Í fréttum er þetta helst – Borgarbyggð

Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir

Síðari hluta síðasta kjörtímabils var í undirbúningi viðbygging og endurbætur á Grunnskólanum í Borgarnesi. Nú eru þær framkvæmdir hafnar og eru í fullum gangi, verkið gengur vel. Það er þó um þremur  vikum á eftir áætlun en vonir standa til að vinna það upp og hefur kostnaðaráætlun haldist nokkurn veginn eða allt innan marka. Framkvæmdir við skólann munu standa til ársins 2021 samkvæmt núverandi framkvæmdaráætlun Borgarbyggðar. Þetta er löngu tímabær framkvæmd, það að bæta aðstöðu nemenda og starfsfólks skólans. Það er einnig ánægjulegt að sjá hversu mikil jákvæðni, þolinmæði og eftirvænting er í samfélaginu öllu í tengslum við þetta stóra metnaðarfulla verkefni. Eiga allir hlutaðeigandi hrós skilið fyrir það.

Í fjöldamörg ár hefur umræðan um húsnæði leikskólans Hnoðrabóls verið hávær, nú loksins sér fyrir endan á því að talað sé um hlutina og að farið verði að framkvæma. Undirbúningur að verkefninu er í fullum gangi og standa vonir til að framkvæmdir hefjist snemma árs 2019 á nýju húsnæði fyrir leikskólann. Markmiðið er að hægt verði að koma starfseminni inn í húsið við lok næsta árs en þörfin fyrir leikskólapláss er mikil á svæðinu. Núna á haustmánðuðum 2018 er staðan sú að skólinn er fullsetin og biðlisti er við skólann sem ekki er hægt að anna. Þá er ótalið í hversu lélegu ásigkomulagi núverandi húsnæði skólans er þar sem ekki hefur verið lagt viðhlítandi fjármagn til viðhalds síðustu ár vegna fyrirhugaðrar tilfærslu skólans.

Ljósleiðaraverkefni Borgarbyggðar er eitt það stærsta á landsvísu í ljósi þess hve dreifð byggðin er. Verkið var boðið út seinnipart sumars en Ríkiskaup sá um útboðið fyrir hönd sveitarfélagsins. Í síðustu viku var samþykkt á byggðaráðsfundi að ganga til samninga við lægstbjóðanda, SH Leiðarann. Það er mikið gleðiefni að nú geti framkvæmdir hafist.

Þessi þrjú stóru verkefni liggja fyrir og alveg ljóst að þau munu taka mikið fjármagn og tíma í sveitafélaginu en þau munu hinsvegar skila okkur, íbúum Borgarbyggðar, auknum lífsgæðum og betri þjónustu.

Þetta er þó langt því frá það eina sem unnið er að.  Frá því í haust hefur meirihlutinn í Borgarbyggð unnið að því að gera nýja húsnæðisáætlun fyrir sveitarfélagið en í september var gerð verðkönnun um vinnslu hennar og gengið var til samninga við KPMG þann 4. október sl. Sú áætlun verður til mjög fljótlega. Einnig er Borgarbyggð eitt af þeim rúmlega 30 sveitarfélögum sem hefur sótt um að taka þátt í tilraunaverkefni með það að markmiði að fjölga nýbyggingum á landsbyggðinni og efla leigumarkaðinn í samstarfi við Íbúðalánasjóð. Framangreint verkefni var sérstaklega tiltekið í grein oddvita Framsóknarflokksins í Borgarbyggð sem birtist í Skessuhorni þann 17. október síðastliðinn og bar heitið Værukæri meirihluti. Eins og sjá má af ofangreindu og fundargerðum byggðarráðs hafa þessi mál verið tíðrædd bæði í byggðarráði og á undirbúningsfundum en einnig gripið til viðeigandi aðgerða til að fleyta þeim áfram.

Búið er að taka ákvörðun um að leggja til við sveitarstjórn að skipta upp umhverfis,- skipulags og landbúnaðarnefnd í annars vegar „Skipulagsnefnd“ og hinsvegar „Umhverfis- og landbúnaðarnefnd“. Einnig verður þriðja nefndin stofnuð; „Atvinnu- markaðs og menningarmálanefnd“ og er ætlað að gefa málefnum sem hafa verið hálfgerð olnbogabörn meiri tíma og metnað.

Það á að efla umhverfis- og skipulagssvið Borgarbyggðar. Liður í því er að ráða inn í tímabundna stöðu aðstoðarmanns byggingarfulltrúa til að vinna á þeim fjölda mála sem hafa safnast upp á niðurskurðartímum, og eru dæmi um mál síðan um 2007 sem þarf að klára. Fjöldi mála eru að skerða tekjur sveitafélagsins með beinum hætti. Það er nefnilega ekki alltaf gott að spara aurinn en kasta krónunni.

Til að auka enn frekar á bætta stjórnsýslu hefur verið óskað eftir tilboðum frá þar til bærum aðilum til að vinna gæðahandbækur og verkferla fyrir hvert svið innan ráðhússins. Markmiðið með þeirri vinnu er að gera alla vinnu markvissari og til að hindra að verkefni falli milli skips og bryggju  vegna þess að ekki var ljóst hver verkferillinn væri.

Eins og þið sjáið kæru íbúar í Borgarbyggð þá er af nógu að taka og ýmis spennandi mál í pípunum. Hér er rétt svo stiklað á stærstu málunum sem snúa að breytingum sem unnið er að í sveitarfélaginu, á hveitibrauðsdögum nýs meirihluta í Borgarbyggð.

 

Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir

Höf. er formaður byggðarráðs Borgarbyggðar

Fleiri aðsendar greinar