Gámabyggð í Flóahverfi

Eiríkur Þór Eiríksson

Á dögunum auglýsti Akraneskaupstaður tillögu að breyttu deiliskipulagi í Flóahverfi. Breytingarnar snúast um að leyfa á atvinnulóðum, uppsetningu á vinnubúðum (gámabyggð) fyrir erlenda verkamenn til allt að sjö ára. Forsaga málsins mun vera umsókn stórverktaka af höfuðborgarsvæðinu um lóðir í Flóahverfi undir slíka starfsemi. Á kynningarfundi um deiliskipulagið sem haldinn var á bæjarskrifstofunni kom fram að þessi umræddi verktaki hygðist reisa húsnæði fyrir allt að 90 manns á tveimur lóðum. Jafnframt kom fram að í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir þremur lóðum til viðbótar undir samskonar starfsemi.

Undirritaður hefur ýmislegt við þessar áætlanir að athuga. Margt má nefna í þessu sambandi en í stuttu máli sagt virðist málið illa undirbúið og engin vinna farið fram til að kanna lögmæti þeirrar starfsemi sem fyirirhuguð er, áhrif þess á ýmsa innviði bæjarfélagsins, eða ímynd hans út á við. Engin ákvæði eru í skipulaginu um fjölda íbúa, aðbúnað eða þá þjónustu sem veita skal í þessu hverfi.

Nú er það svo að umræða um gámabyggð er ekki ný af nálinni hvorki hér á Íslandi né í ýmsum nágrannalöndum. Í Reykjavík hefur þessi umræða sprottið upp reglulega, bæði um gámabyggð fyrir farandverkamenn, en einnig til almennrar útleigu. Borgaryfirvöld hafa til þessa ekki ljáð máls á slíku.

Á áðurnefndum kynningarfundi kom fram að tvær ástæður helstar væru fyrir því að farið var í þetta verkefni af hálfu bæjaryfirvalda. Í fyrsta lagi væru þá meiri líkur á að Akraneskaupstaður fengið ásættanleg tilboð í verk á vegum bæjarfélagsins, því stór verktaki væri þá með starfsmenn á svæðinu. Í öðru lagi myndi þetta hugsanlega skapa tekjur fyrir bæjarfélgið, í formi útsvars af þeim starfsmönnum sem kæmu til með að búa í gámabyggðinni.

Ég efast ekki um að þeim sem að þessum fyrirætlunum standa hafi gengið gott eitt til, og séð hugsanlegar tekjur koma í bæjarsjóð í stað þeirra tekna sem glötuðust þegar HB Grandi ákvað að flytja megnið af sinni starfsemi burt úr bænum.

Mín skoðun er þó sú að gámabyggð í Flóahverfi sem hugsanlega skilar engum störfum á Akranes sé ekki leiðin til að styrkja tekjugrunn bæjarsjóðs. Til þess eru allt of margir óvissuþættir sem þarf að skoða mun betur. Ég mun því skila inn athugasemdum við deiliskipulagið og vona að það geri sem flestir sem ekki eru sáttir við þessi áform.

Það er engum blöðum um það að fletta að flutningur HB Granda á stærstum hluta sinnar starfsemi í burtu er gríðarlegt áfall fyrir bæjarfélagið, og hugsanlega hefðu bæjaryfirvöld getað haldið betur á málum gagnvart þessu öfluga fyrirtæki.

Það er nefnilega auðvitað svo, að öflugt samfélag verður ekki byggt upp nema að atvinnustarfsemi standi styrkum fótum. Eitt helsta verkefni bæjaryfirvalda hverju sinni er ekki síst að hlúa að og standa með þeirri atvinnustarfsemi sem fyrir er í bæjarfélaginu, og nú er enn mikilvægara en áður að bæjarbúar allir styðji við áform sem stuðla að því.

Á Akranesi eru fjölmörg fyrirtæki stór og smá að gera góða hluti og við þurfum á öllum þessum störfum að halda, og bæjarfélagið má alls ekki við því að missa héðan fleiri fyrirtæki.

Það er hlutverk bæjaryfirvalda að sjá til þess að þessi fyrirtæki getið haldið áfram að vaxa og dafna hér á Akranesi með því að skapa þeim þá umgjörð sem þau þurfa á að halda. Einungis þannig náum við að efla okkar góða samfélag.

 

Eiríkur Þór Eiríksson.

Höf. er íbúi á Akranesi.

Fleiri aðsendar greinar