Gerum betur í Borgarbyggð

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir

Nýlega voru lögð fram drög að stefnu Borgarbyggðar um upplýsingamál og íbúasamráð. Með því að innleiða þá stefnu verður formgert með hvaða hætti samráð íbúa sveitarfélagsins verði við ákvarðanatöku. Fyrir liggur að kostnaðarmeta þá þætti sem fram koma í stefnunni og þarf ný sveitastjórn að taka afstöðu til hennar. Það er stefna VG í Borgarbyggð að auka samráð við íbúa en þá þurfa verkferlar að vera skýrir þar sem fram kemur með hvaða hætti samráð eigi að fara fram.

VG í Borgarbyggð vill að stjórnsýsla Borgarbyggðar einkennist af skilvirkni og góðu upplýsingaflæði. Bætt og einfaldað upplýsingaflæði er nauðsynlegt til að stjórnsýsla sveitarfélagsins og bókhald sé eins opið og kostur er. Skýrar fundargerðir eru lykilatriði og gott aðgengi að ferlum mála er æskileg svo að auðveldlega sé hægt að fylgjast með framgangi einstakra mála. Þessu tengdu þá er afar brýnt að styðja betur við skipulagsmálin og telur VG í Borgarbyggð nauðsynlegt að skipta umhverfis-, skipulags og landbúnaðarnefnd í tvær nefndir, umhverfis og atvinnunefnd annars vegar og skipulagsnefnd hins vegar.

Gæði þjónustu ræður miklu um hvar einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir setjast að.  Þess vegna skiptir öllu máli að innviðir samfélagsins séu í góðu lagi.  Við eigum sterka  leik- og grunnskóla sem þarf að halda áfram að hlúa að og byggja upp. Hins vegar þarf sveitarstjórn að einhenda sér í að efla samgöngur og bæta rafmagns- og nettengingar til að efla þá starfssemi sem fyrir er og laða að nýja.  Við viljum búa fyrirtækjum gott umhverfi þannig að þau nái að dafna með því að halda uppi öflugri grunnþjónustu. Allt hangir þetta saman. Öflugt og fjölbreytt atvinnulíf eflir grunnstoðirnar, sem er grundvöllur fyrir þeirri blómlegu byggð sem við viljum sjá allsstaðar í sveitarfélaginu. Markmiðið á ávalt að vera aukin nýsköpun í atvinnuháttum og fjölgun starfa. Auk þess þarf að vinna í því að fá opinberar stofnanir fluttar í Borgarbyggð sem mun styrkja byggðina enn frekar.

Sveitarstjórnarfulltrúar sem og íbúar allir, við þurfum að hafa kjark, þor og síðast en ekki síst trú á sveitarfélaginu og möguleikum þess til að gera betur í Borgarbyggð!

 

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir

Höf. skipar 2. sæti á lista VG í Borgarbyggð

 

 

Fleiri aðsendar greinar