Nýtum tækifærin

Heiður Björk Fossberg Óladóttir

Í komandi sveitarstjórnarkosningum þann 26. maí skipa ég 2. sæti D-listans í Grundarfirði.

Eftir nokkurra ára dvöl í Reykjavík fluttumst við mæðgur aftur heim í Grundarfjörð og líður okkur hvergi betur. Ég finn fyrir auknum áhuga ungs fólks sem er að mennta sig að flytja aftur heim. Við þurfum að geta tekið við þessu unga fólki.

Við erum sem betur fer í uppbyggingarfasa hér á Snæfellsnesi og hefur það skapað vaxtarverki sem meðal annars greinast í skorti á íbúðum. Við erum að horfa á að fólk fái ekki húsnæði hvorki til leigu eða kaups. Vantað hefur skýrari stefnu í fjölgun lóða og uppbyggingu íbúða. Nú hefur farið fram vinna við endurskoðun og endurgerð aðalskipulags Grundarfjarðar þar ætti stefnan að skýrast, ef rétt er haldið á spöðunum.

Í Grundarfirði hefur verið takmörkuð námsaðstaða fyrir háskólanema og úr því þarf að bæta. Við viljum að það sé hvetjandi fyrir íbúa Grundarfjarðar að fara í nám og verðum að skapa umhverfi til að auðvelda fólki það.

Sjávarútvegurinn er Grundarfirði afar mikilvægur og ber okkur að standa vörð um hann. Á sama tíma megum við ekki gleyma því að samfélagið okkar hefur breyst. Á örfáum árum hefur Grundarfjörður breyst í mikinn ferðamannabæ. Tækifærin hafa aldrei verið fleiri en nú og við verðum að nýta þessi tækifæri. Við þurfum að marka okkur skýra stefnu í uppbyggingu innviða, forgangsraða og setja okkur langtíma markmið.

Gerum góðan bæ enn betri og kjósum D-listann!

 

Heiður Björk Fossberg Óladóttir

Höfundur skipar 2. sætið á D-lista Sjálfstæðisflokks í Grundarfirði.