
Gæði vega skipta máli þegar lífsgæði eru metin
Björn Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri í Dalabyggð
Sveitarstjórn Dalabyggðar hefur á undanförnum fundum sínum ályktað um vegamál. Vegakerfið í Dalabyggð er stórt og umfangsmikið enda sveitarfélagið mjög víðfemt. Stór hluti vegakerfisins er enn malarvegir sem eru í mjög misjöfnu ásigkomulagi. Aðgerða er þörf nú þegar, hvort sem um er að ræða stofn- eða tengivegi.
Á fundi sínum þann 18. október s.l. bókaði sveitarstjórnin svohljóðandi; „Umræða um mikilvæga stofn- og tengivegi á landsbyggðinni hefur verið útundan í almennri umræðu um vegamál um langa hríð. Í því ljósi fagnar sveitarstjórn Dalabyggðar frumkvæði því sem fram hefur komið um svokallaða „samfélagsvegi“. Þó almennt sé lítill áhugi á því að sett verði á veggjöld þá er ljóst að til þess að einhverjir möguleikar opnist í þá veru að flýta framkvæmdum við Skógarstrandaveg þá þarf að hugsa í nýjum lausnum og þora að nefna aðra valkosti en þá aðferðarfræði sem til þessa hefur verið ástunduð við fjármögnun vega.
Sama á við um fáfarnari malarvegi eins og víða eru í Dalabyggð. Í þeim efnum þarf einnig að þora að nefna nýja valkosti, ekki bara varðandi fjármögnun. Í því tilliti vill sveitarstjórn Dalabyggðar hvetja vegayfirvöld til að huga að því að leggja bundið slitlag þó vegir séu ekki á allan hátt uppbyggðir og vegbreidd sé ekki eins og best gerist. Slit á bílum, dekkjum og annar kostnaður sem heimafólk sem býr við holótta og vonda vegi ber hefur ekki verið metinn til fjár. Eins má nefna akstur skólabarna sem eiga um langan veg að fara eða allt að rúmlega 85 km á dag við oft mjög slæmar aðstæður. Sveitarstjórn Dalabyggðar vill stuðla að auknum lífsgæðum heimamanna og allra þeirra sem um okkar fallega hérað aka. Bundið slitlag er einn þáttur innviða sem skiptir máli í þeim efnum.“
Ágæti lesandi, það er nefnilega þannig að betri vegir auka lífsgæði, það vita íbúar Dalabyggðar á eigin skinni. Það virðist þurfa nýja nálgun og þor til að brjóta upp umræðuna og hreyfa við málum. Að mínu mati er sá tími runninn upp. Brjótum upp verklagið og forgangsröðum verkefnum í þágu þeirra sem enn búa við það að aka á malarvegum.
Björn Bjarki Þorsteinsson