Gapastokkar á heimilum allra heldri manna

Geir Konráð Theódórsson

Sumsstaðar í Tékklandi er sá siður um páska að menn fara um hús og rassskella þær konur sem þeir finna með skreyttum prikum. Á sjö ára fresti á Madagaskar eyjunni undan austurströnd Afríku tíðkast sá siður hjá Malagasy fólkinu að grafa upp látna ættingja, klæða þá í ný föt og svo dansa með líkin um göturnar áður en þau eru grafin niður aftur. Á Indlandi eru svo kýr heilagar í hindúatrú, einu sinni á ári er Gopastami hátíðin haldin og þá á að baða og þvo allar kýr og skreyta þær með blómum – það má alls ekki borða kýrnar og fólk grunað um að hafa brotið þann sið hefur verið barið til óbóta og jafnvel myrt.

Mannkynið er fjölbreytt og siðir og venjur fólks eru það sömuleiðis, menning og trú fólks er mismunandi og það sem er venjulegt fyrir sumum er algjörlega fáránlegt í augum annarra. Mér hefur alltaf fundist þetta áhugavert og haft gaman af því að kynna mér og upplifa ólíka menningu í öðrum löndum. Ég hef reynt að nálgast þetta viðfangsefni með opnum huga, en ég verð að játa að það kemur fyrir að ég gríp sjálfan mig í fordómafullu hugarfari. Ég fussa yfir einhverju sem mér þykir framandi, frumstætt og hreint út sagt bara fáránlegt – og svo klappa ég sjálfum mér á öxlina og þakka fyrir að hafa fæðst á Íslandi í „siðmenntuðu samfélagi.“

En ef ég hefði fæðst fyrr á Íslandi þá hefði ég ekki verið þakklátur, það er að minnsta kosti mitt álit eftir lesturinn á þeim þjóðsögum og sögnum sem Torfhildur Hólm safnaði saman og ritaði niður á síðari hluta 19. aldar. Almenna bókafélagið gaf út bók með þessum sögum árið 1962 og upplifun mín af þeim lestri er að lífið hér á landi á fyrri tímum hafi verið fyrir flesta frekar ömurlegt. Versta upplifunin var þó að lesa eina stutta sögu í bókinni sem sýnir að einn hræðilegasti siður sem ég hef heyrt um tíðkaðist fyrir ekki svo löngu hérna á Íslandi. Því miður en ég verð bara að deila þessari sögu með ykkur:

Hýðing barna á föstudaginn langa

Þegar siður var að hýða börnin á föstudaginn langa í stað þess að aðrir föstuðu, þá var það á einum bæ, að eitt barnið hvarf, er átti að fara að hirta það, og það fannst hvergi. Var leitað bæði þá og síðar með mannsöfnuði, en það fannst ei að heldur. Leið svo fram á vor, þangað til að búið var að rýja sauði. Var þá tekinn fram stór pottur til að hita þvælið í, en hann hafði staðið afsíðis úti í horni. Fannst þá lík barnsins undir pottinum. Hafði barnið skriðið þangað í hræðslunni og annaðhvort kafnað eða ekki þorað að gefa sig fram. Sagt er, að vegna þessa atburðar hafi hýðingar barna á föstudaginn langa verið aflagðar.

Þetta er náttúrulega gjörsamlega hræðilegt og það hellist yfir mig myrkur og sorg að ímynda mér þetta barn, yfir sig hrætt og að fela sig undir potti á meðan hópur fullorðins fólks leitar að því til að berja það í guðs nafni. Ég gat bara ekki trúað þessari sögu, ég hafði aldrei heyrt um þennan ömurlega sið og ég varð bara að finna aðrar heimildir. Í Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags, 13. árgangi frá 1892, má finna grein eftir Þorkel Bjarnason og þar er þessi siður því miður staðfestur. Þar ritar hann um það sem er, í hans orðum, „alkunnugt þeim er þekkja til sögu landins:“

Gapastokkar voru á heimilum allra heldri manna, sjálfsagt á hverjum kirkjustað, til þess að setja þá í, einkum um messutímann, þeim sjálfum til smánar, en öðrum til viðvörunar, sem vanræktu kirkjugöngur eða óhlýðnuðust húsbændum. Húsbændur máttu hýða hjú sín, og berja þau með svipu; en höfuðatriðið í uppeldi æskulýðsins voru högg og hýðingar. […] mundu gamlir menn, sem á lífi voru fram um 1850, eptir gapastokkunum […] og eptir því, að það tíðkaðist í uppvexti þeirra, að hýða börn og unglinga á föstudaginn langa, að minnsta kosti sumstaðar.

Mikið er ég feginn að menning, siðir og venjur samfélagsins hérna á Íslandi breyttust með tímanum. Menning er flókin. Sumt er áhugavert, sumt er skemmtilegt, annað er furðulegt og það er bara allt í lagi – við eigum að bera virðingu fyrir hvort öðru. En þegar við verðum dómhörð á siði annarra, og réttilega mótmælum ef eitthvað veldur því að saklaust fólk og börn verða fyrir ofbeldi, þá tel ég samt nauðsynlegt að við horfa líka í eigin barm. Með sjónarhorni samtímans er óréttlæti fortíðarinnar augljóst, en hvernig ætli sjónarhorn framtíðarinnar sjái okkur? Hvaða óréttlæti í okkar daglegu siðum og venjum verður augljóst fyrir Vestlendingum framtíðarinnar þegar saga okkar tíma verður skoðuð – og kannski notuð sem efni í pistil fyrir blessaða Skessuhornið eftir 100 ár?

 

Geir Konráð Theódórsson.

Fleiri aðsendar greinar