Framsækni í skólamálum

Davíð Sigurðsson

Það er ekki sjálfgefið að vera valinn til þess að vera fulltrúi flokks til sveitarstjórnarkosninga. Ég þurfti að hugsa mig lengi um áður en ég ákvað að láta slag standa. Þegar málefnavinna flokksins hófst og boltinn fór að rúlla áttaði ég mig á því hversu skemmtilegt og gefandi þetta getur verið. Það að fá að taka þátt í að móta framtíðarsýn og hugmyndir sem ætlunin er að vinna eftir er mikill ábyrgðarhluti en við vonumst til þess að þær hugmyndir sem við höfum falli jafn vel í kramið hjá íbúum sveitarfélagsins og þær gera hjá okkur.

Við framsóknarfólk ætlum að sækja fram í skólamálum bæði á leikskóla- og grunnskólastigi.

Nú er búið að samþykkja að byggja nýjan og glæsilegan leikskóla á Kleppjárnsreykjum auk þess að gera löngu tímabærar endurbætur og stækkun við grunnskólann í Borgarnesi. Þessu ber að fagna og munum við sjá til þess að framkvæmdirnar fari af stað.

Við ætlum ekki að staldra of lengi við heldur gera framsæknar áætlanir um aukningu á leikskólaplássi í Borgarnesi samhliða áætlunum um stórsókn í íbúðaframboði án þess þó að skerða það góða þjónustustig sem við höfum í leikskólum sveitarfélagsins, en það er ekki sjálfgefið í dag að geta boðið upp á leikskólapláss frá 12 mánaða aldri.

Við ætlum að tryggja nýliðun kennara með bættum kjörum og góðu starfsumhverfi, einnig viljum við stórefla sérfræðiþjónustu til þess að koma til móts við ólíkan hóp nemenda með fjölbreyttar þarfir. Framsókn vill stuðla að menntun leiðbeinenda í leik- og grunnskólum og koma til móts við þá með því að laun verði ekki dregin af starfsmönnum í námslotum.

Í nútímasamfélagi er nauðsynlegt að vera framsýnn og tryggja verður að skólarnir séu þannig tækjum og tæknibúnaði búnir að þeir geti skilað af sér virkum þáttakendum inn í nútímasamfélag.

Við viljum nota kjörtímabilið í að vinna framtíðarstefnu í grunnskólamálum í samráði við íbúa sveitarfélagsins með það að markmiði að uppfylla ofangreind atriði.

Getum við ekki öll verið sammála um það að þjónustustig í skólamálum bæði á leik- og grunnskólastigi er fyrir flesta grunnforsenda þegar valið er framtíðarheimili.

 

Davíð Sigurðsson.

Höfundur skipar annað sæti Framsóknarflokksins í Borgarbyggð.