Frá meirihluta sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar

Meirihluti sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar

Meirihluti sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar sendir eftirfarandi svar við pennagrein Ólafs Óskarssonar dags. 9. mars síðastliðinn:

Meirihluti sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar vísar til fyrra svars frá 22. febrúar sl. vegna fjölmargra þeirra hugleiðinga sem fram koma í grein bréfritara. Til að mynda kemur þar nokkuð skýrt fram að framtíðarsýn á legu þjóðvegar 1 í gegnum sveitarfélagið er á forræði Vegagerðarinnar sem hefur ráðið verkfræðistofuna VSÓ til ráðgjafar við verkefnið. Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur í þeirri vinnu ekki lagt fram tillögur um hvaða kostir séu skoðaðir og hverjir ekki, svo það sé ítrekað, en greinarhöfundur ýjar að því í skrifum sínum að svo sé. Líkt og áður hefur komið fram hefur, á þessu stigi málsins, ekki verið óskað eftir tillögum né umsögnum frá sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar um frumtillögur að legu þjóðvegar 1 um sveitarfélagið. Sveitarstjórn gerir ráð fyrir að við valkostagreiningu sína sé Vegagerðin með til hliðsjónar öll þau gögn sem hún hefur látið vinna fyrir sig í gegnum tíðina. Þar á meðal matsskýrslu VSÓ ráðgjafar um veg um Grunnafjörð frá árinu 2009 og skýrslu Mannvits frá apríl 2018 um samanburð gangnaleiða nýrra Hvalfjarðarganga. Í skýrslu Mannvits kemur m.a. fram að stytting þjóðvegar 1 er um 2,8 km. verði hagkvæmasti kostur við legu nýrra Hvalfjarðarganga valinn. Þá er gert ráð fyrir að gangamunni að norðanverðu komi upp á mörkum jarðanna Kúludalsár og Grafar. Hins vegar getur stytting þjóðvegar 1 mest orðið um 1 km. með vegi um mynni Grunnafjarðar.

Ólafur veltir fyrir sér hvers vegna sveitarstjórnarfulltrúar nágrannasveitarfélaga séu ekki að vinna að framgangi leiðar yfir Grunnafjörð, sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar getur ekki svarað fyrir það. Ólafur vísar jafnframt í svar samgönguráðherra, núverandi innviðaráðherra, við fyrirspurn þingmannsins Guðjóns Brjánssonar árið 2020. Fyrirspurn Guðjóns er nokkuð ýtarleg og svar ráðherra sömuleiðis. Rétt er það sem fram kemur í svari ráðherra að sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar tók á þeim tíma ekki efnislega afstöðu til veglínu um mynni Grunnafjarðar og vildi ekki tefja gildistöku aðalskipulagsins líkt og fram kemur í greinargerð skipulagsins, enda lá fyrir að Umhverfisstofnun legðist gegn vegalagningunni. Að lokum vill sveitarstjórn árétta fyrri afstöðu sína að það er hlutverk og verkefni Vegagerðarinnar að leggja til valkosti og finna bestu lausnir í samgöngumálum og hafa samráð við sveitarstjórn og íbúa sveitarfélagsins. Það er á síðari stigum sem sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar tekur afstöðu til þeirra valkosta sem lagðir verða fram. Vonandi setur Vegagerðin kraft í þessa greiningarvinnu svo hægt sé að vinna málið áfram og ljúka því.

Það er ekki ætlun meirihluta sveitarstjórnar að standa í frekari skrifum við greinarhöfund, enda er verkefnið ennþá á vinnslustigi hjá Vegagerðinni og ráðgjafa hennar. Málið mun síðar í ferlinu koma til umfjöllunar og ákvarðanatöku hjá sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar líkt og áður er getið.

 

Með vinsemd og virðingu,

Meirihluti sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.