Framtíðarsýn sveitarstjórnarfólks þarf að vera skýr

Guðveig Anna Eyglóardóttir

Í fjárhagsáætlun Borgarbyggðar sem samþykkt var í desember er gert ráð fyrir að sveitarfélagið ráðist í einar umfangsmestu framkvæmdir síðari ára. Vinna við hagræðingu og sölu eigna í upphafi kjörtímabilsins, auknar skatttekjur m.a. í tengslum við jákvæðan rekstur ríkissjóðs, hafa skilað þeim árangri að sjóðsstaða sveitarfélagsins er góð.

Á framkvæmdaáætlun næstu fjögurra ára er gert ráð fyrir því að vel yfir milljarður fari í framkvæmdir við skólahúsnæði í sveitarfélaginu. Þar er helst um að ræða endurbætur og nýbygging við Grunnskólann í Borgarnesi og nýja leikskólabyggingu fyrir leikskólann Hnoðraból við Kleppjárnsreykjaskóla. Þessar framkvæmdir verða að mestu leyti fjármagnaðar án lántöku sem þýðir jafnframt að gengið verður verulega á handbært fé sveitarfélagsins og því ljóst að lántökur verða óumflýjanlegar hjá sveitarstjórn á nýju kjörtímabili.  Í allri uppbyggingu á húsnæði og gatnagerð er nauðsynlegt að líta til íbúaþróunar og samsetningu íbúa. T.a.m er ljóst að eldri borgurum mun fjölga næstu árin í sveitarfélaginu og mikilvægt er að leggja grunn að því að aðstaða fyrir alla aldurshópa til heilsueflingar og félagsstarfs sé eins góð og kostur er.

Þegar farið er yfir vörður sem unnið er að samkvæmt Brúnni til framtíðar er ljóst að við erum tæp á þeim markmiðum sem við settum með framlegð samkvæmt áætlun til næstu ára. Þó að staða sveitarsjóðs sé góð í dag er mikilvægt að sofna ekki á verðinum og huga að því að treysta rekstur sveitarfélagsins til framtíðar í samræmi við markmið í Brúnna til framtíðar þar sem lagður var grunnur að því að ákvarðanataka sveitarfélagsins væri vel rökstudd, byggð á traustum greiningum, gögnum og langtímasjónarmiðum, sala eigna væri m.a nýtt til að greiða niður skuldir umfram afborganir lána og að rekstur sveitarfélagsins standi undir fjárfestingum til framtíðar. Ef vilji er til þess hjá meirihluta sveitarstjórnar að halda þessum markmiðum er nauðsynlegt að upplýsingar liggi fyrir um áætlanir þar að lútandi og að ekki sé sofið á verðinum. Mikilvægt er að stöðugt endurmat sé á nýtingu tækifæra til að hagræða og framsýni sé viðhöfð í takast á við nýjar áskoranir og byggja upp til framtíðar. Ábyrgð kjörinna fulltrúa er mikil og ekki síst þegar vel árar, því er lykilatriði að skýr framtíðarsýn liggi fyrir til grundvallar ákvörðunum sem byggi á ráðgefandi þekkingu um skipulagsmál og íbúaþróun.

 

Guðveig Anna Eyglóardóttir

Höf. er oddviti Framsóknarflokks í sveitarstjórn Borgarbyggðar