Fræðsla um eldvarnir skilar árangri

Þráinn Ólafsson

Eldvarnaátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna fer fram um allt land um þessar mundir eins og mörg undanfarin ár. Slökkviliðsmenn heimsækja þá börnin í 3. bekk grunnskólanna og fræða þau um eldvarnir. Börnin fá með sér heim handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins og söguna af Brennu-Vargi og Loga og Glóð. Þeim gefst jafnframt kostur á að taka þátt í Eldvarnagetrauninni en heppnir þátttakendur í henni fá jafnan afhent vegleg verðlaun á 112-deginum, 11. febrúar.

Auknar eldvarnir

Landssambandið hefur um langt árabil lagt áherslu á forvarnastarf og hefur haldið Eldvarnaátakinu úti með dyggum stuðningi fjölmargra aðila í rúma tvo áratugi. Það er því gleðilegt að geta greint frá því að samkvæmt rannsóknum sem Gallup hefur gert fyrir landssambandið og Eldvarnabandalagið skilar fræðsla af þessu tagi greinilegum árangri. Gallup hefur kannað ástand eldvarna á heimilum landsmanna á tveggja ára fresti undanfarin tíu ár og þróunin er ótvíræð; heimilin auka eldvarnir sínar jafnt og þétt. Æ færri hafa engan eða bara einn reykskynjara en að sama skapi fjölgar þeim til muna sem hafa þrjá eða fleiri.

Mun algengara er nú en fyrir tíu árum að slökkvitæki og eldvarnateppi séu á heimilum. Í könnun sem gerð var nú í haust kom fram að helmingur heimila er með allt í senn reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi en það er einmitt það sem okkar menn mæla með. Við eigum verk að vinna en þessar niðurstöður hvetja okkur sannarlega til dáða.

Sýnum aðgát á aðventunni!

Fræðsla um eldvarnir á alltaf við en þó aldrei eins og nú í byrjun aðventu. Um leið og við hvetjum fólk til að hafa nauðsynlegan eldvarnabúnað á heimilinu leggjum við ekki síður áherslu á mikilvægi þess að fara varlega í daglegri umgengni á heimilinu.

Á næstu vikum ríður sérstaklega á að fara varlega með opinn eld, kertaljós og þvíumlíkt. Og munið að slaka ekki á klónni þótt jólahátíðinni ljúki og nýtt ár gangi í garð því reynslan sýnir að eldsvoðar á heimilum eru ekki síður algengir á fyrstu vikum ársins en á aðventu og um jól.

Gleðilega hátíð!

 

Þráinn Ólafsson.

Höf. er slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar.

 

 

 

Fleiri aðsendar greinar