Friðlýsum Teigsskóg

Karl Kristjánsson

Í Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar segir að við upphaf byggðar á Íslandi hafi landið verið „viði vaxið milli fjalls og fjöru.“ Landnámið er talið hafa gengið hratt fyrir sig og að landið hafi verið fullnumið þegar Alþingi var stofnað á Þingvöllum 930. Með komu fyrstu landnámsmanna byrjar búseta mannsins að setja mark sitt á landslag og gróður. Í fyrstu er það eldurinn og búféð sem mestum breytingum veldur á viðkvæmum gróðri og ásýnd landsins og er talið að skógurinn hafi að mestu verið horfinn 250 árum eftir landnám. Seinna, á tuttugustu öldinni, koma til sögunnar stórvirkar vinnuvélar, jarðýtur, gröfur sem og sprengiefni. Vegur er ruddur heim að hverju byggðu bóli, mýrar ræstar fram og búskapur aukinn. Þéttbýli myndast með tilheyrandi raski og ágengar plöntur breiðast út, t.d. lúpína og kerfill og einnig skógrækt með framandi tegundum.

Nú er svo komið að á láglendi landsins er búsetulandslag ríkjandi. Afmörkuð landsvæði sem kalla má „landnámsland“ og eru lítið eða óröskuð af búsetu mannsins má telja á fingrum annarrar handar. Teigsskógur í Þorskafirði er eitt þeirra svæða. Hlíðin á milli Grafar og Hallsteinsness í Þorskafirði er eitt heilstæðasta vistkerfið sem til er á landinu sem er „viði vaxið milli fjalls og fjöru.

 

Fjölskrúðugt lífríki

Prófessor Ólafur Arnalds segir í grein 12. september 2016: „Gönguleiðin um Teigsskóg, frá Hallsteinsnesi að Gröf í Þorskafirði, er meðal þeirra fallegustu sem finnast á landinu. Landið er ósnortið og viði vaxið, birki með stökum reynitrjám, sem mörg hver eru ansi státin. Skóglendið er illfært gangandi fólki svo nota verður leiðina neðan skógar nærri flæðarmálinu. Fjaran einkennist af gríðarlega miklum fjölbreytileika: hvers kyns flæður og leirur, ofar eru votlendi af misjöfnu seltustigi, en síðan tekur skógarþykknið við. Hér er að finna einna mestan mun flóðs og fjöru á landinu og þótt víðar væri leitað sem eykur mjög á fjölbreytni strandsvæðisins. Boðaföll og fossar á innflæðinu auka náttúrufegurðina. Lífríkið er feykilega fjölskrúðugt, hér búa margar fuglategundir; mófuglar, votlendistegundir og ýmsar tegundir sem treysta á fjöruna og sjóinn. Ernir nýta innlögnina og svífa inn með hjallanum og sækja sér æti að vild. Óðalið úti fyrir nesinu. Óvíða á landinu er að finna jafn heillandi óraskaða heild frá fjöru til fjalls en að auki hefur skógurinn mjög sérstaka stöðu sem óraskaður birkiskógur. Ljóst að þessi gönguleið er einna fallegust á öllum Vestfjörðum og ætti tvímælalaust að sinni henni betur.“

 

Áskorun um verndun

Íbúar í Reykhólahreppi eiga ekki að þurfa að fórna dýrmætum náttúruperlum fyrir umbætur í vegamálum. Teigsskóg á að friðlýsa og vernda sem óraskað land. Ég skora á sveitunga mína að standa vörð um náttúru, umhverfi og lífríki sveitarinnar, þar liggja framtíðar möguleikar og tækifæri til uppbyggingar í ferðaþjónustu, og láta ekki undan þrýstingi og hótunum um að eina færa leiðin til vegabóta í Gufudalssveit sé í gegnum Teigsskóg og um mynni Djúpafjarðar og Gufufjarðar.

Ég skora á Vegagerðina, þingmenn kjördæmisins, Fjórðungssambandið og nágrannasveitarfélög að losa málið úr því átakaferli sem það hefur verið í alltof lengi og virða niðurstöðu Hæstaréttar frá 2009, virða náttúruverndarlög og lög um vernd Breiðafjarðar, niðurstöðu umhverfismatsins frá 23. mars í fyrra og láta af fordæmalausu þráhyggjustagli við að reyna að þræla vegi í gegnum skóginn og eyðileggja með því fágæta náttúruperlu en snúa sér frekar af krafti að því að fullhanna og fjármagna nýjan veg um Gufudalssveit með jarðgöngum undir Hjallaháls.

Skammtíma fjárhagshagsmunir eiga ekki að ráða för þegar teknar eru ákvarðanir um framkvæmdir sem valda óafturkræfum umhverfisspjöllum. Það eina sem íslenskt samfélag hefur ekki efni á að gera er að eyðileggja síðustu leifarnar sem eftir eru af „landnámslandinu“.

 

Karl Kristjánsson, Kambi.

Höf. er sveitarstjórnarfulltrúi í Reykhólahreppi.