Gerum Akranes samkeppnishæfara

Helga Jónsdóttir

Á Akranesi er gott að búa. Öll þjónusta er innan seilingar. Aðstaða til íþróttaiðkunar er góð og nálægðin við höfuðborgarsvæðið tryggir okkur gott aðgengi að þeim stóra markaði sem þar er, bæði hvað vinnu og þjónustu varðar.

Þrátt fyrir þetta hefur Akranes ekki náð að vaxa með sambærilegum hætti og sveitarfélögin fyrir austan fjall og mörg þeirra sem á Reykjanesinu eru.  Þess vegna leggjum við í Miðflokknum höfuðáherslu á að gera bæinn samkeppnishæfari.

Það má fara ýmsar leiðir að því að gera bæinn samkeppnishæfari en nú er og eru nokkrar þeirra nefndar hér á eftir.

Hvað atvinnumál varðar, þá leggjum við áherslu á að koma skipulögðum atvinnulóðum í Flóahverfi í notkun og við viljum beita eigendaáhrifum bæjarins í stjórn Orkuveitunnar til að þrýsta á um að fráveitugjöld verði lækkuð.

Hvað skólamál varðar, þá ætlum við að tryggja fríar skólamáltíðir í grunnskólum bæjarins ásamt því að efla tómstundastarf barna og unglinga og ráða tómstundafulltrúa.

Við viljum að Akranes verði í fararbroddi í umhverfismálum sveitarfélaga. Við ætlum að móta umhverfisstefnu fyrir sveitarfélagið á komandi kjörtímabili.

Við ætlum að ráðast í stórátak hvað viðhald gatna og fasteigna bæjarins varðar.  Eins og íbúar Akraness þekkja þá eru götur bæjarins víða í afar slæmu ásigkomulagi.  Þar er verk að vinna og verkefnið minnkar ekki með því að ýta því á undan sér.  Viðhaldi hefur jafnframt verið ábótavant á mörgum fasteignum bæjarins, við það verður ekki unað lengur.

Um leið og ráðist verður í stórátak hvað lagfæringu gatna varðar, þá þarf að hug að því að skilgreina stofnbraut þungaflutninga í gegnum bæinn.

Við viljum að farið verði í viðræður við sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar um kosti og galla þess að sameina sveitarfélögin.

Við ætlum að beita okkur fyrir viðræðum við sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar og Vegagerðarinnar um færslu þjóðvegar 1, vestur fyrir Akrafjall og áfram um Grunnafjörð.  Það kemur bænum í hringvegartengingu sem styður meðal annars við uppbyggingu á ferðaþjónustu. Svo koma auðvitað fleiri í heimsókn en áður þegar bærinn er orðinn tengdur við hringveginn, sem er skemmtilegt.

Þessi atriði og mörg önnur sem við ætlum að beita okkur fyrir munu styrkja samkeppnisstöðu bæjarins og styðja við áframhaldandi vöxt og viðgang bæjarins okkar.

 

Helga Jónsdóttir.

Höf. er oddviti lista Miðflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á Akranesi.

Fleiri aðsendar greinar