Geðheilbrigðisþjónusta í framhaldsskólum

Guðjón S Brjánsson

Geðheilbrigðisþjónusta fyrir ungt fólk, einkum nemendur í framhaldsskólum hefur verið til umræðu að undanförnu og er það vel. Þetta er brýnt málefni sem varðar Vestlendinga ekki síður en aðra landsmenn.

Framhaldsskólar hafa átt í fjárhagslegum þrengingum undanfarin ár og ekki haft bolmagn til að bæta hér úr með varanlegum og góðum hætti. Þó hafa einstaka skólar, m.a. FVA leitast við að koma til móts við nemendur í vanda, m.a. með tilfærslum annars fagfólks og í samstarfi við heilsugæslu.

Stigin voru mikilvæg fyrstu skref í eflingu geðheilbrigðisþjónustu á heilsugæslustöðvum með lítilsháttar fjárveitingu til ráðningar sálfræðinga á fjárlagaárinu 2016 sem dugar hvergi.

Samfylkingin lagði fram tillögu um sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum á vorþingi í fyrra en þá var fyrsti flutningsmaður Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingmaður. Þetta var eitt þeirra forgangsmála sem þingmenn Samfylkingarinnar lögðu fram að nýju nú á haustþingi.

Brottfall framhaldsskólanema er alvarlegur vandi á Íslandi en aðeins 44% nemenda lýkur námi á tilsettum tíma. Ungt fólk hverfur frá námi og mun langtímaáhrifa þess gæta víða í samfélaginu og eru þau þegar farin að sjást. Þetta má að hluta rekja til slæmrar geðheilsu ungmenna hér á landi en sjálfsvíg eru til að mynda helsta dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi. Þessum vanda þarf að mæta, t.d. með auknu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.

Vegna þessa hefur álag aukist mikið á kennara, skólahjúkrunarfræðinga og námsráðgjafa, sem hvorki hafa menntun né forsendur til þess að takast á við vandann. Einstaka skólar hafa í neyð sinni brugðist við og falið t.d. námsráðgjöfum aukin hlutverk á þessu sviði.  Það er hins vegar ófullnægjandi, bregðumst við kallinu og aukum aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu innan veggja skólanna.

Markmið tillögu okkar í Samfylkingunni er að í byrjun skólaárs 2017–2018 verði tryggt að í öllum framhaldsskólum landsins hafi nemendur aðgang að sálfræðiþjónustu sér að kostnaðarlausu.

Við gerum ráð fyrir að ráðherra útfæri nánar með hvaða hætti þjónustan verði veitt og að miðað verði við að einn sálfræðingur í fullu starfi geti sinnt um 700 nemendum. Ber að miða þjónustuþörf fámennari jafnt sem fjölmennari skóla við það hlutfall.

Það væri Alþingi og ráðherra til mikils sóma að ljúka þessu máli í góðri sátt.

 

Guðjón S Brjánsson, alþingismaður.

Fleiri aðsendar greinar