Framsýni og þjóðgarðar

Ragnar Frank Kristjánsson

Þjóðgarðar erlendis og hér heima eru aðdráttarafl fyrir ferðamenn og hafa mikil efnahagsáhrif á nærsamfélagið, fyrir því eru ótal rannsóknarskýrslur bæði innlendar sem erlendar. Oddviti framsóknarmanna í Borgarbyggð ritaði grein í Vísi 9.12.2020 „Neikvæð áhrif hálendisþjóðgarð á ferðaþjónustu,“ að um væri að ræða gamaldags hugmyndafræði. Grímur Sæmundsen forstjóri Blálónsins er fylgismaður stofnunar miðhálendisþjóðgarðs, hann er sannfærður að þjóðgarðar laði til landsins fjölda ferðamanna. Fyrirtækið hans stendur nú að uppbyggingu ferðaþjónustufyrirtækja í Þjórsárdal og upp í Kerlingarfjöllum. Það er því sérkennilegt að oddviti framsóknarmanna í Borgarbyggð kemst að annarri niðurstöðu en sá aðili sem rekur stærsta ferðamannastað landsins; Bláalónið.

Ef horft er yfir sögu stofnunar þjóðgarða á Íslandi, þá kemur í ljós að framsýnir framsóknarmenn hafa staðið í forystuhlutverki í náttúruvernd. Jónas Jónsson frá Hriflu, fyrrum ráðherra, var einn aðal hvatamaður að Þingvellir voru friðlýstir, hann barðist hetjulega fyrir málinu og að lokum var svæðið friðlýst 1930 sem helgistaður þjóðarinnar. Á Þingvelli komu 1,5 milljón ferðamanna 2019 og svæðið er á heimsminjaskrá UNESCO. Eysteinn Jónsson, fyrrum ráðherra var aðal hvatamaður að fyrstu náttúruverndarlögum landsins sem samþykkt voru 1956. Á þeim byggja forsenda fyrir friðlýsingum náttúruminja m.a. þjóðgarða. Guðmundur Bjarnason, fyrrum umhverfisráðherra vann að stofnun Snæfellsnesþjóðgarðs í sinni ráðherratíð. Siv Friðleifsdóttir fyrrum umhverfisráðherra rak síðan smiðshöggið 2001 og hefur Snæfellsjökulsþjóðgarður verið mikill happafengur fyrir Vestlendinga. Siv vann einnig ötullega að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og var hugmyndasmiður að tengja rekstur við svæðisstjórnir og auka þar með áhrif sveitarstjórna og ferðaþjónustu á rekstur þjóðgarðsins. Vatnajökulsþjóðgarður var settur á heimsminjaskrá UNESCO 2018.

Undirritaður þekkir vel til ferðaþjónustufyrirtækja í Skaftafellssýslum og reksturs þjóðgarða. Get því fullyrt að það hafi verið gæfuspor fyrir sveitarfélögin í Skaftárhreppi og Sveitarfélagið Hornafjörð að stofnaður var Vatnajökulsþjóðgarður 2008. Árið 2019 heimsóttu um 600.000 gestir Skaftafell og Jökulsárlón.  Á þriðja tug nýrra ferðaþjónustufyrirtækja hafa verið stofnuð á síðustu tíu árum. Íbúafjöldi í Öræfum hefur tvöfaldast frá 2010, ung fólk sest að í sveitinni. Fjöldi fastráðinna starfsmanna sem vinna við þjóðgarðinn eru 34 og af þeim eru 30 á landsbyggðinni. Uppbygging í sveitarfélögunum og innan þjóðgarðsins hafa verið mikil og nú er hafin uppbygging á nýrri gestastofu á Kirkjabæjarklaustri.

Það er misskilningur hjá mörgum sveitarstjórnarfulltrúum að skipulagsvaldið fari frá sveitarfélögunum við stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Samkvæmt skipulagslögum þá eru það sveitarfélögin sem útbúa og samþykkja aðal- og deiliskipulag. Ákvörðun um friðlýsingar er alltaf ákvörðun landeiganda, sveitarfélags og náttúruverndaryfirvalda, það sem gerist innan friðlandsins er því sáttmáli þessara aðila. Í frumvarpsdrögum að miðhálendisþjóðgarði er gert ráð fyrir að hafa fjölda hagsmunaaðila í svæðisstjórnum sem eiga að koma að ákvarðanatöku s.s. sveitarstjórnarfulltrúar, ferðamála- og bændasamtök. Oft hafa hagsmunasamtök kvartað yfir að hafa ekki möguleika að hafa áhrif á ákvarðanir í rekstri og uppbyggingu friðlanda.

Sem forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar 2010-2014 þá vann ég og sveitarstjóri Borgarbyggðar að fá samþykkt ísgöng í Langjökli 2011. Þar sem óvissa var um eignarhald á jöklinum (þjóðlenda), þurfti fjölda funda með lögfræðingum í stjórnarráðneytinu. Ég er viss um að flækjustigið og hættan á að ekkert yrði úr framkvæmdinni hefði verið minni ef þjóðgarður hefði náð yfir Langjökul. Þá hefði ákvörðunin verið hjá sveitarfélaginu og hagsmunaaðilum en ekki í forsætisráðuneytinu. Ísgöngin í Landjökli hafa haft mikil og góð efnahagslegaáhrif á samfélagið í uppsveitum Borgarfjaðrar. Uppbygging ferðaþjónustu í Húsafelli og við Víðgemli hefði væntanlega ekki verið jafn mikil ef ísgöngin hefðu ekki verið komin. Á síðasta ári komu yfir 35.000 gestir í ísgöngin. Við þurfum að gera okkur grein fyrir að yfir 90% af miðhálendinu eru þjóðlendur og því í umsjón stjórnarráðsins.  Ég myndi telja að það væri happafengur fyrir Borgarbyggð að fá þjóðgarðsvörð upp í Húsafell og allt að fimm landverði til að hugsa um vesturhluta þjóðgarðsins. Hafa sérmenntað starfsfólk til að byggja upp friðlöndin í sveitarfélaginu svo þau geta tekið á móti innlendum sem erlendum ferðamönnum á komandi árum.

Það er augljóst að mörg tækifæri liggja í stofnun þjóðgarða. Því er mikilvægt að alþingmenn og sveitarstjórnarfólk kynni sér málið vel og skoði sögu stofnunar þjóðgarða á Ísland og hvaða gæfuspor þau hafa haft fyrir lítil sveitarfélög á landsbyggðinni. Það þarf framsýnt fólk að taka góðar ákvarðanir fyrir land og þjóð.

 

Ragnar Frank Kristjánsson.

Höf. er landslagsarkitekt. Sveitarstjórnarfulltrúi í Borgarbyggð 2010-2018 og þjóðgarðsvörður í Skaftafelli 1999-2007.

Fleiri aðsendar greinar