Framúrskarandi Fjöliðja frekar en fortíðar

Einar Brandsson

Þegar bæjarstjórn Akraness samþykkti einróma í desember 2021 að reisa Samfélagsmiðstöð þar sem Fjöliðjan yrði til húsa og nýtt húsnæði undir starfsemi Búkollu og dósamóttöku Fjöliðjunnar lauk ferli sem hófst þegar Fjöliðjan á Dalbraut brann 2019. Einróma ákvörðun bæjarstjórnar með stuðningi Notendaráðs um málefni fatlaðs fólks var ánægjulegt og nauðsynlegt skref. Að fá tækifæri til þess að byggja frá grunni þessa starfsemi samkvæmt nútímakröfum ætti að vera öllum fagnaðarefni.

Bruni Fjöliðjunnar var að sönnu mikið áfall en sem betur fer tókst á skömmum tíma að útvega annað húsnæði til starfseminnar. Húsið sem brann hafði hýst starfsemina í 30 ár og var að sumu leyti orðið barn síns tíma og að auki hafði komið upp mygluvandamál sem ekki hafði verið leyst. Jafnframt fór starfsemi Búkollu fram í öðru húsnæði sem skömmu síðar var metið heilsuspillandi og hefur nú verið lokað.

Bæjarstjórn Akraness setti á fót vinnuhóp sem skila átti tillögum að framtíðarhúsnæði fyrir starfsemi Fjöliðjunnar. Í þeim hópi sátu m.a. stjórnendur Fjöliðjunnar. Niðurstaða hópsins var að endurreisa Fjöliðjuna í því húsnæði sem brann og stækka það hús eftir 15 ára gömlum teikningum sem ekki voru notaðar á þeim tíma.

Á sama tíma og ekki síst í kjölfar niðurstöðu starfshópsins fór fram mikil umræða bæði innan bæjarstjórnar og í samfélaginu á Akranesi. Strax var ljóst að ekki var samstaða um niðurstöðu starfshópsins. Endanleg ákvörðun í málinu og ábyrgð var í höndum bæjarstjórnar. Bæjarfulltrúar voru sammála um að uppbyggingin þyrfti að endurspegla nútímakröfur og um hana yrði að ríkja sátt meðal þeirra er þá ákvörðun bar að taka. Það tókst.

Með byggingu Samfélagsmiðstöðvar fær Fjöliðjan meira og betra rými til starfseminnar en hún áður hefur haft og nýtur einnig nálægðar við aðra þá er nýta aðra hluta Samfélagsmiðstöðvarinnar. Þá var einnig ákveðið að Búkolla og dósamóttaka Fjöliðjunnar yrðu til húsa í nýju húsi sem reist yrði á Kalmansvöllum ásamt áhaldahúsi bæjarins.

Þessi samstaða í bæjarstjórn var kynnt öllum þeim hagsmunaaðilum, þar með talið stjórnendum Fjöliðjunnar. Vissulega vildu þeir halda sig við tillögur starfshópsins og sú skoðun kom einnig fram hjá leiðbeinendum. Flestir aðrir er að málinu komu lýstu yfir mikilli ánægju með tillögu bæjarstjórnar og mikil tilhlökkun að komast í nýtt húsnæði sem sérhannað yrði með þeim kröfum sem nú eru uppi. Þegar bæjarstjórn hafði tekið endanlega ákvörðun í málinu var ákvörðunin m.a. kynnt stjórnendum og starfsfólki Fjöliðjunnar.

Í kjölfarið hófst undirbúningsvinna sem stjórnendur Fjöliðjunnar samþykktu að vinna að enda eru þeir lykilaðilar svo tryggja megi sem allra bestu niðurstöðu.

Stofnaðir voru tveir starfshópar, annar hópurinn sér um skipulag Samfélagsmiðstöðvarinnar og hinn um húsið á Kalmansvöllum. Kalmansvallahópurinn, sem í sitja tveir stjórnendur Fjöliðjunnar, er þessa dagana að ljúka störfum og hönnun þeirrar byggingar liggur fyrir í góðri samvinnu allra í hópnum.

Starfshópurinn um Samfélagsmiðstöð hefur lagt mikla vinnu í undirbúning og hefur þar notið aðstoðar ýmissa sérfræðinga. Fundað hefur verið með öllum þeim sem að Samfélagsmiðstöð eiga að koma þegar hún hefur störf. Því miður töfðust þeir fundir nokkuð en þeim er nú að verða lokið. Aðkoma leiðbeinenda Fjöliðjunnar að þeirri umræðu ollu mér miklum vonbrigðum. Það verður að segja það eins og það er. Þar ríkir nú sú skoðun að bæjarstjórn hafi ekki hlustað á þá, hafi svikið loforð, misnoti vald sitt með hroka, tali niður til og hunsi skoðanir fólks. Leiðbeinendur hafa með samþykki stjórnenda Fjöliðjunnar boðað bæjarfulltrúa hvern fyrir sig á sinn fund. Krafist þess að málið fari aftur á byrjunarreit og öll starfsemi ásamt Búkollu fari fram á einum stað og fyllilega aðskilin frá annarri starfsemi sem fram fer í bæjarfélaginu.

Leiðbeinendurnir sendu svo kaldar kveðjur til bæjarfulltrúa með grein í Skessuhorni í síðustu viku. Þær köldu kveðjur urðu tilefni skrifa minna nú sem ég hefði viljað vera laus við. Það kann ekki góðri lukku að stýra að bæjarfulltrúi þurfi að skrifast á við starfsmenn bæjarins á opinberum vettvangi. Ekki er heldur gott að þurfa að sitja undir þeim ávirðingum sem komu fram í áðurnefndri grein. Málfrelsi veitir leiðbeinendum hins vegar þann rétt kjósi þeir slíka málsmeðferð. Ég skrifa hins vegar þetta greinarkorn til að bera af mér þær sakir sem koma fram hjá leiðbeinendum í skrifum þeirra.

Fjöliðjan á Akranesi hefur um margt verið til fyrirmyndar en ekki fullkomin frekar en önnur mannanna verk. Góð saga síðustu 30 ára tryggir ekki góða sögu næstu 30 árin. Það tækifæri sem gafst með hörmulegum bruna húss Fjöliðjunnar varð í mínum huga að nýta sem allra best. Hugsa málin upp á nýtt samkvæmt nýjustu kröfum og hugmyndum um starfsemi sem þessa. Það gerði síðasta bæjarstjórn Akraness með ákvörðun sinni. Núverandi bæjarstjórn ætlar að halda áfram þeirri vegferð. Tryggja bestu mögulegu lausn á þeirri stöðu sem uppi er.

Vegferð leiðbeinenda Fjöliðjunnar er mér mikil vonbrigði. Ég vil horfa til framtíðar. Ég vona að leiðbeinendurnir virði lýðræðislega niðurstöðu bæjarstjórnar og skipi sér í hóp þeirra sem eru að vinna að því að skapa framúrskarandi Fjöliðju.

Einar Brandsson

Höf. er bæjarfulltrúi á Akranesi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.