Gall gapandi geðveiki

Reynir Eyvindsson

Einn félagi minn á Facebook var að tala um samfélagsmál og byrjaði á að minnast á að nú væru allir hættir að nenna að tala um kvótakerfið. Þess vegna talaði hann um ferðaþjónustuna.  Honum fannst tilvalið að takmarka aðgang túrista að landinu. Mér fannst tilvalið að lýsa fyrir honum hvernig hægt væri að gera þetta:

 

Kvótakerfi í ferðaþjónustu

Fyrst er skoðað hverjir eru þjónustuaðilar í ferðaþjónustu núna (þeir sem reka hótel og bjóða afþreyingu af ýmsu tagi). Það er farið þrjú ár aftur í tímann og aðeins þau fyrirtæki sem hafa verið starfandi þennan tíma, fá leyfi til reksturs. Þau mega ekki bæta við sig gistirýmum og ekki fjölga ferðum. Ef nýir aðliar vilja koma inn á markaðinn verða þeir að kaupa kvóta af þessum aðilum.

Það er hætt við að þessi leyfi verði dýr, því framboð verður minna en eftirspurn.  Ríkið mun hinsvegar helst ekki taka neitt fyrir kvótann sem það útdeilir.  Þannig geta kvótaeigendur grætt vel á því að þiggja kvótann ókeypis hjá Ríkinu og selja hann svo dýrt til þeirra sem ekki eiga kvótann.

Þetta mun ekki veita meiri peningum inn í verkefni tengdum uppbygginu á ferðamannastöðum, en þeir aðilar sem fá kvótann frá Ríkinu munu gleðjast og eins víst að þeir styðji þá stjórnmálaflokka sem vilja viðhalda kerfinu.  Greiði myndarlega í kosningasjóði.

 

Viðbrögðin hans

Þetta fannst félaga mínum hinn versti kommúnismi og brást reiður við.  En ég þurfti þá að minna hann á að akkúrat svona er kvótakerfið í sjávarútvegi.  (Félaginn er Sjálfstæðismaður).  Nú veit ég ekki hvort hann fattaði ekki líkingamálið, eða brást svona reiður við vegna þess að ég þurfti að minna hann á kvótakerfið, sem hann sjálfur var að reyna að gleyma.

 

Flokkurinn og kvótinn

Það er ekki erfitt að sjá, þegar skoðaðar eru atkvæðagreiðslur og ræður í þinginu og aðgerðir ríkisstjórna, hverjir það eru sem halda afnotagjaldinu fyrir kvótann í lágmarki.  Það má líka auðveldlega sjá af framlögum útgerðarfyrirtækjanna í kosningasjóði Sjálfstæðisflokksins, hverjum þau treysta til að viðhalda þessu óréttláta kerfi.  Hér í Skessuhorni var fyirr stuttu grein eftir Harald Benediktsson þingmann Sjálfstæðisflokksins, þar sem hann spáir „Hamförum“ ef verið á kvótanum verði ekki lækkað enn meira *).

 

Viðbrögðin okkar 26. maí

Það er svosem ekki á vettvangi sveitarstjórnarmála sem umhverfi sjávarútvegsins er ákveðið, og það verður að segjast að þeir Sjálfstæðismenn sem stýra Akranesbæ hafa borið gæfu til að taka ekki nýfrjálshyggjuna alla leið (selja skólana eins og í Keflavík, eða mælana hjá Orkuveitunni í Reykjavík **) og leigja þessa hluti til baka dýrum dómum). En þeir hafa ekki staðið sig neitt betur en vinstri meirihlutinn, og þeir eru partur af þessum flokki sem viðheldur þessu gall gapandi geðveika fyrirkomulagi í sjávarútvegi.

 

Kveðja, Reynir Eyvindsson, Akranesi

 

*) Sjá „Hamfarir af mannavöldum“ í Skessuhorni 21. mars 2018 og „Hamfarir í orðavali“ í Skessuhorni 25. apríl 2018.

**)  Þetta var reyndar verk Alfreðs Þorsteinssonar Framsóknarmanns, en Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hafa verið systurflokkar í hagsmunagæslunni undanfarin ár.

Fleiri aðsendar greinar