Frá Íslandsklukku til Hafsins

Halla Margrét Jóhannesdóttir

Fyrir sautján árum heilsaði mér ný öld með símtali. Það var Gísli Einarsson, þá búsettur á Lundi II, sem átti fyrsta símtal aldarinnar til mín. Eftir að hafa afsakað að hringja í mig á nýarsdag bar hann upp erindið og óskaði eftir að ég leikstýrði Íslandsklukkunni í Lundarreykjadal.

Ekki vissi ég hvar dalinn væri að finna en á þessum tíma var herra Google ekki enn tekinn til starfa svo að við ákváðum því að funda á miðri leið. Þrátt fyrir að þekkja Gísla ekki neitt tók ég sénsinn og féllst á að við hittumst á mótel Venusi. Þar átum sveitta hamborgara og spjölluðum um Laxness og leiksýningar. Eftir að hafa handsalað samning hófst öllu meira áhættuatriði en að hitta ókunnugan mann á mótel Venusi, nefnilega að setjast  upp í bíl með téðum manni og aka með honum upp í Lundarreykjadal. Strax í þessari bílferð sá ég að maðurinn var þúsundþjalasmiður þar sem hann kveikti sér í sígarettu, skipti um geisladiska, rúllaði niður rúðum og hélt sér á veginum á sömu sekúndunni á hraða sem hvaða formúluökuþór væri stolltur af.

Ég fékk inni á Skarði II og átti góða granna á báðar hendur þessa tvo mánuði sem ég dvaldi þar. Skemmst er frá því að segja að mér var afskaplega vel tekið í dalnum. Þrátt fyrir ýmsar skrýtnar hugmyndir sem frá mér komu, og ekki lá alltaf í augum uppi hvernig skyldi útfæra, voru allir boðnir og búnir að leggja sitt af mörkum svo að sýningin yrði að veruleika og sem best. Og Íslandsklukkan fór á svið og vakti lukku.

Ég þurfti því ekki að hugsa mig lengi um þegar í lok síðasta árs ég fékk fyrirspurn frá leikdeild Umf. Dagrenningar hvort ég vildi koma og leikstýra.

Nú er það Hafið eftir Ólaf Hauk Símonarson sem um tuttugu manna hópur hefur undanfarna tvo mánuð unnið hörðum höndum að koma á fjalirnar. Sem fyrr einkennir verk- og vinnugleði Lunddælinga. Hvaða atvinnuleikhús gæti verið stolt af sköpunar- og framkvæmdaorkunni sem einkennt hefur vinnuferlið. Hér eru verkin frekar unnin en að tala um þau og engin verkáætlun lendir í nefnd í Lundarreykjadal. Sviðsmynd og áhorfendapallar hafa verið smíðaðir, búningar saumaðir og munir og erfðagóss fengið að láni úr fleiri en einni sókn. Og leikarar hafa ekki eingöngu lært sinn texta heldur sýnt hugrekki og þor í sköpun sinni með því að stíga út fyrir sinn eigin þægindaramma og inn í ramma verksins þar sem fjölskyldumynd Þórðar útgerðarmanns er kannski ekki alveg jafn slétt og felld og virðist á yfirborðinu.

Við hlökkum til að sjá ykkur í Brautartungu. Næstu sýningar verða fimmtudaginn 16. og föstudaginn 17. mars og hefjast þær klukkan 20:30. Miða má panta í símum: 892 9687 og 868 7996.

 

Halla Margrét Jóhannesdóttir, leikstjóri

Fleiri aðsendar greinar