Gamli rausar
Heimir Laxdal Jóhannsson
Kennsla er skemmtilegasta og skelfilegasta starf sem ég hef unnið og hef ég nú komið víða við jafnt í karla- sem kvennastörfum svokölluðum. Ég er… eða var… nýr í starfi í raun þegar ég tók við umsjónarkennslu yngri deildar Laugagerðisskóla þó fullorðinn væri vel og svo gamall sem á grönum mátti sjá. Hafði ég umsjón með blönduðum litlum bekk frá fjögurra ára aldri og blönduðum í öðru svo sem hvað varðaði móðurmál, greiningar og slíkt.
Að vinna með slíkan bekk í litlum sveitaskóla var gríðarlega áhugavert. Fyrir mig var það eiginlega bæði nám og rannsóknarverkefni.
Þvert á flesta kennara að þá eyddi ég öllum frímínútum úti á skólalóð að fylgjast með veröld barnanna í sínu náttúrulega umhverfi í leiknum og samskiptunum sín á milli. Lögðum við, ég og mitt frábæra samstarfsfólk, mun meiri áherslu á leik og samskipti en algengt er. Og vegna smæðar skólans, Laugagerðisskóla, var hægt að hafa hlutina mun frjálslegri og sveigjanlegri en í stærri skólum. Ef leikurinn komst á mikið flug og veður leyfði spurði maður bara börnin; „viljið þið vera úti aðeins lengur?“
Svona getur maður gert í litlum sveitaskóla án þess að lenda fyrir rannsóknarréttinum eða vera hent fyrir strætó af samstarfsfólki af því að maður fór ekki nákvæmlega eftir klukkunni eða eitthvað slíkt.
Maður var til staðar þegar allt fór í háaloft hjá börnunum og tók á því á staðnum í stað þess að það kostaði langvinn fundahöld og lopateygingar um agastefnur og þess háttar.
Þegar strákarnir í eldri deildinni tóku að glíma heldur ótæpilega var strax gripið inn í og málið rætt… hversu auðvelt er að missa stjórn á líkamlegum átökum og slíkt og hversu alvarlegar afleiðingar það getur haft.
Þannig var nú það. Meira frá Gamla síðar.
Gamli, Heimir Laxdal Jóhannsson
Höf. er atvinnulaus kennari í atvinnuleit á Vesturlandinu.