Framtíðin er björt!

Elín Ósk Gunnarsdóttir

Síðustu ár hefur uppbygging verið mikil í Hvalfjarðarsveit og samfélagið okkar stækkað ört. Mikil eftirspurn er eftir lóðum til nýbyggingar í þéttbýlisstöðum sveitarfélagsins og ásamt því höfum við verið að sjá aukningu í nýbyggingum í dreifbýlinu. Sé rétt haldið á spilunum getur þessi þróun svo sannarlega haldið áfram og gert það að verkum að sveitarfélagið okkar stækki og dafni vel á næstu komandi árum. Íbúafjölgun hefur verið þó nokkur síðustu ár en þó má greina það að stór hluti þeirra sem velja að setjast hér að er fólk sem er að búa sig undir að setjast í helgan stein, fólk sem velur rólegt umhverfi í nálægð við þá fallegu náttúru sem Hvalfjörður hefur að bjóða. Við sjáum þetta vel í því að fjölgun í leik- og grunnskólanum hefur ekki verið í samræmi við fjölgun íbúa síðustu ár, þessu þarf svo sannarlega að breyta.

Fyrir eðlilega íbúaþróun vantar mikið upp á að fólk á aldrinum 20 – 35 ára hafi möguleika á því að setjist að í Hvalfjarðarsveit. Hingað til hefur það verið nánast ómögulegt fyrir fólk á þessum aldri að finna sér húsnæði, enda lítið annað í boði en að kaupa sér lóð og byggja einbýlishús. Í flestum tilfellum hefur ungt fólk sem er að stofna fjölskyldu ekki burði eða getu til að fara út í slíka framkvæmd. Hvalfjarðarsveit þarf að gera betur í lóðaframboði, við þurfum að geta boðið ólíka kosti til nýbygginga bæði minni og stærri lóðir, fyrir minni og stærri íbúðir og að þannig skapist frekari möguleikar fyrir fjölbreytni íbúa í þéttbýliskjörnunum okkar.

Getur verið að ástæða þess að ungt fólk hverfi frá því að velja Hvalfjarðarveit sem góðan búsetukost sé sú að fjarlægð frá þéttbýli að grunnskóla er mikil?

Grunnskólinn okkar og sú þjónusta sem byggist gjarnan upp í kringum skólasamfélag svo sem að íþróttahús er ekki til staðar í Melahverfi, umræðan um að skólinn okkar sé ekki á réttum stað innan sveitarfélagsins, hefur aukist síðustu ár. Því er ég sammála.

Mín skoðun er sú að það eigi að vinna að því á næstu 10 – 15 árum að koma allri grunnþjónustu í Melahverfið. Byrja á að byggja nýjan leikskóla, í framhaldinu verði byggt íþróttahús, svo verði byggður skóli og að lokum bætt við sundlaug. Ákjósanlegt væri að þetta yrði allt í frekar einföldum en hentugum einingum sem tengdust saman. Með þessu myndast stór og sterk eining og mikil samlegðaráhrif væru til staðar, til að mynda eitt mötuneyti.

Þetta eru stórar og miklar hugmyndir en ég er sannfærð um að Hvalfjarðarsveit hafi alla burði til að stefna að þessu með skynsamlegum hætti á næstu árum.

Ég vil horfa til framtíðar, hætta að horfa í baksýnisspegilinn og tala sífellt um hvað hefði mátt betur fara.

Við íbúar Hvalfjarðarsveitar þurfum að horfa fram á veginn, hugsa um hvernig samfélag við viljum að byggist upp fyrir börnin, barnabörnin okkar og komandi kynslóðir. Ég er tilbúin að vinna þessum málum framgang ásamt öðrum þeim málum sem þarf að huga að til að gera gott samfélag enn betra.  Saman getum við meira.

Ég óska eftir stuðning þínum þann 14. maí.

 

Elín Ósk Gunnarsdóttir, Belgsholti í Hvalfjarðarveit.