Gerum góðan bæ betri

Jósef Kjartansson

Núna eru fjögur ár liðin frá síðustu sveitarstjórnarkosningum og þar af leiðandi fjögur ár frá því ég bauð mig fram í fyrsta skipti. Tíminn hefur verið skemmtilegur og áhugaverður, verkefnin fjölbreytt og nóg af þeim.  Þetta er stutt lýsing á þeim verkefnum sem í boði eru.  Það að starfa í bæjarstjórn er nefnilega ekki bara að mæta á nokkra fundi og drekka smá kaffi.  Þetta er aðeins meira en það. Það er meðal annars að passa upp á og vinna að hagsmunum allra íbúa í heilu bæjarfélagi. Gera sem mest, fyrir sem minnst og fyrir sem flesta.

Að ógleymdu því að hafa alla ánægða. Þetta gerir enginn einn. Þetta er bara gert með samstilltum hópi fólks sem vinnur vel saman að hag alls samfélagsins. Það er nefnilega ekki bara nóg að malbika götur og steypa gangstéttir. Það þarf að passa upp á að sjálfsögðustu hlutir séu ekki teknir af okkur. Að þurfa ekki að keyra í önnur bæjarfélög eftir einfaldri en nauðsynlegri þjónustu er ekki boðlegt.  Það er nefnilega margir þjónustuaðilar (aðallega opinberir) sem halda að það sé styttra frá Grundarfirði en til Grundarfjarðar. Þetta er barátta sem er ekki að fara að klárast á næstunni, ekki ef við viljum að bærinn okkar hafi upp á allt að bjóða sem við viljum. Hverjum við treystum svo best til að sinna þessu er svo undir hverjum og einum komið. Það að velja sem breiðastan hóp af fólki til þessara verkefna er líklegast til árangurs. Fólk sem er tilbúið að vinna af áhuga og dugnaði fyrir bæjarfélagið og bæjarbúa alla. Fólki sem er tilbúið að tala máli bæjarfélagsins við alla þá aðila sem við  þarf að tala.  Vinna að þeim málum sem þarf og klára þau mál.  Stuðla að þeirri uppbyggingu og tækifærum sem þarf.  Þetta er lýsingin á þeim aðilum sem skipa D – listann.  Fólki sem er tilbúið að vinna af dugnaði fyrir bæjarfélagið og alla íbúa.

 

Jósef Kjartansson

Höf. skipar 1. sæti D-listans í Grundarfirði

Fleiri aðsendar greinar