Friðurinn úti?

Guðsteinn Einarsson

Vaxandi eftirspurn er eftir ósnortnum útivistasvæðum eins og Einkunnum, þar sem fólk getur sótt á vit nátturunnar, til afslöppunar og afþreyingar, fjarri skarskala þéttibýlisins. Friðlönd eins og Einkunnir eru einnig þeir staðir sem erlendir ferðamenn eru að leita eftir þegar þeir heimsækja Ísland.

Það er alveg með ólíkindum að sveitarstjórn Borgarbyggðar skuli láta sér detta í hug að ætla að troða skotæfingarsvæði við Einkunnir og yfir svæði sem hestamenn nota nú til beitar og útreiða.

Með þessum áformum er verið að eyðileggja hluta af þeirri upplifun sem fólk er að sækja í í Einkunnum og nágrenni þeirra, kyrrðin verður rofin með skothvellum. Þannig er verið að skerða og skaða Einkunnir sem friðland og sem friðsælt útivistarsvæði.

Í kafla 5 um Áhrif breytingar á samfélag og umhverfi í tillögu sveitarstjórnar Borgarbyggðar kveður skýrt á um að; „helstu umhverfisáhrif eru vegna hljóðmengunar frá leirdúfuskotvelli“.

Auk þess er afar ólíklegt, hvað sem sveitarstjórn segir, að áhrif frá riffiskotum verði óveruleg.

Það er einnig til umhugsunar að sveitarstjórn Borgarbyggðar telji þetta rétta aðgerð í skipulagsmálum og samþykki á sama fundi og hún bókar lofræðu um kosti þess að staðsetja yfirstjórn Hálendisþjóðgarðs í sveitarfélaginu. Með ákvörðun sinni um að troða skotæfingasvæði við friðlýst svæði Einkunna og yfir og á beitarsvæði hestamanna sýnir sveitarstjórn Borgarbyggðar mjög svo neikvætt viðhorf sitt til friðlýstra svæða og þjóðgarða, þeim megi fórna til hagsbótar fyrir fámenna sérhagsmunahópa.

Verum þess minnug að Einkunnir eru náttúruperla sem verður verðmætari og verðmætari eftir því sem árin líða. Látum ekki skammsýna og/eða þröngsýna stjórnmálamenn eyðileggja svæðið og nágrenni þessi fyrir skammtíma pólitíska hagsmuni.

Mótmælum þessum afglöpum sveitarstjórnar Borgarbyggðar og sendum viðeigandi athugasemdir innan þess frests sem skilgreindur var í auglýsingunni.

Skotæfingarsvæðið á ekkert erindi yfir og á það landsvæði sem boðað er, það á miklu frekar að útvíkka friðlandið og útvistarsvæðið fyrir allan almenning.

„Skjótum“ þessa dellu strax niður!

 

Borgarnesi, 1. janúar 2018.

Guðsteinn Einarsson.