarðabæjar. Opið bókhald hjálpar íbúum að skilja betur rekstur og fjármál bæjarins, það eykur gegnsæi og ýtir undir aðhald bæjarbúa á bæjarstjórn og rekstur. Kópavogsbær hefur sýnt frumkvæði í þessum málum og hægt er að læra mikið af þeim.

Málefni aldraðra hefur verið mikið í umræðum síðastliðin ár. Stækkun á Dvalarheimilinu Fellaskóli hefur nú verið hafin og þarf að passa upp á að fjölgun hjúkrunarrýma fylgi með.  Við stefnum öll á að fólk geti búið sem lengst heima hjá sér, en þá þarf að auka þjónustu við þá sem á því þurfa að halda. Fjölga þarf starfsfólki bæði hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum til að uppfylla nauðsynlegt öryggi í daglegu lífi eldri borgara og ættingja þeirra. Allir eiga að hafa greiðan aðgang að nauðsynlegri þjónustu. Undir slíka þjónustu flokkast dvalarheimili, dagvist, heimsending matar, heimilishjálp, heimahjúkrun, akstur til og frá heimili og önnur þjónusta. Nauðsynlegt er að samræma starf allra starfa sem að þessum málum starfa svo þjónustan verðir skilvirk og rétt.

D-listann er skipaður flottum og fjölbreyttum hópi fólks sem tilbúin eru að vinna fyrir og leiða bæjarfélagið sitt og stefna á það að gera gott bæjarfélag enn betra. Því vona að ég að þið kæru vinir hugsið til okkar, gerum gott betra, og setjum Xið við D á kjördag.

 

Rósa Guðmundsdóttir

Höf. skipar 4. sæti D-listans í Grundarfirði

Fleiri aðsendar greinar