
Framfarir og áskoranir í velferðarþjónustu Borgarbyggðar
Guðveig Lind Eyglóardóttir
Á yfirstandandi kjörtímabili hefur mikið verið unnið að því að efla og samræma velferðarþjónustu sveitarfélaga á Vesturlandi. Markmið með auknu samstarfi er að efla þjónustuna og skapa kraftmikinn vettvang til samstarfs fyrir reynslumikinn og öflugan hóp starfsmanna sveitarfélaganna á Vesturlandi í málaflokknum. Stór framfaraskrefi hafa verið tekin í fjölda þróunarverkefna, samstarf hefur verið að þéttast á milli sveitarfélaga og þjónusta við bæði börn, fjölskyldur, aldraða og fatlað fólk verið styrkt.
Stofnaður hefur verið samráðshópur stjórnenda velferðarþjónustu undir hatti SSV. Hópurinn fundar reglulega og hefur reynst mikilvægur vettvangur fyrir samráð og sameiginlega þróun milli sveitarfélaga. Svæðisbundið Farsældarráð á Vesturlandi hefur verið stofnað. Um er að ræða samstarfsvettvang þjónustuveitenda ríkis og sveitarfélaga sem sinna málefnum barna í landshlutanum. Í ráðinu eiga sæti m.a. fulltrúar leik, grunn- og framhaldsskóla, félagsþjónustu og barnaverndar, heilbrigðisþjónustu, lögreglu, skólaþjónustu, frístunda- og íþróttastarfs, ungmenna sem og aðrir aðilar eftir þörfum svæðisins.
Efling þjónustu og aðstöðu við hóp eldra fólks
Samningur um verkefnið Janus – Heilsueflingu 60+ tók gildi 1. janúar 2024 og hefur verið framlengdur til tveggja ára frá 1. janúar 2026. Í tengslum við verkefnið var m.a. farið í kaup á tækjum í þreksal íþróttahússins í Borgarnesi. Þátttaka í verkefninu hefur frá upphafi verið mjög góð og boðið er uppá tíma með leiðbeinendum bæði í Borgarnesi og á Kleppjárnsreykjum. Í lok nóvember 2024 fór fram þjónustukönnun til þátttakenda, þar sem spurt var út í þjónustuþætti og hvort iðkendur finndu mun á andlegri-, líkamlegri- og félagslegri líðan frá því þau hófu þátttöku. Um 97% iðkenda telja þjónustuna vera góða eða mjög góða. Um 76% iðkenda segjast finna fyrir jákvæðum/mjög jákvæðum breytingum á andlegri- og félagslegri líðan sinni. Þegar spurt var út í líkamlega líðan sögðust tæplega 80% finna fyrir jákvæðum eða mjög jákvæðum breytingum.
Samstarf Öldunnar og félagsstarfs aldraðra hefur verið styrkt verulega. Ný verkefni hafa litið dagsins ljós á árinu, svo sem smíðastofa með opnum tímum þar sem áhersla hefur verið lögð á hóp eldri karla. Sömuleiðis hefur verið boðið uppá gróðurhús þar sem eldri borgarar geta notið samveru og ræktunar yfir sumartímann. Ráðist var í endurbætur á aðstöðu félagsstarfs aldraðra á árinu með nýjum innréttingum og búnaði.
Breytingar voru gerðar á akstursþjónustu fyrir aldraða og fatlaða þegar farið var í útboð á akstrinum. Reglur þjónustunnar voru jafnframt endurskoðaðar og uppfærðar á árinu. Fyrirtækið Dagleið sinnir nú allri akstursþjónustu sem tryggir skilvirka og samræmda framkvæmd.
Gott að eldast
Vesturland tók stórt skref í samþættingu öldrunarþjónustu þegar umsókn SSV var samþykkt fyrir hönd sveitarfélaganna. Sveitarfélög og HVE standa að verkefninu og þegar hefur verið stofnað MOMA-teymi til að styðja við innleiðinguna. Móttöku- og matsteymi Borgarbyggðar (MOMA teymi). Í teyminu sitja fulltrúar frá félagsþjónustunni, heilsugæslunni í Borgarnesi og Brákarhlíð. Hlutverk þess MOMA teymis er að auka samþættingu á milli stofnana og tyggja að rétt þjónusta sé veitt af réttum aðila á réttum tíma.
Samræmd móttaka og þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd
Í desember 2023 var gerður umfangsmikill samningur um samræmda móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Samningurinn, sem hefur verið framlengdur, gerði upphaflega ráð fyrir 180 einstaklingum en sá fjöldi hefur nú verið lækkaður í 140. Samhliða því verður áfram sérstök áhersla á þá vinnu í nánu samstarfi við Vinnumálastofnun um að fækka þeim sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda og markvisst auka þann hóp flóttamanna sem sækir atvinnu og eru virkir þátttakendur í samfélaginu. Ljóst er að sveitarfélagið ber töluverðan og fjárhagslegan þunga vegna fjölda flóttafólks sem hefur verið búsett í yfir tvö ár og framlag frá ríkinu, eða réttur sveitarfélaga til endurgreiðslu er ekki lengur til staðar skv. 15. gr. laga um félagsþjónustu nr. 40/1991. Fulltrúar sveitarfélagsins hafa ávarpað þessar áhyggjur við ráðherra og þingmenn kjördæmisins.
Breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð í Borgarbyggð
Borgarbyggð tók upp á árinu nýtt fyrirkomulag og færist nú yfir í svokallaða leið B. Flest sveitarfélög fara nú leið B, en Borgarbyggð var eitt fárra sveitarfélaga sem var enn í leið A. Samkvæmt útreikningi, þá er hagkvæmara fyrir Borgarbyggð að fara leið B. Með breytingunni er bæði dregið úr kostnaði og mögulegt að styðja markvissar við barnafjölskyldur þar sem foreldrar eru á fjárhagsaðstoð. Að mati sveitarfélagsins skilar nýtt kerfi auknu réttlæti: nú er kallað eftir öllum tekjuupplýsingum, einnig erlendis frá, og umsækjendur þurfa að mæta vikulega til að staðfesta búsetu til að tryggja áframhaldandi fjárhagsaðstoð. Ef það er ekki gert, getur það leitt til skerðingar.
Innleiðing farsældar – nýtt verklag í þágu barna og fjölskyldna
Innleiðing löggjafar um farsæld barna er komin langt og hefur markað tímamót í þjónustu við fjölskyldur. Farsældarteymi hefur verið sett á laggirnar og fundar vikulega, auk þess sem stofnað hefur verið farsældarráð sem starfar þvert á sveitarfélög Vesturlands. Fjöldi barna hefur fengið úthlutað tengilið eða málstjóra á öðru og þriðja stigi farsældar, sem tryggir snemmtækan og heildrænan stuðning.
Uppbygging barnaverndarþjónustu
Gerður hefur verið samningur við Hvalfjarðarsveit og sveitarfélög í Byggðasamlagi Snæfellinga um skóla- og félagsþjónustu. Unnið hefur verið hratt og markvisst að því að byggja upp samræmda og öfluga barnaverndarþjónustu á Vesturlandi.
Samhliða undirbúningi að stofnun barnaverndarþjónustu Vesturlands hefur verið komið á fót sameiginlegri bakvakt fyrir Borgarbyggð, Hvalfjarðarsveit, Snæfellsbæ, Grundarfjörð, Stykkishólm og svo Eyja- og Miklaholtshrepp. Frá og með 1. maí sl. var aðeins eitt bakvaktar símanúmer fyrir öll þessi sveitarfélög. Með nýju fyrirkomulagi var stofnað svokallað bakvaktarteymi, þar sem einn stjórnandi er ávallt á vakt fyrir utan þann starfsmann sem sinnir bakvaktinni auk þess sem einn starfsmaður er á útkallsvakt. Vaktir skiptast svo á milli sveitarfélaga eftir ákveðnu kerfi. Með þessu fyrirkomulagi næst ákveðin hagræðing og betri stuðningur við starfsfólkið sem sinnir bakvöktum auk jafnara álags á allt starfsfólk. Sameiginlega bakvakt eykur öryggi og viðbragðsflýti utan hefðbundins vinnutíma.
Notendaráð og stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks
Stofnað hefur verið notendaráð fatlaðs fólks sem stuðlar að auknum áhrifum og rödd notenda í stefnumótun. Hlutverk notendaráðs er að vera ráðgefandi fyrir sveitarfélagið við stefnumörkun og áætlanagerð er varðar málefni fatlaðs fólks og er skipað af notendum. Nú stendur yfir vinna við gerð nýrrar stefnu í málefnum fatlaðs fólks sem mun marka framtíð þjónustunnar. Markmiðið er að móta stefnu í málaflokkum þar sem lagður er frekari grunnur að öflugri þjónustu við fatlað fólk í samræmi við lög og reglugerðir sem gilda um þjónustuna. Hlutverk hópsins er m.a. að greina stöðu og þarfir fatlaðs fólks í samfélaginu, tryggja samráð á milli stofnanna og starfsfólks, móta framtíðarsýn í málaflokknum og leggja fram aðgerðaráætlun. Í allri þeirri vinnu verður lögð áhersla á samráð við notendaráð fatlaðs fólks, notendur þjónustunnar sem og aðstandendur þeirra eftir þörfum.
Samráðshópur stjórnenda í velferðarþjónustu á Vesturlandi hefur um nokkurt skeið rætt möguleika á sameiginlegri uppbyggingu á skammtímadvöl fyrir fötluð börn og ungmenni. Það er ánægjulegt að geta upplýst það að undirbúningur að skammtímadvöl fyrir fötluð börn í Holti er hafinn. Samstarfsyfirlýsing hefur verið undirrituð milli sveitarfélaga á Vesturlandi og Þroskahjálpar, sem markar upphafið að mikilvægu nýju úrræði fyrir fjölskyldur.
Uppbygging félagslegs leiguhúsnæðis
Það hefur legið fyrir í nokkurn tíma að fara þarf í töluverðar endurbætur á hluta félagslegra íbúða í eigu sveitarfélagsins með tilheyrandi kostnaði. Því lagði velferðarnefnd til að frekari framleiga á húsnæði verði skoðuð til lengri tíma litið og hluti íbúða í mikilli viðhaldsþörf verði seldar þegar þær losna eða leigutaka býðst annað húsnæði. Í framhaldi var farið í að heildstæð vinnu við það að skoða möguleikana á að fjölga og efla félagslegt leiguhúsnæði. Tillögur hafa verið lagðar fram um stefnu sveitarfélagsins um félagslegt húsnæði og í tengslum við það sölu tiltekinna eigna og um samstarf við H-ses félög, með það að markmiði að tryggja bæði hentugri og fjölbreyttari úrræði.
Innleiðing þjónandi leiðsagnar
Þjónandi leiðsögn er nú í innleiðingu á mörgum sviðum velferðarþjónustu, m.a. í búsetuþjónustu, á Öldunni, í frístund, félagsstarfi aldraðra og í félagsmiðstöðinni Óðali.
Með þjónandi leiðsögn er byggt á einstaklingsmiðaðri nálgun þar sem samskipti á milli starfsfólk og notanda eru þungamiðjan. Mannleg gildi, vinátta, umhyggja, tengsl og hvatning eru grundvallaratriði í öllum samskiptum. Með því að innleiða Þjónandi leiðsögn er verið að styrkja grunnstoðir stofnana og vonast er eftir því að árangur í þjónustu verði meiri og líðan notanda sömuleiðis. Með því að hefja innleiðingarferlið i Búsetuþjónustu Borgarbyggðar, í Öldunni og frístund er tekið mikilvægt skref sem síðar mætti nýta til frekari innleiðingar inn í aðrar stofnanir Borgarbyggðar.
Samræmt áfallateymi í Borgarbyggð
Velferðarnefnd hefur lagt mikla áherslu á að stofnað verði samræmt áfallateymi í Borgarbyggð. Samræmt áfallateymi tryggir skjót, samhæfð og fagleg viðbrögð þegar áföll dynja yfir. Með samvinnu ýmissa stofnanna í sveitarfélaginu er hægt að auka fagmennsku, létta álag á kerfum og tryggja heildræna og samfellu í þjónustu við einstaklinga og fjölskyldur. Vonir standa til þess að snemma á nýju ári verði búið að móta slíkt teymi fyrir Vesturland með aðkomu Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, Rauða krossinum, lögreglunni, þjóðkirkjunni og björgunarsveit ásamt fulltrúum frá Borgarbyggð.
Mannauður málaflokksins
Ljóst er að öflug félags- og velferðarþjónusta sveitarfélaga byggist á öflugum mannauð sem starfar í þessum viðkvæma málaflokk. Í Borgarbyggð starfar öflugt teymi fólks með mikla þekkingu og reynslu. Það fer oft á tíðum ekki mikið fyrir þessum hóp fólks sem starfar „bakvið tjöldin“. Ég er afar þakklát og stolt af þeim öfluga og framsækna hóp starfsmanna sem leiðir málaflokkinn í Borgarbyggð.
Guðveig Lind Eyglóardóttir
Höf. er forseti sveitarstjórnar í Borgarbyggð og formaður velferðarnefndar.