Gerum enn betur í heilbrigðismálum

Elsa Lára Arnardóttir

Öll viljum við hafa aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu. Allir eiga jafnframt að eiga jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag, stöðu eða búsetu.

Við eigum góðar heilbrigðisstofnanir víða um landið. Stofnanir sem hafa gengið í gegnum sameiningar á undanförnum árum. Sameiningar sem höfðu það markmið að styrkja rekstragrunn þeirra og gera þær öflugri til að taka að sér aukin verkefni.

En hins vegar er það svo, að það skortir heildarstefnu innan heilbrigðiskerfisins, til að stýra veitingu þjónustunnar og nýta fjármagnið í kerfinu betur en nú er gert. Auk þessa þarf að halda áfram að auka fjármagn inn í heilbrigðiskerfið, eins og gert hefur verið á núverandi kjörtímabili.

 

Heilbrigðisáætlun fyrir Ísland

Því er komið að næsta skrefi og það er nauðsynlegt að stíga. Það þarf að gera svo sameining  heilbrigðisstofnana skili því sem henni var ætlað að skila. Til að það gangi eftir þarf að fara í skilgreiningu á hvaða heilbrigðisþjónustu á að veita víðvegar um landið. Vinna þarf heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Í því samhengi þarf m.a. að horfa til aldursamsetningar íbúa, íbúaþróunar, fjarlægða og samgangna. Þessa vinnu þarf að vinna, bæði með heimamönnum og starfsfólki heilbrigðisstofnana.

 

Ívilnandi byggðaáætlun

Stefnumótun í heilbrigðismálum þarf að tengja saman við ívilnandi byggðaáætlun. Þar má m.a. horfa til þess að veita starfsmönnum skattaafslátt vegna ferða til og frá vinnu, í þessu samhengi akstur milli starfsstöðva heilbrigðisstofnana. Jafnframt þarf að kanna möguleika á því að nýta námslánakerfið á þann hátt að veita afslátt til þeirra sérfræðinga sem ráða sig í heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni.

Þetta er eitt af því sem við Framsóknarmenn viljum leggja áherslu á. Nú þegar er unnið að tillögum í þessa veru innan Byggðastofnunar og gaman verður að sjá hvernig þær tillögur líta út á endanum.  Við eigum að nýta þau tæki sem við eigum, til gagns fyrir fólkið í landinu og byggja um leið upp öfluga þjónustu um landið allt.

 

Elsa Lára Arnardóttir

Höf. er þingmaður Framsóknarflokksins og skipar 2. sætið á lista flokksins í NV kjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar