Forvarnir í forgang

Sigurður Páll Jónsson

Margir tala um að þunginn í komandi alþingiskosningum snúist um heilbrigðismál. Gott og vel, framfarir í heilbrigðisþjónustu kalla á meira fjármagn. Það hefur reynst stjórnvöldum erfitt að verða við því ákalli, þó hefur aldrei verið settur eins mikill peningur í heilbrigðiskerfið og á yfirstandandi kjörtímabili, en betur má ef duga skal.

Það hefur sannað sig að þar sem forvarnir eru notaðar og fjármagn sett í þá vinnu, hefur árangur orðið greinilegur.

Gríðarlegar framfarir hafa orðið í meðferð áfengis og vímuefnasjúklinga (alkahólista). Það er staðreynd að ungt fólk í dag, margt hvert, tekur meðvitaða ákvörðun um að hefja ekki neyslu ávanabindandi efna. Þessi mál voru ekki á þeim stað þegar ég var unglingur, fyrir um fjörtíu árum síðan. Þá voru þeir sem vildu ekki prófa, sérvitringar, en í dag er litið upp til þeirra sem segja nei takk, allvegana geri ég það. Þarna sannast að forvarnir vega þungt og er árangur þeirra ótvíræður.

Baksjúkdómar eru ýmiskonar og eru orsakir þeirra margvíslegar. Þó má benda á að koma hefði mátt í veg fyrir í mörgum tilfellum að viðkomandi fengi brjósklos eða vöðvatognun, ef sá hinn sami hefði vitað betur, svo dæmi sé tekið. Bakdeildin á sjúkrahúsinu í Stykkishólmi hefur sérhæft sig í meðferðum á baksjúkdómum með sérhæfðu fólki og eru biðlistar þar yfirleitt nokkur hundruð manns sem gefur til kynna að meðferðin getur af sér gott orð, en er fjársvelt svo ekki sé dýpra í árina tekið.

Andlegir kvillar, kvíði, spenna og geðraskanir af ýmsum toga, eru alltaf að koma meira í ljós, oft á tíðum vegna lífstíls sem viðkomandi áttar sig ekki á fyrr en hann leitar hjálpar, ef hann þá gerir það. Þar geta forvarnir komið í veg fyrir að illa fari í mörgum tilfellum.

Að vera ekki í kjörþyngd er vandamál sem alltof margir þekkja og eru alkonar vandamál sem því fylgir og er efni í langa grein.

Ég hef hér aðeins tæpt á því hvað, að mínu mati, hvernig mætti spara í heilbrigðismálum með aukinni áherslu á forvarnir og meiri meðvitund um að taka ábyrgð á eigin heilsu, því heilsan er okkur öllum svo mikilvæg.

 

Sigurður Páll Jónsson, Stykkishólmi.

Höf. skipar þriðja sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi.