Framtíðin byrjar á morgun

Lárus Elíasson

Þú vaknar að morgni sumardagsins fyrsta 2040, það er orðið hlýrra og lygnara en áður. Bæði sökum heimshlýnunar og ekki síður sökum aukins gróðurs. Heimshlýnun er um 2°C en aukinn gróður gerir það að verkum að það hlýnar enn meira yfir daginn á sumrin þar sem sólarhitunin við jörðu blæs ekki strax burtu. Þú vaknar í raun til svipaðs ástands og var við landnám.

Borgarbyggð hefur breyst. Samgöngur eru nær alveg orðnar rafknúnar sem; strætó, einkabílar, skútur og rafhjól. Notkun á skútum og hjólum hefur aukist mikið með batnandi veðurfari, sem og öll önnur útivist. Stærri farartæki eru sum á eldsneyti sem búið er til úr lífmassa sem fellur til í landbúnaði og frá heimilum, en með því móti nýtist kolefnið og áburðarefnunum er skilað aftur til landbúnaðarins.

Landbúnaður hefur eflst; kornrækt hefur aukist mikið eftir stofnun Kornsamlagsins og þegar farið er um sveitir Borgarbyggðar eru kornakrar algeng sjón. Skógrækt er mikil, bæði sem kolefnisgjafi í stóriðjuna og ekki síður sem kolefnisbinding og nytjaskógar, og íslenskt timbur er í boði til ýmissa nytja. Svo er komin framleiðsla lífmassa sem breytt er í fóður fyrir fiskeldi. Þetta, ásamt endurnýjanlegum orkuverum, hefur kolefnisjafnað Borgarbyggð. Skapast hefur fullkomin hringrás.

Háskólarnir báðir hafa skapað sér sérstöðu á heimsvísu og hingað sækja nemendur allsstaðar að. Slíkt hefur eflt bæði atvinnu og menningarlíf.  Þessi tengsl gera það líka að verkum að íslensk iðnaðar- og matvara fer víðar.

Borgarnes hefur tvöfaldast og það hefur líka orðið mikil fjölgun í minni byggðakjörnunum. Eins er mikið um að á bæjunum búi fólk þar sem annar aðilinn stundar landbúnað (dýrahald, skógrækt, kornrækt, fóðurframleiðslu, ferðaþjónustu o.fl.) en hinn vinnur utan heimilis þar sem hluti vinnutímans er unninn í fjarvinnu að heiman og hinn á vinnustað. Til að styðja þetta hafa orðið til skrifstofusetur þar sem starfsmenn mismunandi fyrirtækja og stofnana deila húsnæði og mötuneyti.

Sveitarfélagið er vinsælt til búsetu sökum umhverfis til að ala upp börn, góðrar nærþjónustu, öflugra skóla og samgangna innan byggðar. Höfuðborgarsvæðið er líka hæfilega nálægt eftir; Sundabraut, tvöföldun Hvalfjarðarganga og tvöföldum vegarins milli gangna og Borgarfjarðarbrúar. Því er hægt að njóta öryggis og þæginda dreifbýlisins án þess að gefa eftir kosti þéttbýlisins í aðgengi að stærri markaði.

Þetta er framtíðarsýn sem VG leggur kapp á að ná sem fyrst. Hækkun hitastigs verður eitthvað hvort sem er, en það getur bæði verið ógn og tækifæri, eftir því hvernig á er haldið. Tökum framtíðinni fagnandi og byrjum strax á morgun að vinna að þeim markmiðum sem að ofan greinir.

 

Lárus Elíasson

Höfundur er í 6. sæti á lista Vinstri grænna í Borgarbyggð.