Friðunaráráttan – nú er það Breiðafjörður

Bergþór Ólason og Sigurður Páll Jónsson

Tillögur Breiðafjarðarnefndar sem sendar voru umhverfisráðherra nýlega hafa vakið upp spurningar og jafnvel undrun.

Afdráttarlaus tillaga nefndarinnar þess efnis að ráðherra beiti sér fyrir að Breiðafjörður verði tilnefndur á lista Ramsarsvæða er eitt atriðanna. Sú afstaða nefndarinnar að skoða möguleika á því að skilgreina Breiðafjörð, að hluta til eða öllu leyti, sem þjóðgarð er annað. Vangaveltur um framtíðar tilnefningu á heimsminjaskrá UNESCO eru nefndar en að það verði ekki fyrr en eftir að lög um svæðið hafa verið endurskoðuð, Breiðfjörður tilnefndur á Ramsarskrá og ef til vill gerður að þjóðgarði. Að endingu er hnykkt á því að skoðun nefndarinnar sé að þjóðgarður á Breiðafirði væri líklega það skref sem myndi gagnast samfélögum við fjörðinn best.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp umhverfisráðherra um Hálendisþjóðgarð. Frumvarp sem reikna má með að verði það umdeildasta sem ríkisstjórnin hefur lagt fram á kjörtímabilinu.  Varúðarraddir berast úr öllum landshornum; sveitarfélög, bændur, útivistarsamtök og hagaðilar vara við nálguninni af hinum ýmsu ástæðum. Stofnanavæðing hálendisins sem þar er mælt fyrir um ætti ein og sér að hvetja hagaðila til að flýta sér hægt hvað málefni Breiðafjarðar varðar. Nálgunin er nefnilega af sama meiði.

Ríkisstjórnin hefur nýlega fengið samþykktar breytingar á svokölluðum þjóðlendulögum. Þar var opnað fyrir aðra hringferð um landið, þar sem ásælni ríkisins í lönd bænda og sveitarfélaga verður í forgrunni. Til að réttlæta þá vegferð fór kerfið þá leið að búa til vandamál, búa til ágreining þar sem enginn var áður, allt til þess að ná tangarhaldi á landi þar sem kröfugerðin var ekki eins ýtarleg og nokkur kostur var í fyrstu atrennu, almenningar stöðuvatna verða gerðir umdeildir. Þrætusker verða það raunverulega og nú í nauðvörn einkaaðila gagnvart hinu opinbera.

Af hverju nefnum við þetta hér og setjum yfirvofandi hugmyndir um frekari friðun Breiðafjarðar í samhengi við frumvarp um Hálendisþjóðgarð og þjóðlendumál? Það er vegna þess að nú um stundir virðist ásælni „sérfræðinga að sunnan“ til áhrifa vera með almesta móti og vilji til stofnanavæðingar landsvæða vera mikill. Í stað þess að þeir sem passað hafa upp á landsvæði, jafnvel árhundruðum saman, gæti þeirra áfram skal nú setja stjórnun þeirra með meira afgerandi hætti en áður til fjarlægra stofnana.

Vissulega er það þannig að sveitarfélög á svæðinu tilnefna meirihluta nefndarmanna í Breiðafjarðarnefnd, rétt eins og ætlunin er að hafa það í svæðisráðum hálendisþjóðgarðs, en reynslan bendir til að hinar raunverulegu ákvarðanir verði teknar fjarri heimasvæðinu.  Það er ekki vænleg staða fyrir þá sem hafa hagsmuni af og hafa mögulega stundað atvinnuskapandi rekstur um langa hríð.  Í öllu falli teljum við að rétt sé að flýta sér hægt hvað hugmyndir um frekari friðun Breiðafjarðar varðar.

 

Bergþór Ólason og Sigurður Páll Jónsson.

Höf. eru þingmenn Miðflokksins í NV kjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar